Um síðustu áramót var stofnað undir merkjum vélsmiðjunnar Héðins hf. nýtt fyrirtæki, HPP Solutions ehf, sem framleiðir og selur litlar próteinverksmiðjur í bæði skip og landvinnslur. Þessar litlu verksmiðjur eru töluvert frábrugðnar gömlu mjöl- og lýsisbræðslunum sem Héðinn byggði um land allt á síðustu öld.
„Þetta á sér langan aðdraganda,“ segir Gunnar Pálsson um þessa nýjung og þróunarvinnuna að baki. Gunnar er verkfræðingur og hefur starfað hjá Héðni síðan 1990. Undanfarin 15 ár eða svo hefur hann einbeitt sér að þróun á þessum próteinverksmiðjum sem nú hafa verið seldar víða um heim fyrir milljarða króna.
„Við erum búin að vera í fiskimjöli frá því snemma á síðustu öld, í samvinnu við sjávarútvegsfyrirtækin. Þær voru í hverju byggðarlagi og mikið af þeim var smíðað í Héðni eftir seinni heimsstyrjöldina. Þetta var fyrirbæri sem þá var sjálfsagður hluti af fiskvinnslunni í landinu“
Í þessum verksmiðjum var búið til fiskimjöl úr uppsjávarfiski og úrgangi sem til féll. Gunnar segir að megnið af mjöli úr úrgangi hafi verið notað í fóður og selt til bænda, jafnvel beint til bænda í nærsveitum verksmiðjanna. Sums staðar var framleitt lýsi, en ekki í öllum þessum verksmiðjum.
„Þetta fiskimjöl var bara eins og hvert annað fóður. Verðlagið á því stýrðist af próteinverði, eiginlega algjörlega. Bændurnir vildu gjarnan hafa það með í fóðrinu og hafa séð að það hafði góð áhrif á skepnurnar með öðru.“
Sojamjölið kemur
Upp úr 1970 verða miklar breytingar á fóðurframleiðslu í heiminum þegar sojamjöl kemur til sögunnar.
„Það verður mikið verðfall á próteini í fóðri, og það varð til þess að þessar litlu verksmiðjur voru ekki lengur arðbærar, eða miklu síður arðbærar en áður var. Þær voru líka börn síns tíma, ofboðslega mengandi og fólkið í nágrenni við þær hataðist út í þær út af ólykt,“ segir Gunnar.
„Það verða líka breytingar á bæði vinnslunni og aðferðarfræðinni við bolfiskveiðar og vinnslu. Menn fara freistast til að geyma efnið. Menn bregðast við með því að stækka verksmiðjurnar og ná sér í uppsjafarfisk bara fyrir þær. Sumar verksmiðjurnar voru hugsaðar upphaflega fyrir síld og svo loðnu og annan uppsjávarfisk, iðnaðarfisk, en þróunin verður sú að í mörgum byggðarlögum voru komnar verksmiðjur sem voru miklu stærri en þurfti fyrir þessa úrgangsvinnsluna.“
Þetta segir hann að vísu hafa gerst annars staðar í miklu meira mæli en hér á landi.
„Þessi hagkvæmni stórvinnslunnar leiðir m.a. til að þessi gríðarlegi fiskimjölsiðnaður í Suður-Ameríku og víðar í heiminum verður til. Verksmiðjurnar stækka og stækka, og öll þróunin fer í þá átt að búa til verksmiðjur sem hafa hagkvæmni stærðarinnar. En hér á landi gerðist þetta líka. Í mörgum byggðarlögum voru efldust verksmiðjurnar og stækkuðu, en hinar sem voru minni hurfu.“
Gamalt hráefni
Vandinn við stóru verksmiðjurnar varð hins vegar sá að þær hentuðu illa til að vinna í smærri stíl þorskhausa og annað sem féll til í vinnslunni.
„Menn fóru þá að safna þessu jafnvel í margar vikur. Þetta var jafnvel orðið að maðki þegar þetta var loksins unnið, margra vikna gamalt og hráefnið orðið herfilegt. Og lyktin ofboðsleg, bæði af hráefninu og af afurðunum. Allt þetta verður svo til þess, og margir aðrir þættir, að þessar verksmiðjur hverfa og þær eru eiginlega allar horfnar um 1990. Þá var mjög lítið eftir af þessum gömlu verksmiðjum, og engum datt í hug að byggja nýjar.“
Á níunda áratugnum voru að vísu byggðar tvær eða þrjár verksmiðjur fyrir úrgang, en Gunnar segir þær hafa verið fengnar með því að kaupa gamlar verksmiðjur sem höfðu verið um borð í skipum.
