Brim hf. gaf fyrir stuttu út bæði græn og blá skuldabréf í samstarfi við Íslandsbanka og KPMG. Íslandsbanki sá um sölu bréfanna og voru gefin út skuldabréf fyrir 2,5 milljarða, þau voru til fimm ára með 4,67% vexti og fjórar afborganir árlega.

Með þessu hyggst Brim fjármagna verkefni sem „stuðla að sjálfbærni og hafa jákvæð áhrif á umhverfið“, eins og það er orðað í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Ráðgjafi Brims í þessari sjálfbæru fjármögnun hefur verið Bjarni Herrera og hans teymi, en hann leiðir sjálfbærniteymi KPMG og sér um ráðgjöf og þjónustu í sjálfbærnimálum.

Bjarni segir sögu sjálfbærrar fjármögnunar (en undir það fellur græn, félagsleg og blá fjármögnun) ekki vera langa og sögu þeirra bláu enn styttri. Alþjóðabankinn gaf út fyrsta græna skuldabréfið árið 2007. Á Íslandi var fyrsta græna skuldabréfið svo gefið út árið 2018.

„Þannig að það liðu alveg tíu ár rúmlega þangað til þetta kom til Íslands,“ segir Bjarni.

Skilyrði fylgja

Svonefnd græn og blá fjármögnun er að sögn Bjarna frábrugðin venjulegri fjármögnun að því leyti fyrst og fremst að fjármagnið er bundið skilyrðum um að ekki megi notað það nema til skilgreindra „grænna“ eða „blárra“ verkefna.

„Hefðbundin fjármögnun er þannig að bankar eða aðrir lánveitendur eru ekkert rosalega mikið að skipta sér af því hvernig þú notar peninginn. Þú setur bara húsið eða skipin að veði og svo notarðu peninginn yfirleitt hvernig sem er. En þarna er verið að lána pening með því skilyrði að ekki má nota hann í annað en blá eða græn verkefni.“

Útgáfa Brims sé því í raun og veru loforð fyrirtækisins til þeirra sem kaupa skuldabréfin, um að fénu verði eingöngu varið í sjálfbær og umhverfisvæn verkefni, bæði græn og blá. Grænu verkefnin eru þá þau sem snúa meira að landinu, en þau bláu meira að hafinu. En öll þessi verkefni eiga það sammerkt að stuðla að sjálfbærari sjávarútvegi.

Skuldabréfin eru þau fyrstu sinnar tegundar sem gefin eru út af Brimi og jafnframt þau fyrstu á Íslandi sem skilgreina má sem blá. Þá virðist vera sem að útgáfa Brim sé líklega sú fyrsta á heimsvísu hjá sjávarútvegsfyrirtæki.

Hjá Brimi eru grænu verkefnin m.a. orkuskipti í bíla og tækjaflotanum, grænar byggingar, fjárfesting í innviðum s.s. upplýsingakerfum, allt verkefni sem ætlað er að minnka neikvæð umhverfisáhrif og minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Blái hluti fjármögnunarinnar hjá Brim snýr hins vegar sérstaklega að sjávarútvegi og hafinu þar sem meðal verkefna eru fjármögnun á bolfiskveiðum og vinnslu með það að markmiði að auka nýtingu á hverju flaki, orkuskipti á höfnum svo minnka megi olíunotkun skipa, endurnýjun tækja sem eykur nýtingu hráefnis og draga úr umhverfisáhrifum.

Litur hafsins

Hann gerir sér vonir um að fleiri sjávarútvegsfélög en Brim skoði þessa fjármögnunarleið.

Í þessum græna og sjálfbæra heimi, deila sérfræðingar um sjálfbærar veiðar og þær vottanir sem eru til staðar. Mat Bjarna er að þau skoðanaskipti hjálpi til sérstaklega núna þegar kröfur eru að herðast hjá helstu hagaðilum.

