Smábátaútgerð og frístundabátar munu áfram eiga athvarf í Flensborgarhöfn í Hafnarfirði eftir mikla umbyltingu sem fyrirhuguð er á svæðinu.
Forsaga málsins er sú að árið 2018 efndi Hafnarfjarðarbær til hugmyndasamkeppni um rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæðið. Tvær tillögur sem báru sigur úr býtum voru sameinaðar í eina. Markmið var „að auka samtvinnun bæjar og hafnar með þéttri og blandaðri byggð í sátt við aðliggjandi hverfi og hafnarstarfsemi,“ eins og segir í greinargerð Batterísins og hollenska fyrirtækisins JVST bv með skipulagstillögunni.
Ný landfylling
Varðandi þann þátt fyrirhugaðrar uppbyggingar sem tengist hafnarsvæðinu beint segir að aðlaga eigi núverandi bryggjur að nýrri landfyllingu. „Meðfram trébryggju (gönguleið) verður sex metra autt athafnasvæði þar sem ökutæki tengd starfseminni er heimilt að keyra inn á og leggja á meðan unnið er við bátana. Ekki er heimilt að skilja bíla eftir á þessu svæði,“ segir í greinargerðinni. Athafnasvæðið verði sameiginlegt gangandi umferð.
„Höfninni er heimilt að sérmerkja eða aðgangsstýra með snyrtilegum hætti bílastæði fyrir sjómenn á móts við Fornubúðir 12.“
Lífleg smábátahöfn
Þá segir að nýr sjósetningarrampur verði norðaustan við lóð siglingaklúbbs. Við hlið hans verði flotbryggja samsíða trébryggju sem sé gönguleið.
„Flensborgarhöfn er lífleg smábátahöfn þar sem skemmtileg blanda smábátaútgerðar, frístundabáta og æskulýðs og félagsstarf setja mark sitt á mannlíf og yfirbragð svæðisins. Skipulagið tekur mið af því að lífið í nýju íbúða- og þjónustuhverfi verði samofið áframhaldandi starfsemi á höfninni þannig að sögu sjósóknar í Hafnarfirði sé viðhaldið og gerð góð skil. Í þessu felast mikil verðmæti sem halda skal í og taka tillit til við þróun og uppbyggingu skipulagsins,“ segir í greinargerðinni.
Dráttarbrautin tenging við sjóinn
Mikilvægt er sagt vera að núverandi starfsemi hafnarinnar haldi áfram og verði samofin nýju og fjölbreyttu mannlífi svæðisins. Halda eigi í byggingar á svæðinu eins og kostur sé eða endurgera þær í svipaðri mynd.
„Verbúðarhúsin við Fornubúðir, Íshús Hafnarfjarðar og Siglingaklúbburinn Þytur eru órjúfanleg arfleið svæðisins og eru lykilatriði í uppbyggingunni. Dráttarbraut gamla slippsins verður áberandi á svæðinu og viðheldur beinni tengingu við sjóinn. Þessi síðasta fjörutenging bæjarins verður eitt af hjartarýmunum og tengir iðnaðarsögu svæðisins við framtíð þess sem líflegt borgarrými. Ljósamöstur sem fyrir eru á höfninni verða færð til og aðlöguð að nýju skipulagi. Meðfram nýjum bryggjukanti þarf að vera sex metra breitt athafnasvæði. Það er nauðsynlegt svo að hægt sé að þjónusta báta í höfninni og tryggja áframhaldandi starfsemi,“ er meðal þess sem fram kemur.
Saga Flensborgarhafnar
Í greinargerðinni er stiklað yfir sögu Flensborgarhafnar sem sögð er hafa í gegnum tíðina verið órjúfanlegur hluti sjávarútvegs og útgerðar í bænum.
„Þrátt fyrir að iðnaðarhlutverk svæðisins hafi verið víkjandi síðustu áratugina er ímynd hafntengdrar starfsemi sýnileg á svæðinu og lifandi í hjörtum bæjarbúa. Sjómannadagurinn er rótgróinn viðburður í sögu Hafnarfjarðar, allt frá árinu 1953. Þar gefst fólki tækifæri til heimsækja Hafnarfjarðarhöfn og kynnast þeirri menningu sem þar er boðið upp á, listasöfn og fjölbreytta veitingastaði. Sjómannadagurinn undirstrikar mikilvægi sjávarútvegsins fyrir nærsamfélagið,“ segir í greinargerðinni.
Þá segir að merkustu mannvirki svæðisins séu annars vegar Íshús Hafnarfjarðar sem var áður öflugt hraðfrystihús og fiskvinnsla og hins vegar slippurinn og dráttarbrautin sem séu síðustu minningarnar um skipasmíði og fjörutengingu í miðbæ Hafnarfjarðar.