„Þær voru að hverfa úr skipum líka og þetta gilti um allar verksmiðjur í heiminum. Það var mikið af svona litlum frumstæðum verksmiðjum í skipum alveg frá því snemma á síðustu öld. Þær gerðu það ágætt út af góðu verði á afurðum, en það datt botninn úr þessu öllu saman og menn fara bara að henda þessu í sjóinn.“
Ný hugsun
Þegar hér var komið sögu, um og upp úr síðustu aldamótum, fara Gunnar og félagar hans í Héðni að skoða hvort ekki megi hugsa hlutina eitthvað upp á nýtt.
„Einn þáttur í því væri að þróa nýjan búnað sem væri hentugri. Búnað sem mengaði ekki svona mikið og gæti skilað af sér betri afurðum eins og hægt var að gera í stóru verksmiðjunum. Þær voru farnar að þróast mikið á þessum árum og það fer að koma betur og betur í ljós að gæði á fiskimjöli og lýsi er algjörlega háð gæðum á hráefninu sem inn í þessar verksmiðjur fer. Þá er það ferskleikinn á hráefninu sem skiptir öllu máli, eins og í öllum sjávarútvegi.“
Hann segir vinnulagið í Héðni alla tíð hafa verið þannig að þegar minna er að gera fara menn að sinna þróunarverkefnum af ýmsu tagi. Þetta hafi yfirleitt verið gert í nánu samstarfi við viðskiptavinina, ekki síst stóru fyrirtækin sem hafa bolmagn í slíkt samstarf.
„Þá erum við að smíða einhvern tilraunabúnað og fáum að prófa hann hjá verksmiðjunum og þær taka þátt í því. Við erum í afskaplega góðum og djúpum samböndum. Við erum þar alltaf í viðhaldi og inni á gafli í alls konar breytingum. Við höfum mikið til verið með sömu kúnnana mjög lengi þar sem viðskiptin byggjast á trausti og samvinnu.“
Þróunarstarf hefst
„Þá sem sagt förum við að horfa aftur á litlu verksmiðjurnar og sjá möguleikana. Þannig að við ákveðum það árið 2008 að fara í þróunarstarf af alvöru. Við settum menn inn í þetta sem ekki hafa unnið við neitt annað síðan þá óháð því sem var að gerast í fyrirtækinu annað. Það er svo ekki fyrr en 2015-16 sem við förum að geta selt svona vélar.“
Alls konar byrjunarörðugleikar fylgdu þessu, og fyrirfram vissu menn að svo myndi verða. Þróunin heldur áfram eftir að tækin eru komin í notkun.
„Fyrsta alvöru verksmiðjan fór í Sólbergið á Siglufirði.“
Kaupunum fylgir að þróunarvinnan heldur áfram, enda segir Gunnar það algjört lykilatriði til að geta þróað svona búnað að geta komist inn í alvöru vinnslu.

- Fyrsta próteinverksmiðjan frá Héðni um borð í Sólberginu. MYND/Héðinn hf.
„Þetta er mikið langtímamál, en þetta hefur nú smám saman farið að ganga betur. Núna erum við búnir að selja þessar vélar nokkra milljarða, í skip og á landi, mest í Evrópu og eitthvað á Íslandi. Sumar eru búnar að vera í notkun í 4-5 ár. Flestar eru þessar verksmiðjur erlendis, í Færeyjum og Noregi og víðar. Nú síðast vorum við að selja verksmiðju til Finnlands. Síðan erum við með eitt skip sem er gert út frá Seattle, en er reyndar í Beringshafinu frá Dutch Harbour.“
Margar stærðir
„Við erum búnir að búa til margar stærðir sem eru þegar komnar í notkun. Og í margs konar hráefni. Það er yfirleitt sérhæft í hvert skipti og það þarf að hafa mikla þekkingu á því. Við höfum verksmiðjur sem eru frá 10 tonnum á sólarhring upp í 300, af þessari gerð. Þær nýjustu tvær eru að fara á Norðfjörð, tvær 200 tonna verksmiðjur. Það eru kannski einhverjar 6-8 stærðir sem við hugsum okkur og flestar þeirra eru þegar orðnar til.“
Hann segir íslensku HPP verksmiðjurnar vera nýjung sem finnst ekki annars staðar.