„Allir hafa skoðanir á því, hvað er sjálfbært og hvað ekki, og svo er verið að herða vottunarviðmiðin heyrir maður. En nú er líka komin pressa frá fjármögnunarhliðinni, þ.e. stofnanafjárfestum og bönkum á heimsvísu. Lánveitendur sjávarútvegsfélaganna vilja sjá að veiðarnar séu vottaðar, að fyrirtækin séu að standa sig. Þessir aðilar eru líka að reyna að kynnast sjávarútvegi á nýjum forsendum, að skilja hvað er í raun sjálfbært og hvað ekki,“ segir hann.

„Á bláu hliðinni er þetta rétt að byrja. Hvað er blátt, hvað er sjálfbært fyrir hafið? Á grænu hliðinni hefur hins vegar markaðurinn í fjórtán ár, síðan 2007, verið að koma sér saman um leikreglur og viðmið. Það eru sem sagt ekki stjórnvöld sem hafa verið að skilgreina þetta, heldur markaðurinn. En núna er Evrópusambandið dálítið að stíga inn í þetta með leiðbeiningar sem munu meðal annars koma til Íslands á næstu árum,“ segir Bjarni.

Sá tækifærin

Sjálfur segist Bjarni hafa, sem ráðgjafi, komið að flestum sjálfbærum skuldabréfum á Íslandi frá 2018. Fyrirtæki sem hann tók þátt í að stofna, Circular Solutions, hóf starfsemi sína árið 2018 og varð fljótt leiðandi hér á landi í fjármálaheiminum á sviði sjálfbærni. Eftir að KPMG keypti það í desember 2020 hefur Bjarni sem fyrr segir leitt sjálfbærniteymi KPMG.

Fyrst til þess að gefa út grænt skuldabréf hér á landi var Reykjavíkurborg, og það var í desember 2018.

„Þannig að það tók mig eitt ár, ég var eiginlega allt árið að reyna að fá fyrirtæki á markaðnum til að gefa út græn skuldabréf. Reykjavíkurborg sá græna ljósið og gaf markaðnum fyrirmynd til að vinna eftir.“

Reykjavíkurborg notaði þetta fjármagn í göngu- og hjólreiðastíga, grænar vottanir á nokkrum byggingum, led-væðingu á öllum ljósum borgarinnar, og ýmis önnur verkefni sem þurfti að fjármagna.

„Þetta markaði ákveðin skil á markaðnum“ segir Bjarni.

Í kjölfarið gáfu Orkuveita Reykjavíkur, Félagsbústaðir, og Reginn fasteignafélag út sambærileg bréf. Íslandsbanki var síðan fyrsti bankinn til að gefa út sjálfbær bréf sjálfur, og hinir bankarnir fylgdu í kjölfarið.

„Það var svo 2019 sem ég sá tækifæri til þess að færa þessa grænu fjármögnun yfir á sjávarútveginn út frá bláum forsendum. Ég var með þennan bakgrunn í fjármálaheiminum og sá ég strax að við yrðum að tengja saman sjálfbærnina, grænu og bláu málin, loftslagsmálin og peningana. Það hafði ekki verið gert á Íslandi áður.“

Hann segir að einhver hafi þurft að taka fyrsta skrefið í blárri fjármögnun og Brim var tilbúið að taka það leiðtogahlutverk. Ísland henti vel vegna þess að sjávarútvegur hér á landi er í fremstu röð og á sér mikla sögu.

„Ég sá fyrir mér að Ísland yrði sterkt í þessu, að koma inn með bláa fjármögnun á heimsvísu með þessi flottu fyrirtæki og flott fólk. Kristján Davíðsson hjá Brim sá ljósið í þessu og Gréta María og hennar fólk kláraði verkefnið svo með stæl. Þetta er alveg smá áhætta að vera svona fyrstir, en þetta hefur fengið gríðarlega jákvæð viðbrögð bæði hér heima og erlendis og sýnir tækifæri í þessu fyrir aðra.“

- -

Hér má sjá þau Bjarna Herrera og Grétu Maríu Grétarsdóttur, framkvæmdastjóra nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá Brim, ræða um sjálfbæra fjármögnun í sjávarútvegi .