„Ef ég horfi yfir þann tíma sem ég hef verið viðriðin þessi mál frá stofnun Landssambandsins þá hefur orðið algjör bylting á þessum 35-40 árum, svo vægt sé til orða tekið,“ segir Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda.

Arthur var á sínum tíma einn helsti hvatamaður að stofnun Landssambandsins og hefur verið þar í forystu lengst af, að undanskildum nokkrum árum þegar hann dró sig í hlé frá formennskunni.

„Ég er kannski ekki allra karla elstur en ég er samt nógu gamall til að muna það að ég eignaðist bát þegar ég var mjög ungur og reri á honum út um allt. Það var hvorki kompás né björgunarbátur um borð. Þannig að hlutirnir hafa svo sannarlega breyst.

Hann segir að allt frá því Landssambandið var stofnað hafi það verið einn af þáttum félagsstarfseminnar að taka þátt í þessari byltingu sem orðið hefur í öryggismálum.

„Við náttúrlega þekkjum það, og það er ekki skemmtilegt til frásagnar að sjóslys voru nokkurn veginn fastur liður í bókhaldinu, en hægt og rólega með árunum hefur tekist að umbylta þessu. Það er stórkostlegt að upplifa það ár eftir ár að það fer ekki einn einasti maður forgörðum við veiðarnar eins og var bara regla. Það þótti bara einhvern veginn óumflýjanlegt.“

Tækniþróunin

Hann nefnir bættan tækjabúnað sem litið hefur dagsins ljós á undanförnum áratugum, svo sem betri staðsetningar- og siglingatæki. Enn fremur meiri og betri þekkingu, og reglulegt námskeiðahald sem nú er haldið meðal sjómanna um öryggismál og slysavarnir.

„Þá ber ekki síst að geta þess hve veðurspám hefur fleytt fram og nú geeta menn einnig fengið ölduspár,“ segir Arthur.

„Þetta leggst allt saman á sömu árarnar og ég held að ég geti fullyrt að ástandið á öryggismálum í íslenska smábátaflotanum sé eitt það besta, ef ekki það besta á nokkrum smábátaflota í heiminum,“ segir hann, en tekur fram að „maður á náttúrlega alltaf að banka neðan í tréborð þegar maður segir þessa hluti. En við erum bara rosalega stoltir og ánægðir að hafa tekið þátt í þessari byltingu.“

  • Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda. Mynd/Eyþór

Eitt af því sem orðið hefur til mikilla bóta segir Arthur vera sjálfvirka tilkynningakerfið, AIS-kerfið sem nú hefur verið í notkun í meira en áratug..

„Þetta tók við af gamla kerfinu sem var að mörgu leyti ágætt, en þetta er ennþá betra. Þessi kerfi hafa sýnt gagnsemi sína, en það er eins og með alla tækni þá þróast þetta stundum í stökkum og stundum hægt og rólega. Alla vega þá er ég alveg klár á því að öll siglingatæki og öryggistækin sjálf eru í stöðugri framþróun sem er bara frábært. Landssambandið tekur heilshugar þátt í að styðja slíka framþróun.“

Einn ómetanlegur þáttur í þessari þróun sé svo hlutur Landsbjargar og „hinna öflugu björgunarsveita sem hafa unnið þvílík þrekvirki í þessum málum að það verður við fátt jafnað.“

Spurning um hugarfar

Ekkert er þó svo fullkomið að ekki megi enn bæta og Arthur er spurður út í það sem enn kann að vera ábótavant, til dæmis með hliðsjón af því að enn hendir það stöku sinnum að bátum sé siglt í strand.

„Já, það er dálítið hvimleitt að menn hafa svolítið verið að fá sér lúr á heimleiðinni og endað uppi í fjöru. Til allrar guðslukku þá hefur nánast í öllum tilfellum orðið mannbjörg og ekki annað tjón en á bátunum, og þá er alltaf hægt að bæta og smíða upp á nýtt.“

Hann segir þetta fyrst og fremst snúast um að menn „fari eftir þeim reglum sem eru í gildi um ákveðna hluti, og það að leyfa sér það að leggja sig undir stýri, að slíku á ekki nokkur maður að láta standa sig. En þarna er fyrst og fremst kannski um hugarfar manna að tefla.“

Það dugi ekki að setja um það bara reglur og lög, því hugarfarið breytist ekki sjálfkrafa við það.

„Þetta er eitthvað sem menn þurfa bara að innprenta sjálfum sér.“

Hann segir Landssambandið ræða þessi mál reglulega og hvetja sína menn til dáða.

„Við eigum sæti í Siglingaráði og þar er tekist á um þessi mál. Sumir vilja leysa þetta með einhverjum reglugerðum og fleiri yfirmannsstöðum um borð í þessum stóru smábátum, en ég held að það sé alveg sama hversu margir þeir eru, þeir hafa allir þann hæfileika að geta sofnað undir stýri ef að því er að skipta. Það þarf hugarfarsbreytingu en ekki endilega einhverjar svona breytingar. Við höfum hvatt til þess að menn sýni ítrustu varkárni.“

Hann nefnir að frá því strandveiðar hófust fyrir rúmum áratug séu strandveiðibátar búnir að fara í hátt í 200.000 róðra.

„Í öllum þessum róðrafjölda hafa slys verið það fátið að það hlýtur að teljast með eindæmum. Við hljótum að rekja það til þess að menn séu meðvitaðir um smæð sína og beri tilhlýðilega virðingu fyrir náttúruöflunum.“

Veikleiki í kerfinu

Landssambandið hefur lengi hvatt til þess að þeim reglum sem gilda um sóknardaga í smábátaveiðum verði breytt þannig að þær verði sveigjanlegri.

„Við höfum bent á þetta sem veikleika í strandveiðikerfinu. Það er óþarfa pressa að vera með svona fáa leyfilega daga, og það hvetur að sjálfsögðu til þess að menn sækja í verri veðrum ef það er farið að sneiðast um dagana. Við höfum verið að hvetja til þess undanfarin ár að menn fái fastan dagafjölda,“ segir Arthur.

„Ef ég ætti að ráða þessu þá náttúrlega myndi ég gefa handfæraveiðar frjálsar, en það er nú kannski ekki alveg að gerast á morgun. En ég er alveg klár á því að með því að leyfa fleiri daga til að velja úr, eftir því eru menn rólegri sem þýðir meira öryggi.“