Hafrannsóknastofnun nýtir sér gögn úr gervihnöttum til að meta styrk blaðgrænu í hafinu. Kristinn Guðmundsson segir þessi gögn bjóða upp á mikla möguleika til að skoða þátt gróðurframvindunnar í afkomu annarra lífvera í hafinu.

Hafrannsóknastofnun hefur nú um hálfrar aldar skeið mælt styrk blaðgrænu í sjósýnum sem tekin hafa verið umhverfis landið. Þessar mælingar hófust 1973 og hafa gefið mikilvægar en að vísu takmarkaðar upplýsingar. Frá árinu 1997 hafa síðan til viðbótar borist upplýsingar frá gervihnöttum sem fylla upp í myndina.

Kristinn Guðmundsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir þessi gervitunglagögn hafa skipt sköpum en sjálfur hefur hann lagt mikla vinnu í að lesa úr þeim og túlka svo þau komi almennilega að gagni. Hann fjallaði um þá vinnu alla á málstofu Hafrannsóknastofnunar í síðasta mánuði.

„Þetta er í rauninni bara eins og það hafi opnast nýr gluggi hjá okkur,“ segir Kristinn í stuttu spjalli við Fiskifréttir. „Áður vorum við alltaf háð því að mæla það sem er í sjósýnum, og þá þurftu menn að þvælast um á skipi og taka punktsýni hér og þar, og gera það aftur og aftur til þess að fá upplýsingar um gróðurframvinduna. Slíkt var ekkert í boði nema á mjög takmörkuðum svæðum og í afmörkuðum átaksverkefnum hérna áður. Þetta var flöskuháls, en núna er þá hægt að tengja þetta saman, fá þessa framvindu úr gervihnattagögnum og skoða sýni úr sjó til samanburðar. Þetta opnar nýjar víddir, bæði hvað varðar dreifingu svifgróðurs yfir hafsvæði og breytileika á magni gróðursins með tíma.“

Frábær tækni

Það var bandaríska geimferðastofnunin, NASA, sem þann 1. ágúst 1997 skaut upp á himingeiminn mælingahnetti sem nefnist SeaWiFS. Tilgangurinn var að fylgjast með heimshöfunum og nú hafa gögn frá þeim mæli og síðar öðrum sambærilegum mælum borist stöðugt til jarðar í nærri aldarfjórðung.

  • Mælingahnötturinn sem NASA sendi upp árið 1997. MYND/NASA

„Þetta er frábær tækni,“ sagði Kristinn á málstofunni í Hafró um daginn. „Það er sem sagt bara settur scanner um borð í gerivhnött og hnettinum komið á sporbraut sem fer yfir pólana. Snúningur jarðar sér til þess að það belti sem er skannað hliðrast alltaf til og í reyndinni er það þannig að mesta hluta yfirborðs jarðar næst að skanna á einum sólarhring. Það geta orðið smá eyður á milli en það líða aldrei meira en 2-3 dagar þangað til allt hefur verið skannað.“

Þegar Kristinn fór að rýna í gögnin frá gervihnettinum og bera þau saman við sjósýnamælingar þá kom fljótt í ljós ákveðið misræmi. Til að mynda sýndu gervihnattagögnin einkennilega há gildi í upphafi árs.

„Við höfðum oft mælt í upphafi árs og vissum að það átti að vera bara nánast núll. Og svo á haustin eða þegar fór að líða á gróðurtímabilið þá voru gildin heldur ekki að lækka eins og búast mátti við.“

Skýringa leitað

Hann fór því að leita að skýringum á þessu misræmi og fann að með því að taka tillit meðal annars til árstíma, sólarhæðar og dýpis á hverjum stað má leiðrétta bjögun í þessum gögnum.

„Þegar maður fór svo að skoða dreifingu vísitalna um framvindu gróðursins samkvæmt leiðréttum gildum fór maður að kannast við og samþykkja niðurstöðurnar. Við vissum að gróðurtímabilið byrjaði fyrr á árinu fyrir norðan heldur en fyrir sunnan, og fyrr á árinu inn við land heldur en úti á úthafinu, en nú getum við séð hvernig breytileikinn er ár frá ári á völdum svæðum.“

Hann segir einnig mjög áberandi að „breytileikinn á fyrsta degi gróðurtímabilsins er meiri fyrir norðan frá ári til árs þó auðvitað séu alltaf undantekningar á því, líka fyrir sunnan. Og gróðurtímabilið fyrir norðan er lengra af því það hefst fyrr.“

Langtímasveiflur fyrir sunnan

Einnig er breytilegt hvenær ársins gróðurinn er í hámarki fyrir norðan, en fyrir sunnan land virðast vera meiri langtímasveiflur í tímasetningu gróðurhámarksins.

„Þessar langtímasveiflur urðu einmitt til þess að ég áttaði mig á að sláandi samsvörun var á þessum breytileika og árlegum mun á varpárangri lunda í Vestmannaeyjum, sem var verið að sýna í fyrirlestri sem ég var að hlusta á.“

  • Gróðurþekjan í hámarki umhverfis landið. MYND/Hafrannsóknastofnun

Þannig segir hann umrædd gervitunglagögn geta nýst í vistfræðilegum rannsóknum, bæði til að skoða hvað stjórnar árlegri framvindu gróðurs og meta hugsanleg áhrif gróðurframvindu á afkomu dýra á skilgreindum svæðum og tímum.

„Augljóslega þarf haldbærar niðurstöður mælinga á árlegum breytileika á gróðri ef sýna á fram á hvaða áhrif frumframleiðslan hefur á lífverur sem þurfa rétt fæðuframboð á afmörkuðum tíma,“ segir Kristinn.