Á Grenivík er fyrirtækið Darri-Eyjabiti sem framleiðir býsnin öll af harðfiski af ýmsum gerðum, selur hann innanlands og á erlenda markaði og heldur úti starfsemi fyrir 17 manns. Ársveltan er um 400 milljónir króna. Heimir Ásgeirsson heitir eigandi fyrirtækisins og hann heldur öllu gangandi ásamt syni sínum, Hirti Geir, og öðru harðduglegu starfsfólki sem vinnur úr um 500 tonnum af slægðum fiski á ári hverju.
Heimir stofnaði fyrirtækið í félagi við annan mann árið 1996 en á það núna einn. Darri byggir á rótgróinni harðfiskverkun úr Vestmannaeyjum, Eyjabita, og af markaðsástæðum hefur nafnið á framleiðslunni haldið sér eftir að fyrirtækið flutti norður yfir heiðar. Þegar framleiðslan var í Vestmannaeyjum var harðfiskurinn meðal annars á boðstólum í verslunum KÁ og Hagkaupum.
„Við héldum þeim viðskiptum og komum svo líka inn á Eyjafjarðarsvæðið. Við höfum nánast alltaf verið í góðri sölu og lánast að selja allt sem við getum framleitt.“
Núna er Eyjabiti fáanlegur allt í kringum landið í nánast öllum verslunum nema Krónunni. Auk þess í betri verslunum í Noregi, Færeyjum og á Grænlandi.
Vaxið fiskur um hrygg
Harðfiskverkunin hefur undið upp á sig og Darri er orðinn talsvert stærra fyrirtæki en það var í upphafi. Fyrsta árið á Grenivík, árið 1996, var framleitt úr um 100 tonnum af slægðum fiski en nú er framleitt úr um 500 tonnum af slægðum fiski á ári, eins og áður sagði.
„Þegar við vorum að byrja fyrir 28 árum snerist þessi grein nánast eingöngu um framleiðslu á harðfiski fyrir þorrann. En svo hefst sumarbústaðamenningin og útivistin öll og neyslan eykst stöðugt. Núna er mikil eftirspurn hjá eldri borgunum sem vilja birgja sig vel upp af harðfiski fyrir Kanaríeyjaferðina.“
Úr 500 tonnum verða til um 43 tonn af harðfiski þannig að rétt rúmlega 8% af hráefninu verða eftir í framleiðsluvörunni. „Þú getur því hætt að skammast út í mig að harðfiskurinn sé dýr,“ segir Heimir við blaðamann sem á sér einskis ills von og hlær dátt.
„Nú hef ég verið lengi í þessum bransa og get sagt með nokkurri vissu að það eru líklega fáar aðrar gerðir af fiskverkunum þar sem þarf að gæta jafn vel að gæðum þess fisks sem tekinn er inn í húsið og í harðfiskverkun. Erfiðasti tíminn hjá okkur er sjálft vorið, þegar fiskurinn hefur hrygnt. Eftir hrygningu verður fiskurinn rýr í roðinu og aldrei jafn góður til harðfiskvinnslu eins og á öðrum árstímum.“
Öll tegundaflóran
Þurrkun á fiski fer því að jafnaði ekki fram frá júnílokum fram í seinni hlutann í ágúst hjá Darra. Þegar fiskur er þurrkaður er líka framleitt af krafti og reynt að safna birgðum fyrir sumarið sem er aðalsölutíminn á harðfiski. Eftir þurrkun geymist harðfiskur von úr viti í frosti án þess að tapa nokkru í gæðum. Hráefnið kaupa þeir feðgar að stórum hluta á fiskmörkuðum en þeir kaupa líka ýsu af Gjögri. Darri er einnig í samstarfi við Frosta ehf. á Grenivík. Frosti gerir út samnefndan ísfiskstogara. Darri vinnur harðfisk mest úr þorski og ýsu en einnig úr steinbít. Með þessu móti getur Darri boðið upp á alla flóruna í harðfiski. Lúðan var áður líka þurrkuð fyrir harðfiskframleiðslu en veiðar á henni hafa verið bannaðar um langt árabil svo ekki er um það að ræða.
