Kolmunnaveiðum íslenskra uppsjávarskipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, Færeyja og veiðistjórnunarsvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar er lokið að sinni. Uppsjávarskipin á Austurlandi voru þau síðustu til að landa enda stærstur hluti aflamarks í kolmunna bundinn skipum þaðan.

Uppsjávarskipin í Vestmannaeyjum luku kolmunnaveiðum í byrjun maímánaðar og þar gafst mönnum ráðrúm til að draga andann eftir velheppnaða loðnu- og kolmunnavertíð og undirbúa makrílvertíðina sem er framundan.

„Súperkolmunnavertíð“

Með síðustu skipum til að landa kolmunna á þessu ári var Bjarni Ólafsson AK sem kom með 1.700 tonn til Seyðisfjarðar í byrjun vikunnar. Í frétt frá Síldarvinnslunni segir að veiðarnar hafi gengið einstaklega vel frá því þær hófust um miðan apríl. Skip Síldarvinnslunnar hafa komið með 42 þúsund tonn að landi. Runólfur Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, sem hefur marga fjöruna sopið í uppsjávarveiðum, talar um „súperkolmunnavertíð“.

„Kolmunninn er búinn hjá okkur oftast fljótlega í maí og þá förum við bara í það að græja okkur fyrir makrílinn,“ segir Eyþór Harðarson útgerðarstjóri hjá Ísfélagi Vestmannaeyja. Hann segir að síld- og makrílvertíð síðasta árs hafa náð saman inn á loðnuvertíðina. Það sé því langþráð frí hjá mörgum sjómanninum þessa dagana.

Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri. Mynd/Óskar P. Friðriksson
Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri. Mynd/Óskar P. Friðriksson

Þetta var stutt og snörp kolmunnavertíð hjá Ísfélaginu sem er með um 10 þúsund tonna kvóta. Eyþór segir að þetta sé því bara tveggja til þriggja vikna prógram með tveimur túrum á skip nema hvað Heimaey fór þrjá túra. Þetta hafi verið ágætis viðbót við velheppnaða  og gjöfula loðnuvertíð og skapi vinnu og verðmæti.

Makríll og loðna

Eyþór segir ágætar væntingar um komandi makrílvertíð þótt jafnvel megi búast við minni kvóta en í fyrra. Vertíðin byrjaði seint í fyrra og veiðin fór fljótt eiga stað í Síldarsmugunni.

„Við eigum alveg eins von á því að þurfa að sækja hann út í Smugu eins og í fyrra. Það er auðvitað meira óhagræði í því að vera á veiðum svo langt í burtu. Það óhagræði af því að sigla heim með litla farma þannig að túrarnir vilja lengjast og gæði aflans getur þá rýrnað. Eins og við gerðum þetta í fyrra þá vorum við með þrjú skip í samstarfi og ég á von á því að það verði aftur þannig. Með því móti komum við förmunum heilum heim.“

Gefinn hefur verið út upphafskvóti í loðnu upp á 400 þúsund tonn og Eyþór vonast að sjálfsögðu til þess að það verði staðfest í haust og bætt verði í kvótann þannig að þegar upp verður staðið verði útgefnar heimildir svipaðar og á síðustu loðnuvertíð.