Hafrannsóknastofnun hefur fengið 40 milljónir króna styrk til að framkvæma grunnrannsóknir á líffræði Hvalfjarðar. Styrkveitandinn er Röst sjávarrannsóknasetur og kemur upphæðin til viðbótar við 60 milljóna króna styrk sem Röst veitti stofnuninni fyrr á þessu ári til rannsókna á haffræði Hvalfjarðar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Hvalfjörður verði best rannsakaði fjörður Íslands

„Þar með hefur Röst styrkt Hafrannsóknastofnun um samtals 100 milljónir króna á þessu ári til að fjármagna rannsóknir í Hvalfirði. Vonir standa til að eftir að verkefninu lýkur verði Hvalfjörðurinn einn best rannsakaði fjörður landsins. Markmið rannsóknanna er að afla grunngagna sem mikilvæg eru vegna fyrirhugaðra rannsókna Rastar á sviði aukinnar basavirkni sjávar (e. Ocean Alkalinity Enhancement, OAE),“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að styrkverkefnið feli í sér að Hafrannsóknastofnun geri víðtækar grunnrannsóknir til að meta núverandi ástand uppsjávar og botnlægs vistkerfis í Hvalfirði. „Til þess að safna nákvæmum gögnum um vistkerfið verða meðal annars framkvæmdar bergmálsmælingar, svifdýrasýnataka, þörungagreiningar og DNA úr plöntum og lífverum safnað á ýmsum stöðum í firðinum.“

Salome Hallfreðsdóttir, framkvæmdastjóri Rastar. Mynd/Aðsend
Salome Hallfreðsdóttir, framkvæmdastjóri Rastar. Mynd/Aðsend

Gögnin og skýrsla gerð aðgengileg öllum

Þá segir að rannsóknarverkefnið hafi byrjað nú í október og að það muni standa fram á næsta ár. Gögn verkefnisins verði gerð aðgengileg í heild, meðal annars í opnum gagnagrunni Seanoe. Hafrannsóknastofnun muni birta ítarlega skýrslu og miðla niðurstöðunum til þeirra sem kunni að hafa áhuga og öllum verði heimilt að hagnýta sér niðurstöður verkefnisins.

„Verkefnið á að leiða til dýpri þekkingar á líffræði fjarðarins og bætist við þekkingu úr rannsóknum á haffræði Hvalfjarðar sem Hafrannsóknastofnun hóf fyrr á árinu með styrk frá Röst. Þær rannsóknir eru enn í gangi og munu standa fram í maí 2025,“ segir í tilkynningunni.

Óhagnaðardrifið rannsóknarfélag

Um Röst sjávarrannsóknasetur segir að það sé nýlega stofnað óhagnaðardrifið rannsóknarfélag sem hafi það hlutverk að stuðla að rannsóknum sem tengist hafinu og loftslagsbreytingum. Röst sé hluti af alþjóðlegu neti rannsóknastöðva undir hatti Carbon to Sea Initiativ sem sé óhagnaðardrifin bandarísk sjálfseignarstofnun sem starfrækt sé með stuðningi góðgerðasamtaka og vísindasjóða á sviði loftslagsmála.

„Stofnunin leiðir metnaðarfulla áætlun sem ætlað er að kanna hvort aukning á basavirkni sjávar sé skilvirk og örugg varanleg leið til þess að fjarlægja koldíoxíð úr andrúmsloftinu. Röst er dótturfélag íslenska loftslagsfyrirtækisins Transition Labs.“

Mikilvægt að kanna áhrif loftslagsbreytinga og súrnunar sjávar

Haft er eftir Salome Hallfreðsdóttur, framkvæmdastjóra Rastar, að mikil þörf sé á rannsóknum sem tengist hafinu og loftslagsbreytingum, til að mynda varðandi áhrif súrnunar sjávar á lífverur og vistkerfi hafsins. Einnig sé mikilvægt að kanna hvort og hvernig hafið geti hjálpað okkur við að draga úr loftslagsbreytingum.

„Aukin basavirkni sjávar er aðferð sem vísindasamfélagið um allan heim er farið að rannsaka með það fyrir augum að kanna hvort hún geti nýst komandi kynslóðum við að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Til að svo megi verða þarf vísindalega þekkingu svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir. Öflun grunngagna er forsenda þess að geta stundað rannsóknir á þessu sviði og erum við hjá Röst afar ánægð með að geta leitað til Hafrannsóknastofnunar í því skyni,“ er haft eftir Salóme.

Fái heilsteyptari mynd af lífríki Hvalfjarða

Jónas Páll Jónasson, sviðsstjóri botnsjávarsviðs Hafrannsóknarstofnunar, segir mikilvægt að efla grunnrannsóknir í Hvalfirði, bæði vegna rannsóknaverkefnis Rastar og þar sem almennt sé aukinn áhugi á að nýta svæðið á þann hátt sem sem geti skapað aukið fjölbreytt álag.

„Mjög áhugavert verður til að mynda að bera saman upplýsingar um umhverfis erfðaefni við það hvaða lífverur finnast í greipar, botn og svifsýnum. Heilsteyptari mynd fæst af fjölbreyttu lífríki fjarðarins sem er forsenda ákvarðanatöku um rannsóknir á svæðinu,“ er haft eftir Jónasi.

Kafað eftir kóralþörungasýnum

Bylgja Sif Jónsdóttir leiðangursstjóri með sæfjöðurstegund sem kallast Umbellula encrinus. Mynd/Aðsend
Bylgja Sif Jónsdóttir leiðangursstjóri með sæfjöðurstegund sem kallast Umbellula encrinus. Mynd/Aðsend

Leiðangursstjórinn Bylgja Sif Jónsdóttir segir að til að rannsaka vistkerfi sjávar sé nauðsynlegt að taka tillit til allra þeirra þátta sem geti haft áhrif á mótun þeirra. Til að fá skýra mynd af líffræði Hvalfjarðar séu margir mismunandi þættir skoðaðir sem allir tengist hver öðrum á einhvern hátt.

„Fyrsti leiðangurinn var núna í byrjun október en mikil reynsla bæði áhafnar og rannsóknarfólks ásamt góðu veðri varð til þess að leiðangurinn heppnaðist ótrúlega vel. Næsti leiðangur fer í að taka myndir og myndbönd af botninum í Hvalfirði og þeim lífverum sem finnast þar. Einnig verður kafað eftir kóralþörungasýnum næsta vor ásamt því að rannsaka þangið og þarann í fjörunni. Það verður spennandi að sjá niðurstöðurnar og gaman að fá að vera partur af því að gera svona víðtæka rannsókn á heilum firði,“ er haft eftir Bylgju Sif í tilkynningunni vegna þessa rannsóknarverkefnis.