Hafrannsóknastofnun gaf út ráðgjöf um humarveiðar 17. desember síðastliðinn. Lagt var til að engar humarveiðar verði leyfðar árin 2022 og 23, enda bendi gögn til þess að þrátt fyrir minni sókn undanfarin ár fari ástand stofnsins enn versnandi og nýliðun sé lítil sem engin. Þannig hefur stofnstærð humars minnkað um 27% á tímabilinu 2016-2021 og er nú í lágmarki.

Undanfarin fjögur ár hefur Hafrannsóknastofnun fylgst sérstaklega með því hvort humarlirfur finnist í svifi og staðfest að þær eru þar að finna þó ekki sé í miklu magni. Humarinn er því að fjölga sér en að mati sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar er erfitt að átta sig á því hvort nýliðun hafi heppnast innan tiltekins árabils fyrr en að nokkrum árum liðnum.

Rannsókn á atferli humarsins kemur til viðbótar við margvíslegar aðrar rannsóknir á tegundinni sem hafa breyst mikið síðastliðin ár eins og t.d. holutalningar við stofnmat í stað niðurstaðna úr veiði í humarralli sem voru farin árlega í 50 ár, en þá var dregið humartroll á föstum togstöðvum á helstu humarbleiðunum.

Fengið góðan frið

Jónas Páll Jónasson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, gerði grein fyrir rannsókninni á atferli humarsins í erindi sem hann flutti á vettvangi stofnunarinnar fyrir skemmstu. Atferli leturhumars var kannað á tveimur svæðum í Jökuldjúpi, á 115 og 195 metra dýpi.

Jónas P. Jónasson, fiskifræðingur
Jónas P. Jónasson, fiskifræðingur
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Valið var að gera þessa rannsókn í Jökuldýpi ekki síst vegna þess að humarveiðar hafa verið bannaðar á svæðinu í um tvö ár eins og í Lónsdýpi. Humarinn hefur því fengið góðan frið fyrir veiðum og þau svæði voru valin þar sem þéttleiki humarhola er hvað mestur.

Á hvorri slóðinni voru merktir humrar með smáum hljóðmerkjum. Á hvoru svæði var einnig sett niður net níu hlustunardufla með 100 metra bili, auk straumsjár. Humrarnir voru merktir í lok ágúst og duflin tekin upp í lok nóvember. Upplýsingar bárust frá öllum merkjum en tíu humrar af sextán á hvorum stað voru metnir lifandi þegar niðurstöðum var safnað.

Unnið við búnaðinn um borð, m.a. tækjum til að taka við hljóðmerkjum. MyndHafrannsóknastofnun
Unnið við búnaðinn um borð, m.a. tækjum til að taka við hljóðmerkjum. MyndHafrannsóknastofnun
© Hafrannsóknastofnun (Hafró)

Humarinn dvelur í holum á leirbotni sem hann grefur og viðheldur. Hann er einungis veiðanlegur þegar hann yfirgefur holuna en aflabrögð geta verið mjög sveiflukennd. Hingað til hafa upplýsingar um virkni dýranna einkum byggst á upplýsingum frá veiðum og tilraunum við eldisaðstæður.

Karldýrin flakka

Verkefnið var að kortleggja hvað er að gerast á hafsbotninum og þá ekki síst hversu mikið og oft humarinn fer úr holu sinni, og er á ferli. Framkvæmdin reyndist nokkuð flókin þegar af stað var farið, og kom margt til. Straumar voru eitt, einnig að koma dýrunum niður á botn eftir merkingu um borð í rs. Bjarna Sæmundssyni og finna hlustunarduflin þremur mánuðum eftir að þau voru sett úr, svo fátt sé talið.

Fjölmörg merki komu frá merktum humrum á báðum stöðvum, og greinilega voru þau flest við sólarupprás og sólarlag á grynnra vatni. Þetta snerist við á 195 metra dýpi þar sem dýrin voru virkust yfir nóttina. Myndin var ekki eindregin hvað þetta varðar en stóru línurnar þó, en t.d. hagaði eitt merkta kvendýrið sér allt öðruvísi en karldýr á sama svæði. Jónas Páll nefndi að mögulega sé það vegna þess að kvendýrið sé hreinlega að forðast karldýrin og hegðunarmynstrið komi því svona fram. Eins var greinilegt að hegðun humarsins breyttist eftir því sem leið á rannsóknartímann sem var um þrír mánuðir – en það kom einfaldlega til af því að daginn er stytta á tímabilinu ágúst til nóvember. Þá virtust gögnin benda eindregið til þess að kvendýrin fara ekki langt frá holu sinni en karldýrin flakka meira um.

„Þeir virðast líka vera nokkuð árásargjarnir en lítill samgangur er á milli þeirra,“ sagði Jónas Páll og bætti við að ef rannsóknin, sem er sennilega sú fyrsta á heimsvísu þar sem hegðun humarsins er metin með þessum hætti, yrði endurtekin væri spennandi að gera það að vorlagi þegar mesta veiðin er, og yfir sumarið. Þá væri jafnframt mögulegt að lengja í rannsóknatímanum, en þá gæfust upplýsingar eftir að dýrið hefur vanist „nýjum veruleika“ eftir merkinguna og þess áreitis sem hún veldur. Dýrið verður t.d. að venjast því að vera komið á nýjan stað; það er staðbundið en við veiði og merkingu flytur dýrið sig að sjálfsögðu frá upphaflegum heimahögum sínum.

Veiðarnar fóru fram að næturlagi.  Mynd/Svanhildur Egilsdóttir - Hafrannsóknastofnun (1)
Veiðarnar fóru fram að næturlagi. Mynd/Svanhildur Egilsdóttir - Hafrannsóknastofnun (1)
© Svanhildur Egilsdóttir/Hafrannsóknastofnun (Svanhildur Egilsdóttir/Hafrannsóknastofnun)

Um 500 milljónir

Hafrannsóknarstofnun hefur talið humarholur síðastliðin fimm ár á þekktum humarveiðislóðum. Talið hefur verið á 80-100 stöðvum. Niðurstaðan er sú að humarholurnar eru nálægt um 435 milljónir talsins árið 2021 og hafði þeim fækkað frá um 600 milljón holum árin 2016-2017.

Ástæðan fyrir því að Hafrannsóknastofnun telur humarholur er sú að hefðbundið togararall með vörpu eða öðru veiðarfæri hentar ekki til að leggja mat á stofnstærð tegundar sem er jafn misveiðin og humar. Með hefðbundnu ralli getur vísitalan á einstaka svæðum rokið upp og á næsta ári getur hún dottið niður í nánast ekki neitt. Vitað er að humar lifir í 15-20 ár og þess vegna ættu sveiflurnar í stofnstærð að vera hægfara.

Mynd/Svanhildur Egilsdóttir
Mynd/Svanhildur Egilsdóttir
© Svanhildur Egilsdóttir/Hafrannsóknastofnun (Svanhildur Egilsdóttir/Hafrannsóknastofnun)

Allflestar þjóðir sem stunda humarveiðar að einhverju gagni hafa talið humarholur á sínum veiðisvæðum í tilraun til að leggja mat á lífmassann. Talningar af þessu tagi hafa til dæmis farið fram í um nærri 30 ára skeið við Skotland. Þannig er einfaldlega fylgst með stofninum með því að telja hversu margar humarholurnar eru en í hverri holu er talið vera eitt dýr.