40% framleiðslunnar til útlanda
„Við framleiðum 8-10 vörutegundir í þessum þremur tegundum, þ.e. þorski, ýsu og steinbít. Við framleiðum smáýsu með roði og sú vörutegund var 60-70% af allri framleiðslunni þegar við hófum starfsemi. Núna er hlutfallið komið niður í um 10%. Þetta endurspeglar dálítið tíðarandann. Neytendur vilja vöruna tilbúna til neyslu. Og við erum líka með ýsubita og hefðbundin ýsuflök í 70 gramma, 200 gramma og 400 gramma pokum. Svo fengum við þá ágætu hugmynd að framleiða óbarða ýsu. Þá er ýsan tekin beint úr þurrkaranum, skorin í stóra bita og sett í poka óvölsuð. Það selst orðið mjög mikið af þessari vöru og hún hefur mælst vel fyrir. Það er í henni örlítið sætabragð sem vill hverfa þegar hún er völsuð,“ segir Heimir. Það eru helst íslenskir neytendur sem vilja óbörðu ýsuna en það sem selst til útlanda eru hefðbundin, völsuð þorsk- og ýsuflök. Tæplega 40% af framleiðslunni eru reyndar seld til útlanda og stærstu viðskiptalöndin eru Noregur, Færeyjar og Grænland. Strax á fyrsta starfsári Darra komust á viðskiptatengsl við norskan aðila sem hafa haldist síðan þá. Heimir segir að gott sé að hafa fleiri en færri egg í körfunni og erlendu markaðirnir stuðli að auknu jafnvægi í starfseminni.
Vitundarvakning
Þrátt fyrir talsverða dýrtíð, verðbólgu og erfitt efnahagsástand að mörgu leyti hefur ekki dregið úr sölu á harðfiski hjá Darra þótt segja megi að varan kosti sitt. Þannig er algengt kílóverð á harðfiskflökum úr þorski um 12.000 krónur. Harðfiskur er stútfullur af próteini og telst í dag í flokki ofurfæðu. Og það hefur orðið vitundarvakning um hollustu vörunnar sem nú er ekki síst vinsæl hjá útivistarfólki og öðrum sem velja próteinríka fæðu sem fer lítið fyrir og er einföld í neyslu. Fullorðinn karlmaður þarf til að mynda ekki nema 70 grömm af harðfiski til þess að uppfylla próteinþörf sína yfir daginn.
Tørrefisk Snack
Hefð er fyrir harðfiskneyslu í Norður-Noregi, Færeyjum og á Grænlandi þar sem þurrkun á fiski var mikilvæg geymsluaðferð á öldum áður. Aðferðin hefur lifað inn í samtímann en nú gegnir þurrkaður fiskur öðru hlutverki í fæðuvalinu. Heimir segir að í Færeyjum séu sterkar hefðir í vali á matvælum og er harðfiskur, hvalkjöt og skerpukjöt dæmi um það. Sömu sögu er að segja frá Norður-Noregi. Þarna hefur Darri í gegnum árin byggt upp góða markaði fyrir sínar vörur. Í Færeyjum er harðfiskur stundum hluti af ríkulegri máltíð og er þá borinn fram með soðnum kartöflum og örþunnum sneiðum af hvalspiki. Hönnuð var sérstök vara fyrir norska markaðinn úr þorski strax upp úr síðustu aldamótum, Tørrefisk Snack, í 200 gramma pokum og hefur salan aukist stöðugt með hverju ári. Stærsti kaupandinn er heildsala á Tromsø-svæðinu sem dreifir vörunni um Norður-Noreg allt norður til Kirkenes. Minni hefð er fyrir harðfiskneyslu í Suður-Noregi en þó er þar nokkur eftirspurn frá einstaklingum sem hafa flust frá norðursvæðunum suður á bóginn. Tørrefisk Snack pokinn er með QR-merkingu og með því að bera snjallsíma upp að merkinu kemur upp heimasíða heildsölunnar sem hefur leitt til enn frekari sölu og dreifingu á Óslóar-svæðinu.
