Fyrir nokkrum árum birtist í Fiskifréttum grein um nöfn á fiskimiðum vestur af landinu og úti af Vestfjörðum. Í flestum tilvikum er um nöfn að ræða sem urðu til eftir að skuttogarar komu til sögunnar. Greinin er hér endurbirt en höfundur er Kjartan Stefánsson, fyrrverandi blaðamaður Fiskifrétta. Honum sagðist svo frá:

Einkum er staldrað við skemmtilegar nafngiftir sem hafa einhverja sögu á bak við sig. Einstaka örnefni á eldri miðum fylgja hér með til glöggvunar en flestum eldri nöfnum er sleppt enda eru þau vel þekkt og mörg hver komin inn á sjókort.

Litlar ritaðar heimildir eru til um til þess að gera nýleg nöfn á miðum og því var leitað til nokkurra skipstjóra sem þekkja þessi svæði eins og lófann á sér. Heimildamenn Fiskifrétta voru Guðjón A. Kristjánsson fyrrverandi skipstjóri á Páli Pálssyni ÍS, Gunnar Arnórsson, sem var skipstjóri á Júlíusi Geirmundssyni, Páll Halldórsson, skipstjóri á Páli Pálssyni ÍS, Runólfur Guðmundsson, sem var skipstjóri á Hring SH og Svavar Benediktsson, fyrrverandi skipstjóri á Guðsteini GK.

Torg hins himneska friðar

Torgið er nokkuð stórt svæði sem liggur utan í landgrunnshallanum milli Dohrnbanka og Víkuráls, nokkurn veginn frá norðaustri til suðvesturs. Það er um 70 til 100 mílur vestur af Látrabjargi, um 50 mílna langt og ekki ýkja breitt en dýpkar mikið þegar utar dregur. Þarna eru mikil grálúðumið en Íslendingar hófu veiðar þar á seinni hluta áttunda áratugarins. Erlendir togarar veiddu grálúðu og karfa á þessu svæði, einkum þýskir togarar, allt þar til landhelgin var færð út í 200 mílur. Þetta svæði var fyrst nefnt Hampiðjutorgið en það var einnig kallað Torg hins himneska friðar og var síðan stytt í Torgið.
„Fyrst þegar menn byrjuðu að veiða þarna var ekki búið að kortleggja festur. Þá var trollið allt í druslum í öðru hverju holi og menn stóðu tímunum saman í saumaskap. Ef menn komust áfram veiddist vel og þá stóðu þeir upp fyrir haus í lúðu. Þetta var því kallað Torg hins himneska friðar í háði því þarna var aldrei neinn friður,“ sagði Guðjón A. Kristjánsson í samtali við Fiskifréttir en nánar verur fjallað um örnefni á Torginu hér á eftir.

Kattarhryggurinn og Cesar

Guðjón nefndi nokkur nöfn á miðum allt frá Agötu og norður og austur um. Kattarhryggurinn er fiskimið rétt vestan við Víkurálinn. Þetta er smábunga eins og þegar kötturinn setur upp hrygginn. Þar veiðist steinbítur og ufsi og fleiri tegundir. „Rétt neðan við vesturkantinn á Víkurálnum er svo flak af breska togaranum Cesari sem strandaði á Arnarnesi úti af Ísafirði í kringum 1970. Ekki var talið borga sig að gera við skipið og átti að draga það út á ballardýpi til að sökkva því. Þeir komust ekki lengra en út í Víkurál, þar komst sjór að því og það sökk ofan á ágæt fiskimið. Slóðin fékk nafn af því og síðan er iðulega talað um að vera í kringum Cesar,“ sagði Guðjón.