„Það eru auðvitað mjög margir að búa til verksmiðjur, en það eru mjög fáir eða engir sem eru með svona heildarlausn. Algengast er kannski að menn kaupa einhvern búnað og þurfa bara að koma honum saman sjálfir. En þetta er mjög sérhæfður búnaður og það eru fá fyrirtæki í þessu nú orðið. Það er eitt stórt fyrirtæki eftir sem er í Danmörku og heitir Haarslev, sem framleiðir alls konar búnað og það er mikil saga á bak við það allt saman. Þeir kannski setja upp heilu verksmiðjurnar líka, en það er ekki þeirra kjarnastarfsemi. Þeir eru frekar í að framleiða einstök tæki í svona verksmiðjur.“
Alltaf á byrjunarreit
„Þetta er heilmikil vegferð og við erum bara á einum stað í þeirri vegferð, það er alltaf byrjunarreitur. Nú vitum við að við getum gert þær vélar sem við lögðum af stað með. Þær eru litlar, þær búa til góðar afurðir og þær eru auðveldar í keyrslu og gernýta hráefnið. Nú er það í höndum nýja HPP-Solutions ehf að vinna markaðinn fyrir þessar vélar, sem eru fyrst og fremst hugsaðar sem viðbót við vinnslur þar sem verið er að vinna dýrar afurðir til manneldis. Með því að ná hráefninu fersku beint í vinnsluna verður til úrvals íblöndunar efni í fóður fyrir fisk, búfénað og gæludýr.“

- Starfsmenn Héðins að störfum við próteinverksmiðjuna í North Star. Aðsend mynd
Um þessar mundir er Síldarvinnslan í Neskaupstað einmitt að kaupa slíka verksmiðju af HPP.
„Þeir ætla að hafa stóru verksmiðjuna fyrir iðnaðarfiskinn og svo þessar minni línur sem keyra alltaf stanslaust fyrir úrgang frá matvinnslunni, vélar sem eru þá alltaf að vinna ferskt hráefni jafnóðum og það verður til.“
Áfram verður líka unnið að minni verksmiðjum í skipum.
„Nú eru menn miklu nær um að hverju þeir ganga, og hvað þarf til. Einn stór hluti af þessu eru svo afurðirnar, hvernig á að koma þeim í verð og hvernig ætla menn að kenna notendunum á þessar afurðir. Þetta eru margvíslegar afurðir eftir fisktegundum og þær geta haft margvíslega eiginleika sem getur verið heppilegra fyrir suma en ekki fyrir aðra. Þarna sé ég fyrir mér margra ára þróun sem verður ekki gerð öðru vísi en með einhvers konar félagsskap eða einhverjum aðilum sem sjá ljósið í því, að selja afurðirnar frá þessum verksmiðjum. Þetta er allt samtvinnað, án aðgangs að fersku hráefni, véla sem geta búið til afurðirnar og aðila sem vinna markað fyrir þær er hætt við að minna verði úr en efni standa til.“
Þurfti að skræla allt innan úr skipinu
Haustið 2018 skall fellibylurinn Michael á ríkjum við Karíbahafið, en hann er einn af öflugustu stormum þar hafa borist á land. Tjónið varð gríðarlegt, ekki síst í Flórída og víðar á suðurströnd Bandaríkjanna. Þar á meðal fór á hliðina splunkunýr frystitogari, North Star, sem þá var verið að leggja síðustu hönd á hjá skipasmíðastöðinni Eastern Shipbuilding Group í Panama City í Flórída.
Um borð var meðal annars nýuppsett próteinverksmiðja frá vélsmiðjunni Héðinn, ein af þeim fyrstu sem hannaðar voru af teyminu sem nú starfar undir merkjum dótturfyrirtækisins HPP.
„Þetta var þegar við hönnum verksmiðjuna fyrir Sólberg, sem var okkar fyrsta HPP á sjó,“ segir Einar Már Aðalsteinsson hjá HPP. „Það var komið á rekspöl þegar verið er að teikna North Star verksmiðjuna. Og síðan er það allt afhent niður til Flórída og þeir smíða skipið. Skipið var svo nánast fullbúið þegar það fer á hliðina.“
HPP fær þetta verkefni um svipað leyti og verið var að hanna verksmiðju um borð í Sólberg ÓF, fyrsta skipið sem fékk próteinverksmiðju frá HPP.
„Það verkefni var komið vel á rekspöl þegar verið er að teikna North Star verksmiðjuna. Og síðan er það allt afhent niður til Flórída og þeir smíða skipið. Það voru bara eitthvað tveir mánuðir eftir í afhendingu frá skipasmíðastöðinni þegar fellibylur fer þarna yfir og rífur skipið upp og það fer bara á hliðina,“ segir Einar Már.

- North Star við bryggju í Seattle áður en haldið var til Dutch Harbour í Alaska í janúar. MYND/Héðinn hf.