Í toppi í framleiðslugetu
Viðfangsefni Darra er fremur að geta framleitt nóg af vörunni fyrir alla viðskiptavinina frekar en að auka markaðsstarfið. Húsið ræður ekki við meiri framleiðslu en úr 500- 550 tonnum á ári. Í húsnæði Darra á Hafnargötu 1 fer einungis fram þurrkun og pökkun en fyrirtækið leigir aðstöðu í vinnsluhúsi Gjögurs þar sem öll blautvinnslan fer fram tvo daga í viku. Ferlið er með þeim hætti að fiskur er keyptur á sunnudegi og mánudegi og er miðað við að fyrsti fiskur sé kominn í vinnsluhús Gjögurs hálfsex á mánudagsmorgni. Á þriðjudegi og miðvikudegi er fiskurinn hausaður, flakaður og snyrtur og fer beinustu leið í þurrkara og er þar fram á næsta mánudag. Þannig gengur þetta koll af kolli, viku eftir viku og ár eftir ár. Þegar blautvinnslan fer fram á þriðjudögum og miðvikudögum eru á milli 40-50 manns við vinnu í vinnsluhúsi Gjögurs sem er um tíu prósent af íbúum sveitarfélagsins. 17 manns eru á launaskrá hjá Darra. Eins og aðrir framleiðendur glímir Darri við sveiflukennt en almennt hátt fiskverð. Vandinn er hins vegar sá að miklar verðbreytingar á harðfiski eru ekki vel séðar af neytendum. Tæp tvö ár eru síðan síðast varð verðhækkun á harðfiski frá fyrirtækinu. Þar áður höfðu liðið fjögur ár milli verðbreytinga. Ágæt staða kom þó upp á síðasta ári þegar ýsukvóti var aukinn og verð á fiskmörkuðum fór heldur niður. Ýsan er líka viðkvæmari fyrir verðlækkunum á markaði en þorskurinn þegar framboðið í þessum tegundum eykst.
Á Grenivík er fyrirtækið Darri-Eyjabiti sem framleiðir býsnin öll af harðfiski af ýmsum gerðum, selur hann innanlands og á erlenda markaði og heldur úti starfsemi fyrir 17 manns. Ársveltan er um 400 milljónir króna. Heimir Ásgeirsson heitir eigandi fyrirtækisins og hann heldur öllu gangandi ásamt syni sínum, Hirti Geir, og öðru harðduglegu starfsfólki sem vinnur úr um 500 tonnum af slægðum fiski á ári hverju.
Heimir stofnaði fyrirtækið í félagi við annan mann árið 1996 en á það núna einn. Darri byggir á rótgróinni harðfiskverkun úr Vestmannaeyjum, Eyjabita, og af markaðsástæðum hefur nafnið á framleiðslunni haldið sér eftir að fyrirtækið flutti norður yfir heiðar. Þegar framleiðslan var í Vestmannaeyjum var harðfiskurinn meðal annars á boðstólum í verslunum KÁ og Hagkaupum.
„Við héldum þeim viðskiptum og komum svo líka inn á Eyjafjarðarsvæðið. Við höfum nánast alltaf verið í góðri sölu og lánast að selja allt sem við getum framleitt.“
Núna er Eyjabiti fáanlegur allt í kringum landið í nánast öllum verslunum nema Krónunni. Auk þess í betri verslunum í Noregi, Færeyjum og á Grænlandi.
Vaxið fiskur um hrygg
Harðfiskverkunin hefur undið upp á sig og Darri er orðinn talsvert stærra fyrirtæki en það var í upphafi. Fyrsta árið á Grenivík, árið 1996, var framleitt úr um 100 tonnum af slægðum fiski en nú er framleitt úr um 500 tonnum af slægðum fiski á ári, eins og áður sagði.