.
.
© Þorgeir Baldursson (Þorgeir Baldursson)

Blankan og Norður af Patró

Þvert yfir Víkurálinn liggur hryggur sem nefndur er Haftið og er það mjög gamalt nafn. Austan við Víkurálinn er annað skipsflak sem ákveðið svæði er kennt við, þ.e. Blankan. „Þetta er stórt og mikið flutningaskip sem sökk á stríðsárunum. Þar er oft gott fiskirí. Flakið dregur til sín fiska enda situr það eins og stór hóll í kantinum. Þarna liggur straumurinn yfirleitt upp á kantinn og þar myndast uppstreymi. Ufsatorfur hanga í kringum þetta flak og yfir því. Togað er mjög nálægt flakinu og menn segjast gjarnan vera komnir meðann annan hlerann ofan í lestina. Næsta mið fyrir austan Blönkuna er Norður af Patró sem kallað er. Blankan og Norður af Patró eru í kantinum sem liggur á milli Víkuráls og Hala,“ sagði Guðjón.

Menjan og Miklabraut

Í kantinum vestur við Halann erum við svo komin að Vikinu eða Stóra viki sem er fiskilegur staður. Við látum hér staðar numið þar sem flest nöfnin á veiðislóðum á Halanum og Djúpálnum austur af honum urðu til á öld síðutogaranna. Þess má þó geta að á Halamiðum er enn eitt skipsflakið, Menjan, sem sökk á besta staðnum á Halanum snemma á 20. öldinni og var lengi til mikilla vandræða. Guðjón nefndi í lokin fiskimið á grunnslóð úti af Barða sem kölluð eru Miklabraut. Þetta er sandbleyða sem þægilegt er að draga fram og til baka, um 12 mílur úti af Súgandafirði og Önundarfirði.

Létum bara vaða

Eftir því sem næst verður komist var það Runólfur Guðmundsson sem fyrstur Íslendinga hóf grálúðuveiðar á Torginu. „Ég þori ekki að útiloka að einhver íslensk skip hafi farið á þessar slóðir áður en við vorum fyrsta skipið í þeirri bylgju sem kom á þessum árum en veitt hefur verið þarna óslitið síðan,“ sagði Runólfur í samtali við Fiskifréttir. „Ég var að koma út frá Grundarfirði á Runólfi SH í einum af mínum fyrstu túrum sem skipstjóri. Þetta var í apríl 1976. Þegar við komum út á Látragrunn var flotinn í hálfgerðu reiðileysi. Skipin voru að mætast, ýmist að fara austur eða að koma að austan en enginn var í neinni veiði. Ég frétti hjá einum skipstjóranna að fjöldi erlendra skipa væri út af Víkurálnum og þau mokveiddu grálúðu. Við fórum á svæðið þótt við þekktum ekkert til og létum bara vaða. Við komum til Grundarfjarðar eftir rúma þrjá sólarhringa með fullfermi, 140 tonn, sem þótti gott í þá daga. Við vorum eina íslenska skipið á svæðinu en fljótlega fjölgaði íslensku skipunum.“

Höfðu nóga víra

Runólfur sagði að hann hefði hitt fyrir togara frá Austur-Þýskalandi og Póllandi og þarna voru einnig verksmiðjuskip að veiðum. „Þetta voru öndvegismenn um borð í erlendu skipunum og við spurðum þá meðal annars um hvað við þyrftum mikið af vírum. Við byrjuðum nyrst á svæðinu á um 300 föðmum. Við vorum á nýju skipi en eldri skipin höfðu mörg hver ekki nóga víra og það takmarkaði veiðigetuna. Við fengum auðvitað að kenna á botninum þarna og í fyrsta túrnum var ég meira úti á dekki en uppi í brú því netavinnan var svo mikil. Við sóttum síðan Torgið alveg út í eitt. Ég veit ekki hvenær þetta svæði fékk sitt nafn. Ég held að það hafi ekki verið fyrr en nokkrum árum eftir að veiðarnar hófust. En menn ræddu stundum um það sín á milli að Hampiðjan væri eini aðilinn sem græddi verulega á þessum veiðum.“

