Grásleppusjómenn á Breiðafirði vilja fleiri daga, segjast eiga það inni frá því fyrir tveimur árum þegar þeir fengu styttri tíma en aðrir. Óttast að ekki takist að veiða upp í ráðgjöfina.

Síðastliðinn föstudag hófust grásleppuveiðar í innanverðum Breiðafirði, mánuði eftir að vertíðin hófst annars staðar. Páll Aðalsteinsson á Stykkishólmi er einn þeirra sem stunda grásleppuveiðar í Breiðafirði hann segir vertíðina hafa farið ágætlega af stað. Hann og félagi hans, Álfgeir Marínósson, lögðu strax á föstudag og drógu helminginn á sunnudag og seinni helminginn á mánudag.

„Við fengum um fjögur tonn úr fyrstu umferðinni, sem er alveg vel í meðallagi góð veiði þó það sé ekkert á við það sem var í fyrra. Það var svakaleg veiði í fyrra. Það hefur aldrei sést svoleiðis þessa áratugi sem ég hef verið í þessu.“

Hann byrjaði fyrst á grásleppu á níunda áratugnum, svo hann hefur samanburðinn.

„Verðið hefur samt verið frekar lágt ef við tökum meðaltal í gegnum árin, en eiginlega sama verð og í fyrra, örlítið hærra,“ segir Páll. Þeir hafa verið að fá 150 krónur fyrir kílóið, en ef þeir skera grásleppuna úti á sjó fá þeir um 550 krónur fyrir hrognin.

Líklega í meðallagi

Páll segir að sér lítist þokkalega á vertíðina, og reiknar með að hún verði svona í meðallagi.

„Tíminn er samt stuttur og grásleppukarlar í Stykkishólmi eru mjög óánægðir með að dagafjöldinn sé ekki nema 25, að fá ekki að veiða ráðgjöfina ef þú getur selt það.“

Samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi smábátaeigenda höfðu 15 bátar landað afla af þessu svæði á þriðjudaginn, alls 46 tonnum. Meðaltal í róðri eru 2 tonn sem er sama meðaltal og hefur verið á vertíðinni allri.

Páll segir að kaupendur hafi reyndar töluverðar áhyggjur af því að fá ekki upp í þá sölusamninga sem gerðir hafa verið.

„Það er búið að reyna mikið að fá ráðuneytið til þess að fjölga dögum en þeir telja ekki stætt á því af því það eru svo margir fyrir norðan hættir. Það yrði mikið ergelsi meðal grásleppusjómanna þar. Okkur finnst við samt eiga rétt á því af því að í hittifyrra þá eiginlega kláraðist ráðgjöfin áður en við máttum byrja.“

Ákveðinn sjúkdómur

Hann segir grásleppusjómenn ekki heldur sátta við að vera kennt um að vera að útrýma selastofninum.

„Við erum ekki sáttir við aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar í að finna út hvað við drepum mikið. Það kemur selur í netin, það þýðir ekkert að bera á móti því. En selurinn fór kannski lengst niður þegar ákveðið var að ríkið myndi borga fyrir að útrýma honum. Þeir hafa aldrei náð sér síðan, og síðan bætist auðvitað við það sem fer í netin.“

Páll er búinn að eiga bátinn síðan 2003, ásamt Álfgeiri félaga sínum.

„Við byrjuðum á grásleppu á honum 2004, held ég, og höfum farið á hverju ári síðan,“ segir Páll og stillir sig ekkert um að vitna í spaugfuglana: „Þetta er ákveðinn sjúkdómur að fara á grásleppu, segja þeir. Einhver orðaði það þannig að þetta væri verra en alkohólismi, ef maður ætli að hætta þá þurfi maður að fara í meðferð.“