„Þegar við vorum að byrja fyrir 28 árum snerist þessi grein nánast eingöngu um framleiðslu á harðfiski fyrir þorrann. En svo hefst sumarbústaðamenningin og útivistin öll og neyslan eykst stöðugt. Núna er mikil eftirspurn hjá eldri borgunum sem vilja birgja sig vel upp af harðfiski fyrir Kanaríeyjaferðina.“
Úr 500 tonnum verða til um 43 tonn af harðfiski þannig að rétt rúmlega 8% af hráefninu verða eftir í framleiðsluvörunni. „Þú getur því hætt að skammast út í mig að harðfiskurinn sé dýr,“ segir Heimir við blaðamann sem á sér einskis ills von og hlær dátt.
„Nú hef ég verið lengi í þessum bransa og get sagt með nokkurri vissu að það eru líklega fáar aðrar gerðir af fiskverkunum þar sem þarf að gæta jafn vel að gæðum þess fisks sem tekinn er inn í húsið og í harðfiskverkun. Erfiðasti tíminn hjá okkur er sjálft vorið, þegar fiskurinn hefur hrygnt. Eftir hrygningu verður fiskurinn rýr í roðinu og aldrei jafn góður til harðfiskvinnslu eins og á öðrum árstímum.“
Öll tegundaflóran
Þurrkun á fiski fer því að jafnaði ekki fram frá júnílokum fram í seinni hlutann í ágúst hjá Darra. Þegar fiskur er þurrkaður er líka framleitt af krafti og reynt að safna birgðum fyrir sumarið sem er aðalsölutíminn á harðfiski. Eftir þurrkun geymist harðfiskur von úr viti í frosti án þess að tapa nokkru í gæðum. Hráefnið kaupa þeir feðgar að stórum hluta á fiskmörkuðum en þeir kaupa líka ýsu af Gjögri. Darri er einnig í samstarfi við Frosta ehf. á Grenivík. Frosti gerir út samnefndan ísfiskstogara. Darri vinnur harðfisk mest úr þorski og ýsu en einnig úr steinbít. Með þessu móti getur Darri boðið upp á alla flóruna í harðfiski. Lúðan var áður líka þurrkuð fyrir harðfiskframleiðslu en veiðar á henni hafa verið bannaðar um langt árabil svo ekki er um það að ræða.
40% framleiðslunnar til útlanda
„Við framleiðum 8-10 vörutegundir í þessum þremur tegundum, þ.e. þorski, ýsu og steinbít. Við framleiðum smáýsu með roði og sú vörutegund var 60-70% af allri framleiðslunni þegar við hófum starfsemi. Núna er hlutfallið komið niður í um 10%. Þetta endurspeglar dálítið tíðarandann. Neytendur vilja vöruna tilbúna til neyslu. Og við erum líka með ýsubita og hefðbundin ýsuflök í 70 gramma, 200 gramma og 400 gramma pokum. Svo fengum við þá ágætu hugmynd að framleiða óbarða ýsu. Þá er ýsan tekin beint úr þurrkaranum, skorin í stóra bita og sett í poka óvölsuð. Það selst orðið mjög mikið af þessari vöru og hún hefur mælst vel fyrir. Það er í henni örlítið sætabragð sem vill hverfa þegar hún er völsuð,“ segir Heimir. Það eru helst íslenskir neytendur sem vilja óbörðu ýsuna en það sem selst til útlanda eru hefðbundin, völsuð þorsk- og ýsuflök. Tæplega 40% af framleiðslunni eru reyndar seld til útlanda og stærstu viðskiptalöndin eru Noregur, Færeyjar og Grænland. Strax á fyrsta starfsári Darra komust á viðskiptatengsl við norskan aðila sem hafa haldist síðan þá. Heimir segir að gott sé að hafa fleiri en færri egg í körfunni og erlendu markaðirnir stuðli að auknu jafnvægi í starfseminni.