Herðatréð, Dropinn, Nýrað og Eggið

Runólfur sagði að skipstjórar á miðunum fyrir vestan hefðu ekki verið jafnduglegir og kollegar þeirra víða annars staðar að gefa veiðisvæðum fjölskrúðug nöfn. Vestur af Patreksfjarðarflóa er veiðisvæði sem nefnt er Herðatréð og nær það upp að 12 mílna línunni. Á Herðatrénu er sandbleyða sem nefnist Dropinn og er það nafn eldra. Herðatréð er bogalaga sandlæna og það er mál manna að Runólfur hafi gefið staðnum nafn. „Það má vel vera að nafnið hafi dottið upp úr mér en ég satt best að segja man það ekki. Ég skal eigna mér það þar til einhver annar gerir tilkall til þess. Sunnan við Herðatréð er hins vegar grunn sem er eins og nýra í laginu. Við vorum eitthvað að gantast með þetta, ég og Páll Halldórsson, skipstjóri á Páli Pálssyni ÍS, og þá lagði ég til að það yrði kallað Nýrað. Sunnan við Nýrað er svo lítill hóll eða grunn og hann köllum við Eggið. Svo eru snagar fyrir ofan Haftið í Víkurálnum sem menn skýra ýmsum nöfnum. Einn er nefndur Jói og annar nefndur Páll,“ sagði Runólfur.

Stanslaust í netavinnu

Gunnar Arnórsson, sem var skipstjóri á Júlíusi Geirmundssyni ÍS og áður á Bessa ÍS, þekkir Torgið manna best en hann hefur veitt þar frá því íslensku togararnir fóru að venja komur sínar á svæðið. „Torgið hét fyrst Hampiðjutorgið. Einhverjir fóru að nefna það svo sín á milli – ég veit ekki hverjir – vegna þess að á 5-6 dögum fóru allt upp í 20 undirbyrði. Menn voru stanslaust í netavinnu. Ég held að Hampiðjan hafi aldrei þurft að framleiða eins mikið af netum og þá og þannig er nafnið tilkomið. Torgið var því alræmt festusvæði. Flest kennileiti og heiti á miðum eru kennd við togara sem festu þar illilega fyrst eftir að veiðar Íslendinga hófust. Margir misstu trollið í þessum festum en þau náðust nú flest aftur,“ sagði Gunnar í samtali við Fiskifréttir.

Helstu togarafestur

Nyrst á hefðbundnu veiðisvæði á Torginu er Arinbjarnarfestan eða Arinbjörn en hann er á um 360 faðma dýpi. Þessi festa er kennd við Arinbjörn RE. Gunnar sagði að menn byrjuðu gjarnan veiðar norðan við Arinbjörn. Frá Arinbirni er síðan hægt að draga suður og suðvestur að Júllafestu. Fyrir sunnan Arinbjörn er standur sem hefur ekki sérstakt nafn en menn geta einnig dregið á veiðislóð sem liggur frá standinum vestur að Júllafestu eða suður að Bessafestu. Fyrir utan Júllafestu og dýpra, eða á um 470 föðmum, er festa sem kennd er við togarann Sléttanes ÍS. Hægt er að draga frá Júlla vestur á Sléttanesfestu og frá Arinbirni suður að Sléttanesi. Ef við færum okkur vestar komum við að Vigrafestu en milli hennar og Sléttaness og aðeins sunnar er Guðbjörg. Enn vestar og sunnar eru Snæfell og Björgvin. Suður af þeim festum er svæði sem kallað er Stjánabarð. Það liggur frá austri til vesturs. „Stjánabarð er kennt við Kristján Halldórsson, skipstjóra á Sléttbak EA, og mig minnir að Þorsteinn Vilhelmsson sé höfundur að þeirri nafngift,“ sagði Gunnar.

