Vöxtur sjávar- og lagareldis hefur alla burði til þess að nægja aukinni eftirspurn eftir næringu, eftir því sem mannkyni fjölgar, en gæta þarf að því að vöxturinn verði sjálfbær.

Þetta er afstaða Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) sem hefur birt skýrslu um stöðu fiskveiða og fiskeldis í heiminum, State of World Fisheries and Aquaculture (SOFIA).

„Vöxtur eldisiðnaðar hefur oft verið á kostnað umhverfisins,“ segir í skýrslunni, en sjálfbært lagareldi er engu að síður „nauðsynlegt til að mæta vaxandi eftirspurn eftir lagarafurðum.“

FAO birtir samantekt sína á tveggja ára fresti. Nýjasta skýrslan kom út í síðasta mánuði og nær til ársins 2020.

Þar kemur fram að árið 2020 hafi framleiðsla í veiðum og eldi verið 214 milljón tonn, og hefur aldrei verið meiri. Þar af nema fiskveiðar 90,3 milljónum tonna, fiskeldi 87,5 milljónum tonna og þörungavinnsla 36 milljónum tonna.

„Heimsneyslan á lagarafurðum (að undanskildum þörungum) hefur aukist um 3% árlega að meðaltali allt frá 1961, en til samanburðar hefur mannfjölgun verið 1,6% á ári,“ segir í skýrslunni. Á sjöunda áratug síðustu aldar var neysla lagarafurða að meðaltali 9,9 kíló á mann, og er þá átt við allar afurðir úr sjó, vötnum og ám, bæði úr veiðum og eldi, en árið 2019 var neyslan komin upp í 20,5 kíló. Neyslan árið 2020 var örlítið minni en á metárinu 2019, eða 20,2 kíló á mann.

„Því er spáð að hærri tekjur og þéttbýlisvæðing, ásamt betri vinnslumeðferð og breyttum neysluvenjum, muni verða til þess að neysla lagarafurða muni aukast um 15% og verði árið 2030 orðin 21,4 kíló á mann að meðaltali.“

Árið 2020 er talið að um 4,1 milljónir fiskiskipa hafi verið að veiðum í heiminum, og hafði þeim fækkað um 10% frá árinu 2015. Flest eru þau í Asíu, eða um tvö af hverjum þremur. Alls höfðu 58,5 milljónir manna atvinnu af veiðum og eldi á árinu 2020, og þar af voru konur 21%.

FAO leggur í skýrslunni áherslu á „bláu þróunina“, eða „Blue Transformation“, sem gengur út á að auka hlut lagarafurða í næringu mannkyns. Stofnunin hvetur jafnt stjórnvöld sem einkageirann og félagasamtök til þess að styðja við sjálfbæran vöxt lagareldis.