„Það styttist í að þessu ljúki. Ég á tuttugu vita eftir og vonast til þess að klára þá í sumar,“ segir Mathilde Morant sem hefur undanfarin ár gert vatnslitamyndir af ríflega vitum hér við land. Þessir tuttugu sem ertir eru segir hún þó vera meðal þeirra sem erfiðast er að nálgast.

„Þeir eru annað hvort á eyjum eða þangað eru mjög erfiðar gönguleiðir. Þannig að ég þarf að finna einhvern sem á bát til að komast að þeim.“

Hún er að leita upplýsinga um fólk sem gæti tekið það að sér.

„Ég hugsa að næsta sumar geti orðið býsna erfitt, en ég er mjög spennt fyrir því.“

Hún segist ekki vera viss um að verkefnið klárist í sumar, og vonast jafnvel hálfpartinn til þess að það dragist eitthvað frekar á langinn.

„Síðasta sumar málaði ég 14 vita, minnir mig, og þeir voru líka erfiðir viðureignar. Það væri gott að klára en mér þætti líka allt í lagi að það tækist ekki vegna þess að ég hef svo gaman af þessu verkefni. Ég hef smá áhyggjur af því núna þetta verði allt búið. Ég er kominn með meira en 100 myndir.“

Byrjaði fyrir vestan

Hún fékk hugmyndina fyrst veturinn 2018 og byrjaði strax að leita sér upplýsinga um það hvar allir vitarnir eru staðsettir. Hún varð sér úti um kort, hafði samband við fólk og Vegagerðin var mjög hjálpleg. Síðan hófst verkið fyrir alvöru sumarið 2019.

„Þá lét ég gera svefnaðstöðu í bílnum mínum og ók til Vestfjarða. Ég var mjög heppin með þetta sumar því veðrið var virkilega gott.“

Þegar til kom reyndist ekki erfitt að finna vitana, því hún var búin að undirbúa sig vel. Hún hafði með sér bókina Vitar á Íslandi, sem Siglingamálastofnun gaf út árið 2002, og svo var hún með GPS-hnit allra vitanna.

„Stundum villist ég samt, því oftast sér maður vitann ekki strax heldur þarf að ganga langa leið, stundum erfiða, og svo kemur hann ekki í ljós fyrr en komið er alveg að honum.“

Fór að skoða kort

Spurð hvað hafi orðið til þess að hún fékk þessa hugmynd, segir hún að það hafi verið þegar hún fór að skoða kort af Íslandi.

„Ég var búin að kaupa kort og sá allar þessar litlu stjörnur meðfram ströndinni. Þær vöktu forvitni mína og þegar ég komst að því að þetta væru vitar þá hugsaði ég með mér, að fyrst þeir eru á kortinu ætti ég að fara að þeim öllum.“

Hún segir þetta hafa verið á tímabili í lífi sínu þegar hún var dálítið úti á þekju, hálftýnd og þurfti eitthvað til þess að koma sér í gang.

„Ég hugsaði með mér að þetta væri skrýtin hugmynd en ég ætla að reyna þetta og sjá hvað verður úr því. Og þetta er búið að vera alveg stórkostlegt. Algjört ævintýri. Þegar ég byrjaði var ég líka ekki mjög góð í fjallgöngum. Fyrstu gönguferðirnar voru mjög erfiðar en mér fór hratt fram og nú treysti ég mér í mjög erfiðar göngur, oftast ein á ferð þannig að ég hef lært mikið.“

Góður skóli

Hún segist líka hafa lært mikið í meðferð vatnslita á því að mála vitana og myndirnar hafi þróast með tímanum. Þetta hafi verið góður skóli í handverki listamanns.

„Þegar ég byrjaði hafði ég ekki mikla reynslu af vatnslitum, kunni betur á teikningu og línur en ég var byrjandi í málun. En núna finn ég að tæknin er að batna mikið, eftir hundrað myndir þá verður maður auðvitað betri.“

Hún segir vitana misjafnlega áhugaverða og landslagið misfallegt. Hún byrjaði á að mála þá sem auðvelt var að komast að akandi, en þetta hafi verið skemmtilegt ferðalag og gaman að hitta fólk og heyra sögur.

  • Galtarviti í Keflavík á Vestfjörðum, milli Súgandafjarðar og Skálavíkur. Matilde segir ferðina þangað og dvölina í vitanum vera eftirminnilega.

Enginn sérstakur viti sé í uppáhaldi, enda erfitt að gera upp á milli þeirra, en Galtarviti sé henni alltaf ofarlega í huga.

„Þegar ég gekk þangað var ég ekki komin með mikla reynslu þannig að þetta var mjög sterk upplifun fyrir mig. Ég þurfti að fara yfir fjallaskarð sem var mjög bratt, sjö kílómetra ganga í heild, minnir mig. Ég svaf þarna í húsinu, var alveg ein og fékk martraðir um nóttina. Svo var ekkert samband í gemsanum þannig að þetta verður mér mjög eftirminnilegt. Þetta var áhugaverð reynsla.“

Hreyfing í þögninni

Galtarviti er á Vestfjörðum, í Keflavík sem er á milli Súgandafjarðar og Skálavíkur. Óskar Aðalsteinn rithöfundur var vitavörður þar frá 1953 til 1977 og hann sagði engan geta lýst þögninni sem umlykur vitann á þessu afskekktasta byggða bóli landsins, sem þá var: „Hér er sú þögn, sem aldrei verður í fjölmenni, það er í henni hreyfing, ljúf og góð, sem helst má líkja við bylgjuhreyfingu túngresisins á lognkyrrum sumardegi,“ er haft eftir Óskari á vef Galtarvita, galtarvitilighthouse.com

Matilde segist oftast vera ein á ferð þegar hún fer að mála vitana, jafnvel þegar erfitt er að komast að þeim.

„Sumarið 2020 fór ég á Hornstrandir og var þar í fimm daga, ein með tjaldið mitt. Ég hafði aldrei gert slíkt áður en mér fannst það frábært. En stundum þegar ég mér tekst að hitta á landeigendur í nágrenni vitanna þá reyni ég að spyrjast fyrir um leiðina, og stundum býðst fólk til að koma með mér.“

Hún segir marga Íslendinga engan veginn gera sér grein fyrir því hve margir vitarnir séu.

Mikil fjölbreytni

„Þeir eru líka svo ólíkir, og jafnvel þótt hönnun margra þeirra sé svipuð þá er landslagið í kring aldrei eins. Einhver spurði mig hvort ég verði ekkert þreytt á því að vera alltaf að mála vita, en því fer fjarri. Ég verð ekkert þreytt á þessu. Stór partur af því er líka að komast á staðinn.“

  • Digranesviti stendur við Bakkaflóa, en að vitanum liggur falleg gönguleið frá þorpinu á Bakkafirði.

Hún var með sýningu í haust í Vitavarðarhúsinu á Gróttu og stefnir á aðra á næsta ári, hvort sem verkefninu verður lokið þá eða ekki.

Fyrir utan að mála vitana á Íslandi hefur hún einnig gert blekteikningar, meðal annars af eldgosinu í Fagradalsfjalli.

„Svo hef ég líka gert myndir af ímynduðum vitum.“

Fyrst kom hún til Íslands til að vinna í tengslum við myndlistarnám sitt, byrjaði í kvikmyndabransanum sem málari og nú starfar hún í leikmunadeild Þjóðminjasafnsins, enda með prófgráðu í sviðshönnun.

Fylgjast má með vitaverkefninu á vefsíðunni mathildemorant.com og á instagram.com/vitiproject