Víðigerði og Hlöllabar

„Fyrir ofan Stjánabarð er önnur festa sem kennd er við Bessa ÍS, Bessafesta dýpri. Suður af Stjánabarði er dalur eða dýpi sem kallað er Víðigerði og veit ég ekki hvernig það er tilkomið,“ sagði Gunnar. Upp af Víðigerði og suður af Bessa er nokkuð brattur kantur sem nefnist Fjallið. Menn töluðu um að draga frá Bessafestu út að Fjalli vegna þess hvað brattinn var mikill. Suðaustur af Fjallinu er Barinn, stundum kallaður Hlöllabarinn, eftir Hlöðver Haraldssyni, skipstjóra á Hólmadrangi SU. Hann var þaulsetinn á þessu svæði en þarna eru börð sem hann dró eftir og fékk drjúgan afla. Menn sögðu að hann væri á Barnum. Torgið endar svo á svæði sem nefnist Hliðið og sumir kalla það Gullna hliðið en Gunnar sagðist ekki hafa vanist þeirri nafngift. Þarna syðst er frekar leiðinlegur botn, bæði utan og ofan við Hliðið en inn á milli er svolítil ræma sem hægt er að draga suður úr.

Litlar festur í dag

Gunnar sagði að flest þessar nafna hefðu orðið til á árunum 1980 til 1984 eftir því sem menn fikruðu sig dýpra út á Torginu. Fyrstu árin var aðeins farið á norðursvæðið. „Festurnar voru yfirleitt stórir steinar sem menn fengu í vörpurnar. Þetta var áður en höfuðlínunemarnir komu til sögunnar. Við á Bessa ÍS fengum fyrsta höfuðlínunemann á fyrri hluta 9. áratugarins. Af honum var hægt að ráða hvort grjót væri á leiðinni og varast að það kæmi í vörpuna. Höfuðlínuneminn var brátt kominn í öll skip. Eftir það dró mjög úr því að trollið kæmi upp rifið. Seinna komu hleranemar og með því fengum við upplýsingar um grjótin mun fyrr og gátum gripið til viðeigandi ráðstafana. Eftir að þessi breytta tækni kom til og fleiri nýjungar hafa menn togað yfir flest þessi svæði án teljandi vandræða. Nöfnin lifa þó enn þótt engar festur séu þar lengur. Einstaka festur eru þó enn við lýði og þarf að varast þær. Til dæmis er Sléttanesfestan ennþá illræmd.“

Í fyrstu aðeins veitt 3 mánuði á ári

Fram kom hjá Gunnari að fyrstu árin hefði aðeins verið veitt á Torginu í apríl, maí og júní en aldrei á sumrin og veturna. „Einhvern tíma þegar útflutningur á þorski til Englands í gámum stóð sem hæst hófust veiðar á Torginu allt árið. Útflutningur var takmarkaður og skipin fengu ákveðnum fjölda gáma úthlutað í viku hverri.
Einu sinni hringdi útgerðarmaðurinn í mig og sagði að ég yrði að fara eitthvað annað að veiða því hann hefði fengið svo fáa gáma þessa vikuna fyrir þorsk. Ég var þá á Bessanum gamla. Ég keyrði vestur á Torg og hafði ekki nema 16 til 18 klukkustundir til að veiða áður en ég þyrfti að fara í land. Við fengum á þessum stutta tíma grálúðu í 3 gáma. Þetta var um mitt sumar og enginn hafði farið þarna út á þessum tíma. Eftir það fóru skipin að sækja á Torgið þetta sumar og þau voru með frá 80 og upp í 120 tonn eftir viku. Veiðar eru nú stundaðar á Torginu allt árið með mismunandi árangri þó. Þær ráðast aðallega af því hvernig straumaskilin ganga. Helst má vænta þess að fá lúðu þegar skilin koma suður af en á vorin er alltaf grálúðutími eins og var í gamla daga.“

