Af alls 1.292 tonna kvóta sem Ísland hefur fengið úthlutað frá því það gerðist aðili að túnfiskráðinu 2002 hafa veiðst á milli 80-90 tonn af þessum verðmæta fiski á þessum tveimur áratugum, jafnt í beinum veiðum og í meðafla. Þetta er ekki nema 6-6,7% af úthlutuðum kvóta. Mikil eftirsókn er eftir kvótunum og sú hætta fyrir hendi að þeim verði ráðstafað annað séu þeir ekki nýttir.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið áformar að leggja fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Verði frumvarpið að lögum verða veittar tímabundnar heimildir til að taka á leigu sérhæfð erlend skip til veiðanna í því augnamiði að viðhalda veiðireynslu Íslands.

„Gert er ráð fyrir frumvarpi sem leggur til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, á lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri,“ segir í samráðsgátt stjórnvalda. Gert er ráð fyrir að ákvæðin yrðu tímabundin og miðuðu að því að heimilt væri í þessum sérstöku aðstæðum að íslenskir aðilar gætu tekið á leigu erlend skip til veiðanna, eingöngu til veiða á bláuggatúnfiski.

Flókið viðfangsefni

Aðilar innan greinarinnar sem Fiskifréttir ræddi við segja viðfangsefnið flókið í framkvæmd og vinna þarf hratt til að hægt sé að gera sér vonir um veiðar á þessum grundvelli á komandi túnfiskvertíð sem stendur frá vori fram til áramóta. Talsverð samræða hefur þó átt sér stað milli einstakra útgerða, stjórnvalda og sjómannasamtaka um málið.

Aðili tengdur útgerð segir þessa leið þá einu færu til þess að láta reyna á túnfiskveiðar innan lögsögunnar og til að veiða þann kvóta sem fellur í skaut Íslands. Útgerðir hafi reynt fyrir sér sjálfar en árangurinn verið upp og ofan. Ekki sé hægt að leggja á einstök fyrirtæki tilraunaveiðar af þessu tagi með tilheyrandi kostnaði. Það þurfi sérhæfð skip í þessar veiðar í hálfs árs úthald. Til þessara veiða þurfi sams konar skip og hafa stundað þær suður af Íslandi.

Um miðjan nóvember sögðu Fiskifréttir frá því að hátt í 30 japönsk og suður-kóresk skip væru í góðri túnfiskveiði rúmar 200 sjómílur suður af Vestmannaeyjum. Skipin voru nánast öll með sama yfirbragði, stærð og vélarafli. Lengd skipanna er 48-52 metrar og breiddin 9-10 metrar. Þessi skip eru smíðuð á árunum 1990 til 2019 og aflinn er allur frystur um borð.

Heimildarmaður blaðsins segir í allra síðasta lagi af stað farið til þess að veiðar geti hafist í vor. Hann bendir á að asíski flotinn sem hafi verið við veiðar suður af landinu síðastliðið haust hafi lagt að stað heiman frá sér upp úr áramótunum. Enn eigi eftir að leggja fram frumvarp og lagalegan grunn að því fá hingað erlent skip með áhöfn til túnfiskveiða. Verði af þessu sé um að ræða verkefni fyrir eitt útgerðarfyrirtæki með eitt skip.

Mönnunar- og öryggismál

Það þurfi að hafa snör handtök bæði hvað varðar lagasetningu, að finna skip og ganga frá öllum pappírum ef veiðar eiga að geta hafist hér við land í september. Ekki sé einu sinni vitað hvort skip af þessu tagi séu yfirleitt á lausu. Enginn lyfti upp tóli til að spyrjast fyrir um slíkt nema búið sé að vinna alla undirbúningsvinnuna. Lagagrundvöllurinn og allar reglur verði að vera til staðar. Það hefði í raun þurft að hefja samningaviðræður af því tagi strax um áramótin. Ennfremur dugi ekki að taka skip á leigu heldur þurfi jafnframt að lögskrá það á Íslandi með áhöfn til að það teljist vera íslenskt veiðiskip. Kvótann frá Atlantshafstúnfiskráðinu er einungis hægt að úthluta á íslensk skip. Þá komi strax upp önnur úrlausnarefni eins og mönnunarmál og öryggismál. Ná þurfi tímabundnum samningum við sjómannasamtökin á Íslandi um mönnunarmál með erlendri áhöfn.

Fjöldi úrlausnarefna af þessu tagi eiga eftir að koma upp verði farið lengra með málið. Mörg lúta þau að tímabundnum ráðstöfunum sem verði ekki fordæmi til seinni tíma litið. Með sameiginlegu átaki allra sem koma að þessu, þ.e.a.s. löggjafans, útgerða og sjómanna væri hægt að leysa öll þessi mál.

