„Skerðingar undanfarinna ára eru ekki í neinu samræmi við upplifun sjómanna um hvernig gengur að veiða. Til dæmis hefur meðalafli í róðri hjá strandveiðibátum farið vaxandi á undanförnum árum og ekkert lát á því í ár,“ segirí frétt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda (LS) þar sem fjallað erum veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem birt var í morgun.

Þar kom fram að stofnunin leggur til að þorskafli verði minnkaður um 13.527 tonn, sem svarar til 6,1% skerðingar. Er það þriðja árið í röð sem stofnunin leggur til skerðingu, en samanlagt nemur hún 63.000 tonnum á tímabilinu, eða rúm 23%.

„Í mínum huga er þetta endalaus hörmungasaga,“ segir Arthur Bogason, formaður LS, í spjalli við Fiskifréttir.

„Það hefur verið juðast með þessa aðferðafræði meira eða minna frá árinu 1984 þegar hún var tekin upp. Árangurinn er minni en enginn. Það eru lögð til 208 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári með æfingum, það er að segja svokallaðri sveiflujöfnun. Miðað við þessa aðferðafræði hefði ráðgjöfin 1984 átt að vera 195 þúsund tonn en þá var gefinn út þorskkvóti upp á 220 þúsund tonn. Og menn virðast bara sallarólegir yfir þessu. Það er boðaður 6% samdráttur í þorski en að vísu myndarleg aukning í ýsu en aukin ýsugengd er eitthvað sem veiðimenn hafa verið að benda á látlaust í langan tíma. Það er eins og þessi vísindi séu alltaf skrefinu á eftir í þessum málum og það hefur líka verið margbent á það. Maður verður bara hálfdapur yfir þessu öllu saman,“ segir Arthur.