Mynd/Davíð Már Sigurðsson
Mynd/Davíð Már Sigurðsson

Nýjatorg og Gildran

Gunnar sagði að í kringum 1992 hefðu uppgötvast karfamið norðvestur af norðursvæðinu á Torginu. Þetta svæði fékk nafni Nýjatorg. Mikill karfaafli fékkst þar í botntroll um tíma.
Hér er lokið yfirreiðinni um Torgið. Gunnar tók fram að ef til vill væri minna um ný nöfn á veiðislóðum á Vestfjarðamiðum en víðast hvar annars staðar þar sem flest mið þar hefðu verið uppgötvuð og gefið nafn á tímum síðutogaranna eða fyrr. Eitt þeirra nafna sem varð til fyrir tíma skuttogaranna sker sig svolítið úr en það er Gildran norður af Kögri. „Þetta er hólf sem var lokað fyrir togveiðum áður en lórantækin komu til sögunnar. Svæðið er opið í dag, fyrst var hluti þess opnaður og það var kallað Sneiðin. Yfirleitt var Landhelgisgæslan ekki mjög ströng á þessum tíma enda áttu skipin erfitt með að staðsetja sig nákvæmlega. Það vildi því henda að þau færu aðeins inn í hólfið. Eitt sinn bar það við að tveir togarar þvældust inn í hólfið. Annar þeirra hafði verið að toga utan við hólfið og lent í vandræðum þegar verið var að hífa þannig á þá rak inni í hólfið með trollið aftan í. Þeir voru svo óheppnir að varðskip kom að þeim. Menn í fiskveiðiflotanum voru mjög ósáttir eftir að þessi skip höfðu verið tekin að ósekju. Það var eins og verið væri að búa til gildrur til að hanka menn í og þannig er nafnið tilkomið.“

Heiðardalurinn og Teppið

Gunnar gat einnig um tvö gráðlúðumið sem fengu nafn eftir 1980. Norðaustur af Hala og í beinu framhaldi af honum er Heiðardalurinn. „Þegar menn voru búnir að standa í öllu þessu rifrildi á Torginu kunnur þeir sér ekki læti þegar þeir komu á þetta svæði. Þeir gátu togað tímunum saman án þess að nokkuð rifnaði. Þetta var eins og þeir væru komnir heim í Heiðardalinn. Í framhaldi af Heiðardalnum og fyrir austan Gildruna djúpt úti af Hornströndum eru grálúðumið sem nefnast Teppið. Þar er sléttur sandbotn og unnt að toga 10-12 tíma samfleytt. Ég man ekki nákvæmlega hvenær þetta nafn varð til en botninn þarna er eins og flauelsmjúkt teppi,“ sagði Gunnar.

Anfield, Siggutog og Kántrýtog

Fótboltaliðið Liverpool virðist eiga heita aðdáendur í flotanum en sandlæna við Víkurálinn hefur verið nefnd Anfield eftir hinum þekkta leikvangi Liverpoolliðsins, að því er Páll Halldórsson, skipstjóri á Páli Pálssyni ÍS, sagði í samtali við Fiskifréttir. Þessi nafngift er í tengslum við Grétar Kristjónsson, sem var skipstjóri á Gylli ÍS. „Við eigum á þessu skipi eitt örnefni sem við höfum aðeins fyrir okkur en það er Siggutog. Kristján heitinn Jóakimsson var þá með skipið. Þeir voru staddir vestan við Djúpálinn á ýsuveiðum. Konan hans átti afmæli og þeir voru að búa sig undir að fara í land í afmælisveislu. Veiðin var hins vegar svo góð að þeir voru að alla nóttina. Hætt var við að fara í land og ekkert varða af veislunni. Veiðislóðin heitir síðan Sigguslóð í höfuðið á komu skipstjórans. Vestan við Djúpálinn er líka Kántrýtog. Þetta svæði var í miklu uppáhaldi hjá Skagstrendingum þegar þeir lögðu sig sem mest eftir ýsunni. Örvar HU var til dæmis mikið með okkur í ýsuleit á þessum tíma,“ sagði Páll.