Kínverskur dómstóll hefur dæmt 17 manns í 10 til 14 ára fangelsi fyrir aðild að smygli á norskum eldislaxi frá Víetnam til Kína. Þyngsta dóminn hlaut Yimin Dong, kona með norskan ríkisborgararétt.

Hún bjó áður í Bergen í Noregi og hafði starfað fyrir norska eldisfyrirtækið Salmar, en fulltrúar Salmar neita allri aðild fyrirtækisins að smyglinu. Hún er sögð hafa keypt lax af Salmar, flutt hann frá Noregi til Víetnam og smyglað honum þaðan yfir til Kína.

Norska ríkisútvarpið, NRK, hefur fjallað ítarlega um málið undanfarið og norska Fiskeribladet greinir einnig frá.

Alls voru um 70 manns handteknir í Kína í tengslum við málið árið 2018, eftir að upp komst.

Haft er eftir Trine Sæther Romuld, fjármálstjóra Salmar, að fyrirtækið hafi ekki tekið neinn þátt í réttarhöldunum í Kína og viti lítið um réttarforsendur málsins þar.

„Við höfum fengið upplýsingar um það eftir öðrum leiðum að hún sitji í fangelsi í Kína og haldi eindregið fram sakleysi sínu,“ segir hún.

NRK segir að hún hafi áfrýjað og hefur eftir Harald Kvalheim, fyrrverandi yfirmanni hennar, að hann trúi því engan veginn að hún hafi sjálf verið virk í smyglinu. Mögulega hafi hún þó tengst því „á kantinum“.

Undir lok síðustu aldar setti hún sig í samband við norska laxeldisfyrirtækið Domstein og bauðst til þess að hafa milligöngu um útflutning á laxi til Kína. Síðar vann hún við útflutning á eldislaxi frá Salmar til Víetnam og Kína.

Grunur kínverskra stjórnvalda virðist hafa vaknað þegar útflutningurinn til Víetnam tók að aukast verulega og útflutningurinn til Kína að sama skapi að minnka.