Hafrannsóknastofnun ráðleggur til að rækjuafli á svæðinu við Snæfellsnes frá 1. maí 2022 til 15. mars 2023 verði ekki meiri en 393 tonn.

Engar nýjar upplýsingar liggja fyrir um stofnstærð rækju við Snæfellsnes þar sem ekki voru farnir stofnmælingaleiðangrar árin 2021 og 2022. Því er ekki hægt að uppfæra ráðgjöfina og er ráðgjöfin í ár því sú sama og fyrir síðasta fiskveiðiár. Árin 1990-2020 (að undan skyldu árinu 2007) var farið árlega í leiðangur til að meta stofnstærð rækju við Snæfellsnes.

Rækjuafli við Snæfellsnes var mikill á árunum 1992-1995 þegar veiddust nær 8.000 tonn.

„Líklega hefur mikið veiðiálag á þessum árum leitt til þess að rækjustofninn hrundi,“ segir í gögnum Hafrannsóknastofnunar.

Hafrannsóknastofnun veitti fyrst ráðgjöf fyrir rækju við Snæfellsnes árið 2002 en til ársins 2014 var svæðið þó skilgreint sem úthafsrækjusvæði og ekki var gefið út sérstakt aflamark fyrir svæðið við Snæfellsnes. Fiskveiðiárin 2010/2011 til 2013/2014 voru úthafsrækjuveiðar gefnar frjálsar. Sum árin hefur afli við Snæfellsnes farið töluvert yfir ráðlagt aflamark. Árið 2015 ráðlagði Hafrannsóknastofnun að fiskveiðiárið myndi hefjast 1. maí og lyki 15. mars ári síðar. Síðan þá hafa rækjuveiðar ekki verið heimilaðar frá 16. mars til 30. apríl.

Rækjuaflinn var lítill frá 1997-1999 en jókst eftir árið 2007 þar til hann náði hámarki á árunum 2012-2014. Frá árinu 2016 hefur afli minnkað stöðugt í samræmi við lækkandi vísitölu stofnsins. Árið 2019 var aflinn óverulegur en hann jókst aftur árið 2020. Fjöldi skipa á svæðinu jókst hratt til ársins 1994 þegar 47 skip lönduðu rækju. Árið 2006 voru aðeins nokkur skip sem lönduðu rækju, þeim fjölgaði aftur til ársins 2013 en fækkaði eftir það og árið 2021 voru aðeins 3 skip sem lönduðu rækju við Snæfellsnes.