„Það þurfti að rétta skipið við og koma því að bryggju aftur, og þá þurfti bara að skræla allt innan úr skipinu, rífa allan búnað því þarna í flóanum er leirbotn þannig að það fer leirblandaður sjór um allt skip. Svo þegar búið var að rétta skipið við á tveimur vikum eða svo þá er allt skipið myglað að innan. Töluvert af búnaðinum, fínni búnaður eins og skilvindur frá GEA í búnaðinum frá okkur, var sent til Þýskalands í yfirferð. Öllum rafbúnaði, rafskápum og töflum og nemum, því var bara hent og smíðað aftur. Talsvert af búnaði okkar var smíðaður aftur og sendur aftur niður eftir. Síðan semja þeir við sömu skipasmíðastöð að klára skipið. Það er svo ekki fyrr en sumar 2021 sem skipið kemur aftur til Seattle.“
Svigrúm til að endurhanna
Þegar vinna hefst aftur við að endusmíða HPP-verksmiðjuna var langur tími liðinn frá því hún var upphaflega hönnuð.
„Við vorum í millitíðinni búnir að setja nokkrar verksmiðjur um borð í skip, þannig að við vorum búnir að læra sitthvað. Þannig var heilmikið sem þurfti að endurhanna og endursmíða samkvæmt þeirri þróun sem hafði orðið. Við náttúrlega búnir að reka okkur á ýmsa vankanta sem þurfti bara að hanna betur og þess háttar, og þá gafst svigrúm til þess.“
Vinnuflokkur frá Héðni var að störfum í Seattle allt síðastliðið sumar, frá maí og þangað til í október.
„Við kláruðum uppsetninguna og fórum í talsverðar breytingar á hönnuninni. Síðan er það í október sem skipið fer í fyrstu veiðiferð, og þeir taka þrjá túra eða eitthvað svoleiðis þar sem þeir einbeittu sér að því að ná tökum á frystingunni og vinnslunni, voru ekki að keyra próteinverksmiðjuna. Síðan byrja þeir að keyra HPP búnaðinn, og taka tvo túra fyrir áramót.“
Betra en vonir stóðu til
Gunnar Magnússon hefur farið þangað tvisvar sinnum til að fylgjast með verksmiðjunni, aðlaga stillingar og kenna áhöfninni á hana. Hann fór í tvo túra með skipinu fyrir jól og aðra tvo túra eftir áramótin.
„Skipið fór í jólastopp í Seattle til 16. janúar og þá fórum við aftur og sinntum smá lagfæringum eftir fyrstu keyrslur. Við vorum þarna tveir í janúar í tvær vikur, það var sitthvað sem mátti stilla aðeins betur og fara yfir. Síðan byrjar alvaran um miðjan janúar þegar þeir fara á sjó og það hefur allt gengið mjög vel, strax bara í fyrsta túr í haust þegar þeir byrjuðu að keyra verksmiðjuna.“
Skipið núna búið að fara fjórar veiðiferðir 2022 og voru að landa um helgina, búnir að landa 3.600 tonnum af frosnum afurðum og 640 tonnum af mjöli. Þeir eru í heilfrystingu á þessum Yellow Sole, það er uppistaðan í þeirra veiðum, síðan einhver meðafli sem kemur með.
„Nýtingin hefur í rauninni verið talsvert betri en útgerðin hafði gert sér vonir um.“
North Star er gerður út frá Seattle við norðvesturströnd Bandaríkjanna, en skipið kemur þangað ekki nema einu sinni á ári, rétt yfir jólin. Eiginleg heimahöfn skipsins er Dutch Harbour, tæplega fimm þúsund manna bæ á eyjunni Amaknak í Beringshafi.
„Já, það er útgerðarstöðin,“ segir Einar Már. „Þar landa þeir og þeir eru í svona rúmlega tveggja vikna túrum, og þótt skipið sé gert út frá Seattle og útgerðin sé þar þá kemur skipin ekkert þangað nema bara einu sinni á árin, um jólin. Þeir eru svona sólarhring að stíma á miðin frá Dutch Harbour, en eitthvað á fimmta sólarhring frá Seattle.“
Ekkert til spillis
Skipið hefur verið á kolaveiðum, veiðir einkum kolategund sem heitir yellow sole á ensku, hefur verið nefnd dvergsólflúra á íslensku. Í honum er mjög lítið lýsi, eins og reyndar flestum flatfiski.
„Í bolfiski eru menn kannski að tala um svona 5% lýsi að jafnaði, eftir árferði, en þetta er innan við 1% í þessum kola.“
Einar segir að engar fiskimjölsverksmiðjur séu um borð í skipum þarna sem eru að veiða Yellow Sole.
