Rússar fengu meira en helming alls síns makríls frá Íslandi á árinu 2014, og var hlutur landsins í heildar innflutningi makríls 51,4%. Af skiljanlegum ástæðum hefur þessi markaður horfið en aðrir tekið við.

Rússland var stærsti makrílmarkaður Íslands. Í kjölfar innlimunar Rússa á Krímskaga og fordæmingu vestrænna ríkja á því framferði settu Rússar innflutningsbann á sjávarafurðir frá Íslandi og hrundi markaðurinn úr 48 þúsund tonnum árið 2014 niður í ekki neitt. Ein þjóð hefur þó öll þessi ár selt Rússum makríl og skipti þá innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 ekki heldur máli. Sú þjóð er Færeyjar sem í síðustu viku endurnýjaði fiskveiðisamning sinn við Rússa, sem heimilar þeim að veiða í færeyskri lögsögu gegn því að Færeyingar fái að veiða í rússenskri lögsögu í Barentshafi.

Á Sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin var í síðasta mánuði hélt Friðleifur Friðleifsson, deildarstjóri sjófrystra- og uppsjávarafurða hjá Íslenskum Sjávarafurðum, erindi um sölu og markaðssetningu á íslenskum makríl. Hann benti meðal annars á að verðmæti útflutts makríls á síðasta áratug hefði farið hæst í rúma 23 milljarða króna árið 2014 en fallið niður í 10 milljarða árið 2016. Eftir það hefur landið risið. Friðleifur sagði að vissulega hefði rússneski markaðurinn verið mikilvægur með tilliti til sölu á makríl en hann sjái ekki eftir þessum markaði í dag.

Hæsta meðalverð í Póllandi

„Ég myndi ekki selja eitt einasta kíló þangað í dag. Og í raun skil ég ekki þá sem stunda þessi viðskipti í dag því vandamálin sem hafa hlotist af stríðinu í Úkraínu eru gríðarleg. En við fylgjumst með því sem aðrar þjóðir gera,” sagði Friðleifur og varpaði upp myndbandi sem sýnir för flutningaskips frá Færeyjum hlaðið uppsjávarafurðum sem sigldi rakleiðis til Pétursborgar í Rússlandi.

„Færeyingar eru ennþá á fullu að selja afurðir inn til Rússlands og skammast sín ekkert fyrir það,” sagði Friðleifur.

Friðleifur Friðleifsson, deildarstjóri sjófrystra- og uppsjávarafurða hjá Íslenskum sjávarafurðum. Mynd/Valdimar Ingi Gunnarsson.
Friðleifur Friðleifsson, deildarstjóri sjófrystra- og uppsjávarafurða hjá Íslenskum sjávarafurðum. Mynd/Valdimar Ingi Gunnarsson.

Þegar Rússlandsmarkaður lokaðist 2014 jókst mikilvægi annarra markaða fyrir íslenskan makríl og þeirra stærstur er Úkraína. Hæsta meðalverðið í gegnum árin hafa verið í Póllandi enda mest af makrílflökum farið þangað en meðalverð á öllum mörkuðum hefur verið í kringum 200 kr. kílóið.