Norska útgerðarfélagið Bluewild og hönnunar- og skipasmíðastöðin Ulstein Design & Solutions hlutu nýsköpunarverðlaunin á Nor-Fishing sjávarútvegssýningunni í Þrándheimi fyrir tæknilausnir í togaranum Ecofive.

Fyrirtæki tvö ásamt fleiri aðilum, þar á meðal Skaganum 3X, þróuðu nýja tækninálgun fyrir  verksmiðjutogara en nýsköpunin er sögð liggja í nýrri útfærslu á fiskmóttöku og meðhöndlun trollsins. Markmiðið er að auka sjálfbærni í veiðum með því að draga úr orkunotkun en halda gæðum vörunnar og tryggja 100% nýtingu aflans. Nafn skipsins er skammstöfun á Eco-Friendly Fishing Vessel.

Þegar aflinn kemur um borð á þessu 73,2 metra löngu skipi fer hann ekki um togdekkið heldur er fluttur lifandi í vatnstanka fyrir neðan sjólínu. Þaðan fer hann í blóðgun. Aflinn er svo færður á efra verksmiðjudekkið með yfirþrýstingslosun sem kemur í veg fyrir hið dæmigerða tjón sem getur orðið við annars konar dælingu. Þetta er ný tækni sem hefur ekki verið prófuð áður en megintilgangurinn er að koma í veg fyrir að fiskurinn merjist og blæði.

Skipið er með tveimur skrúfum og knúið dísil- og rafmagns tvinnaflrás.

Skaginn 3X framleiðir háþróaða vinnslulínuna um borð í Ecofive. Í henni verður fiskurinn unninn í flök og  bita. Einnig verður heildstæð rækjulína um borð sem mun vinna soðna lausfrysta rækju sem og frysta iðnaðarrækju til frekari framleiðslu í landi. Kerfið er hannað til að nýta allar aukaafurðir til hins ýtrasta til að hámarka verðmæti aflans. Heildarverðmæti samningsins fyrir Skagann 3X er rúmlega einn milljarður króna.