„Þetta er sú fyrsta, og þegar þeir voru að velta þessari próteinvinnslu fyrir sér voru viðmiðin hjá þeim svona 11-13% nýting í hráefni, en þá eru þeir að miða við það sem verður að mjöli í þeirra verksmiðju. Í okkar verksmiðju eru þeir með 20% plús, eða svona 22-23%. Það helgast af því að við pressuvökvinn með því próteinefni sem þar er hefur farið bara í sjóinn. En við erum að taka allt þetta efni, og þetta eru fínustu og bestu próteinin sem eru í pressuvökvanum. Það vatn sem verður til við eimingu á efninu um borð það nýtum við til að keyra sjóðara og annan þurrkara.“

- Mjölpokar úr HPP-verksmiðjunni í lestinni á North Star. MYND/Gunnar Magnússon
Hann segir stillingar og vinnsluaðferðir ólíkar, meðal annars eftir því hvaða hráefni verið er að vinna. Um borð í skipunum sé einkum verið að vinna botnfisk, en aðrar verksmiðjur keyri eingöngu á uppsjávarfiski. Síðan er verksmiðja í Færeyjum í eigu Bakkafrosts sem keyri eingöngu á laxaslógi.
„Þetta þrennt er mjög ólíkt. Búnaðurinn er svipaður en hráefnið er það mismunandi að þetta eru talsvert ólíkar aðferðir við að keyra búnaðinn. Þá þarf svolítið að aðlaga búnaðinn sérstaklega að botnfiski, uppsjávarfiski og laxinum.“
Pakkað allan sólarhringinn
Leiðin til Dutch Harbour frá Íslandi er býsna löng og getur tekið nokkra daga. Fyrst þarf að fljúga héðan til Seattle, þaðan til Ancorage í Alaska og loks frá Ancorage til Dutch Harbour.
„Það eru svona 90% líkur á því að þú þurfir að bíða í einhverja daga eftir að komast til Dutch Harbour,“ segir Gunnar Magnússon, starfsmaður Héðins og nú HPP. Auk þess sé varla nokkur leið að fljúga þangað þegar eitthvað er að veðri eða skyggni.
„Þeir geta ekki lent þarna nema í björtu. Ekki ef það er snjókoma eða þoka. En svo er reyndar hægt að fá minni vélar í leiguflugi, og þær geta farið í aðeins verra veðri.“
Niðurstaðan varð sú að Gunnar fór þangað með lítilli einkaþotu. Hann hafði lítinn tíma til að skoða bæinn heldur hélt strax út á sjó með North Star.
„Ég fór í tvo túra með þeim. Hver túr er svona tvær vikur þannig að þetta varð rúmur mánuður með öllu.“
Hann segir aðbúnaðinn ólíkan því sem sjómenn hér á landi eiga að venjast. Vinnan sé líka öðru vísi, því fiskurinn er unninn miklu minna. Hann er bara hausaður og síðan er honum pakkað. Vanir menn séu á dekki og í vél en mest af mannskapnum vinni bara í að pakka fiski.

- Dutch Harbour er í Aljúta-eyjahryggnum sem liggur við suðurjaðar Berginghafs í boga milli Alaska og Rússlands. Þangað er meira en sólarhrings beint flug, en með venjulegum flugleiðum má búast við að ferðin taki nokkra daga.
„Nú hef ég verið á íslenskum skipum og líka í Evrópu og þetta er mikill munur. Þetta er svona tvöföld áhöfn þarna miðað við það sem er hér. Hérna eru svona 28 karlar á svipað stóru skipi, þarna eru 60 manns. Þeir eru látnir vinna 16 tíma á sólarhring, og fá svo frí í 8 tíma.“
Skipið er um það bil tvær vikur í hverjum túr. Veitt er þangað til búið er að fylla skipið og þá er siglt í land. HPP-verksmiðjan er í gangi allan tímann, hún er ræst í byrjun túrs og er svo í gangi allan sólarhringinn. Hún er að skila um það bil 12 til 14 tonnum á sólarhring. Mjölið fer í tank sem tekur 16 tonn, sem er um það bil sólarhringsafköst verksmiðjunnar. Mjölinu er síðan pakkað í 30 kg. sekki og yfirleitt segir Gunnar að þurft hafa einn mann fastan í að pakka.
„Það geta alveg gerst brælur þarna svo ekki sé hægt að veiða, en það var ekki þennan tíma sem ég var. Þetta var bara stöðug og jöfn veiði og vinnsla.“