Mikið í húfi

Það sem er í húfi fyrir Ísland er túnfiskkvóti Atlantshafstúnfiskráðsins sem mikil eftirsókn er eftir. Ljóst sé að nýti Íslendingar ekki kvótann ár eftir ár geri aðrar þjóðir kröfur um að fá hann, til að mynda Evrópusambandið og Norðmenn. Með samstarfi við erlenda aðila um túnfiskveiðar fengist þekking og reynsla hér innanlands á þessum sérhæfðu veiðum og jafnvel grundvöllur fyrir því að íslensk útgerðarfyrirtæki fjárfestu síðar meir í sérhæfðum túnfiskveiðiskipum. Sem fyrr segir yrði slík útgerð einungis á grundvelli hálfs árs úthalds og því þyrftu að koma til línuveiðar á öðrum tegundum innan íslensku lögsögunnar helminginn af árinu.

Tilraunaveiðar Japana

„Aðdragandi að upphafi veiða á túnfiski í íslenskri lögsögu var að japönsk skip eltu túnfiskinn upp að lögsögu Íslands árið 1994, en um það leyti var túnfiskurinn farinn að leita enn lengra til norðurs í ætisleit í sífellt hlýnandi sjó. Japanir sóttu um leyfi til þess að stunda túnfiskveiðar innan lögsögu Íslands en var hafnað. En þess í stað voru tilraunaveiðar heimilaðar japanska útgerðarfyrirtækinu MAR Company Limited (Tairyo Trading Company Limited frá árinu 2000) með þátttöku Hafrannsóknastofnunar og voru þessar veiðar þess valdandi að stjórnvöld sóttu um kvóta til Alþjóða túnfiskveiðiráðsins (ICCAT).“

Frá þessu segir í ritgerð Hjálmars Arnar Erlingssonar, Bláuggatúnfiskur í íslenskri lögsögu, sem var lokaverkefni hans til BS gráðu í sjávarútvegsfræði árið 2017.

„Umsóknin var samþykkt á grundvelli breytts göngumynsturs túnfisksins en ekki vegna veiðireynslu japönsku skipanna. Tilraunaveiðar Japana stóðu yfir í íslenskri lögsögu árin 1996-2002. Skipin komu stundum til Reykjavíkurhafnar snemma á haustin og muna margir eflaust eftir því. Japönsku skipin fengu á þessum árum mest 244 tonn eða 2.259 fiska árið 1998. Aflinn var allur veiddur á línu og var aflinn hraðfrystur um borð. Eftir árið 1998 dró mikið úr veiðunum og lögðust þær af eftir 2002. Á þessum árum hafði Ísland ekki gerst aðili að alþjóðlegum samningi um túnfiskveiðar í Atlantshafi. Þar af leiðandi var túnfiskur utankvótategund og máttu öll íslensk fiskiskip sem höfðu leyfi til veiða reyna fyrir sér með veiðar á honum.“

Brautryðjandinn Byr

Brautryðjandi Íslendinga í túnfiskveiðum er án efa skipið Byr VE-373. Byr veiddi tæp 74 tonn af túnfiski á árunum 1999-2000. Ísland gerðist svo aðili að Alþjóða túnfiskveiðiráðinu (ICCAT) í október árið 2002 og fékk þjóðin þá fyrst úthlutaðan túnfiskkvóta. Árið 2012 fékk Stafnes KE-130 úthlutað 25 tonnum af túnfiskkvóta og var fyrsta kvótasetta skipið sem fór til veiða. Vorið 2013 var dregið hjá sýslumanni á milli Jóns Gunnlaugs ST-444 og Stafnes KE-130 sem hafði leyfið árið áður. Leyfið kom í hlut Jóns Gunnlaugs ST-444 og fékk hann leyfi til að veiða 26 tonn af túnfiski á línu. Skipið fór í tvo róðra suður af landinu en aflinn var enginn.

Íslendingar hafa núna leyfi fyrir einu línuskipi á túnfiski. Vísir hf. í Grindavík gerði Jóhönnu Gísladóttur GK út til veiðanna í þrjú ár.  Fyrstu vertíðina árið 2014 nam aflinn 28 tonnum og árið 2015 var veiðin 37,4 tonn. Síðsumars 2016 gengu veiðar mun verr en fyrri árin tvö og var heildarveiðin 6 tonn en af þeim afla veiddi Jóhanna Gísladóttir GK-355 einungis 3,2 tonn. Annar túnfiskafli ársins kom upp sem meðafli annarra skipa.