Vitundarvakning
Þrátt fyrir talsverða dýrtíð, verðbólgu og erfitt efnahagsástand að mörgu leyti hefur ekki dregið úr sölu á harðfiski hjá Darra þótt segja megi að varan kosti sitt. Þannig er algengt kílóverð á harðfiskflökum úr þorski um 12.000 krónur. Harðfiskur er stútfullur af próteini og telst í dag í flokki ofurfæðu. Og það hefur orðið vitundarvakning um hollustu vörunnar sem nú er ekki síst vinsæl hjá útivistarfólki og öðrum sem velja próteinríka fæðu sem fer lítið fyrir og er einföld í neyslu. Fullorðinn karlmaður þarf til að mynda ekki nema 70 grömm af harðfiski til þess að uppfylla próteinþörf sína yfir daginn.
Tørrefisk Snack
Hefð er fyrir harðfiskneyslu í Norður-Noregi, Færeyjum og á Grænlandi þar sem þurrkun á fiski var mikilvæg geymsluaðferð á öldum áður. Aðferðin hefur lifað inn í samtímann en nú gegnir þurrkaður fiskur öðru hlutverki í fæðuvalinu. Heimir segir að í Færeyjum séu sterkar hefðir í vali á matvælum og er harðfiskur, hvalkjöt og skerpukjöt dæmi um það. Sömu sögu er að segja frá Norður-Noregi. Þarna hefur Darri í gegnum árin byggt upp góða markaði fyrir sínar vörur. Í Færeyjum er harðfiskur stundum hluti af ríkulegri máltíð og er þá borinn fram með soðnum kartöflum og örþunnum sneiðum af hvalspiki. Hönnuð var sérstök vara fyrir norska markaðinn úr þorski strax upp úr síðustu aldamótum, Tørrefisk Snack, í 200 gramma pokum og hefur salan aukist stöðugt með hverju ári. Stærsti kaupandinn er heildsala á Tromsø-svæðinu sem dreifir vörunni um Norður-Noreg allt norður til Kirkenes. Minni hefð er fyrir harðfiskneyslu í Suður-Noregi en þó er þar nokkur eftirspurn frá einstaklingum sem hafa flust frá norðursvæðunum suður á bóginn. Tørrefisk Snack pokinn er með QR-merkingu og með því að bera snjallsíma upp að merkinu kemur upp heimasíða heildsölunnar sem hefur leitt til enn frekari sölu og dreifingu á Óslóar-svæðinu.
Í toppi í framleiðslugetu
Viðfangsefni Darra er fremur að geta framleitt nóg af vörunni fyrir alla viðskiptavinina frekar en að auka markaðsstarfið. Húsið ræður ekki við meiri framleiðslu en úr 500- 550 tonnum á ári. Í húsnæði Darra á Hafnargötu 1 fer einungis fram þurrkun og pökkun en fyrirtækið leigir aðstöðu í vinnsluhúsi Gjögurs þar sem öll blautvinnslan fer fram tvo daga í viku. Ferlið er með þeim hætti að fiskur er keyptur á sunnudegi og mánudegi og er miðað við að fyrsti fiskur sé kominn í vinnsluhús Gjögurs hálfsex á mánudagsmorgni. Á þriðjudegi og miðvikudegi er fiskurinn hausaður, flakaður og snyrtur og fer beinustu leið í þurrkara og er þar fram á næsta mánudag. Þannig gengur þetta koll af kolli, viku eftir viku og ár eftir ár. Þegar blautvinnslan fer fram á þriðjudögum og miðvikudögum eru á milli 40-50 manns við vinnu í vinnsluhúsi Gjögurs sem er um tíu prósent af íbúum sveitarfélagsins. 17 manns eru á launaskrá hjá Darra. Eins og aðrir framleiðendur glímir Darri við sveiflukennt en almennt hátt fiskverð. Vandinn er hins vegar sá að miklar verðbreytingar á harðfiski eru ekki vel séðar af neytendum. Tæp tvö ár eru síðan síðast varð verðhækkun á harðfiski frá fyrirtækinu. Þar áður höfðu liðið fjögur ár milli verðbreytinga. Ágæt staða kom þó upp á síðasta ári þegar ýsukvóti var aukinn og verð á fiskmörkuðum fór heldur niður. Ýsan er líka viðkvæmari fyrir verðlækkunum á markaði en þorskurinn þegar framboðið í þessum tegundum eykst.