Kvótaárinu er að ljúka og þess sjást greinileg merki á miðunum því þar hefur verið fáliðað undanfarið.

„Það er greinilegt að það er ekki mikið eftir af kvótaárinu. Við urðum varir við tvo togara í öllum túrnum og það þýðir bara að kvótinn eða kvótinn í einstökum tegundum er búinn,” er haft Jóhannesi Ellert Eiríkssyni, skipstjóra á ísfisktogaranum Viðey ER, í frétt frá Brim.

Viðey landaði um 150 tonnum í Reykjavík í byrjun vikunnar, þar af rúmlega 40 tonnum af ufsa.

„Allt snýst um það hjá áhöfninni núna að veiða sem mest af ufsa en það getur reynst snúið vegna þess að ufsinn heldur sig oftast með karfa eða þorski á veiðislóðinni,“ segir í fréttinni.