Samstarf við Matís, Hafrannsóknastofnun og Háskóla Íslands um rannsóknir. María Maack segir þetta gert í beinu framhaldi af strangari umhverfiskröfum.

Reykhólahreppur og Þörungaverksmiðjan hf. stofnuðu í febrúar Þörungamiðstöð Íslands, og hefur nýja miðstöðin nú þegar gert samstarfssamninga við Matís, Hafrannsóknastofnun og Háskóla Íslands.

Í stofnsamningnum segir að tilgangur félagsins sé meðal annars að safna upplýsingum í þekkingarbanka um nýtingu stórþörunga hér við land, bæði ræktaðra og villtra, stunda rannsóknir og vinna að þörungaræktun ásamt því að stuðla að atvinnuuppbyggingu í Reykhólahreppi, og við Breiðafjörð allan, sem og nýsköpun og fjölbreyttari notkun á þörungum.

  • Grettir, skip Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum, kemur með stórþara að landi á síðasta vetrardag. MYND/Þörungaverksmiðjan

„Það má segja að þetta sé gert í beinu framhaldi af miklu strangari umhverfiskröfum. Það er alveg sama hvort það eru iðnaður eða stofnanir,“ segir María Maack, ráðgjafi hjá Þörungaverksmiðjunni, spurð út í aðdraganda þess að ákveðið var að stofna Þörungamiðstöð.

„Það leyfist engum lengur að umgangast auðlindir jarðar með einhverjum sóðaskap eða sóun. Það eru stöðugt gerðar ítarlegri kröfur um upplýsingar, að allt sé byggt á rannsóknum og það sé hægt að staðfesta gæði og vandaða umgengni við auðlindina með pappírum, vottuðum úttektum og niðurstöðum úr rannsóknum. Það má kannski segja að nútíminn sé farinn að kalla eftir breyttum vinnubrögðum, sjálfbærnivottunum og vönduðum upplýsingum, ítarlegri rannsóknum og opinberum skýrslum.“

Viljayfirlýsingar

Þau Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Finnur Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar og Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitastjóri Reykhólahrepps undirrituðu strax 4. febrúar viljayfirlýsingu um samstarf í rannsóknum og vöktun þörunga í vistkerfi Breiðafjarðar.

  • Guðmundur Þórðarson frá Hafrannsóknastofnun, Finnur Árnason, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar, Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, og María Maack frá Þörungaverksmiðjunni að lokinni undirritun samstarfssamnings. MYND/Þörungaverksmiðjan.

Sama dag rituðu þau Ingibjörg Birna og Finnur ásamt Oddi Má Gunnarssyni, forstjóra Matís, undir viljayfirlýsingu um samstarf í rannsóknum og innihaldsgreiningu í þeim tilgangi að auka þekkingu á notkunarmöguleikum, nýjungum í nýtingu og frekari atvinnu- og verðmætasköpun úr þangi og þara sem styðjast við rannsóknir, auk fræðslu og aðstöðu til nýsköpunar.

Loks undirritaði Finnur ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, undir viljayfirlýsingu um að vinna saman að því að efla rannsókna- og þróunarstarf í tengslum við sjálfbæra nýtingu sjávarþörunga á Reykhólum við Breiðafjörð.

Samstarf við frumkvöðla

María segir stefnt að því að fá frumkvöðla inn í þetta samstarf, fyrirtæki eða einstaklinga sem eru með hugmyndir um þörungavinnslu af einhverju tagi en þurfa að komast í aðstöðu til þess að prófa sig áfram og þróa aðferðir.

„Þetta verður ekki framleiðsla heldur getum við verið með vinnslugræjur sem hægt verður að nota til vöruþróunar. “

MATÍS kemur þar að með dýrari tækjabúnað á sviði örvera og liftækni ýmis konar.

„Síðan stefnum við á að vera hér með vinnslutæki eins og víðsjár, kæliskápa, hakkara, pressu, síur, hitara og slíkt. Þetta verður þá ekki til þess að rannsaka innihald heldur til þess að þróa vinnsluferla.”

Meiri vöktun

Hún segir Þörungaverksmiðjuna reyndar þegar hafa verið í ýmis konar samstarfi við Matís, Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnun.

„Við erum til dæmis að vinna með Matís við súrþangsgerð, og það er hugsað til að bæta við fiskifóður. Hafrannsóknastofnun hefur komið, nýtir skip og jafnvel öryggisbáta og hefur farið á sjó frá þörungaverksmiðjunni. Við viljum samt gjarnan að það sé meiri vöktun, það séu til dæmis teknar myndir neðansjávar ef fólk hefur áhuga á ákveðnum tegundum eða þess háttar, og það yrði þá á vegum Þörungamiðstöðvarinnar.“

  • Tveir kappar í löndun, Ólafur og Egill. MYND/Þörungaverksmiðjan

Hún segir að aldrei hafi samt áður verið skoðað sérstaklega hvort þang- og þarasláttur eða tekja hafi mikil áhrif á lífríkið að öðru leyti, enda þótt áhrifin á þangið og þarann hafi verið skoðuð.

„Það virðist vera að þörungarnir geti jafnað sig á fimm árum, en það hefur aldrei verið gáð hvort það breyti einhverju sem er í lífríkinu í kring. Það er margt sem væri æskilegt að gera og ekki síst af því það hefur aukist svo áhuginn á að nýta þang og þara af meiri fjölbreytni. En þetta eru svona dæmi um hvað hægt er að gera.“

Betri nýting

„Við viljum fylgjast vel með hvaða áhrif sláttur og tekja hefur á auðlindina, og þá erum við að tala aðallega um klóþang og hrossaþara. Í tengslum við nýsköpun hafa margir frumkvöðlar farið af stað nú þegar með eigin verkefni, en þá vantar aðstöðu til vinnu. Þannig að við erum líka að horfa til rannsókna á notkun, mælingar, innihaldsefni, virk efni, stundum kölluð lífvirk efni, og hvernig megi nýta það hráefni sem tekið upp frekar en að rækta nýjar tegundir. Við vonum að með markvissri úrvinnslu megi auka verðmætin. Þannig að það er ekkert endilega verið að bæta við magnið heldur við gæðin og úrvinnsluna og til þass þarf hagnýtar og fræðilegar rannsóknir.“

  • Aflinn tekinn í land. MYND/Þörungaverksmiðjan

Saga þörungavinnslu á Reykhólum er orðin 50 ára og smám saman hefur þekking á auðlindinni safnast þar upp. Meðal annars hafa sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar rannsakað grunnsævi Breiðafjarðar og gefið út skýrslur um ástand, vöxt og lífmassa þangs og þara í Breiðafirði. Karl Gunnarsson er ótvíræður frumkvöðull þeirra rannsókna en Hafrannsóknastofnun segir að nú séu að verða kynslóðaskipti í þeim efnum.