Samherji fiskeldi ehf. hefur gert samninga við HS Orku um uppbyggingu laxeldis á landi í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun. Félagið hefur tryggt sér aðgang að sjó og raforku til að framleiða allt að 40 þúsund tonn af laxi á landi árlega auk þess sem nýttur verður ylsjór sem er affall frá kælingu Reykjanesvirkjunar. Þá hefur Samherji fiskeldi samið við landeigendur vegna uppbyggingarinnar.

Þetta kemur fram í frétt Samherja en þar kemur jafnframt fram að uppbyggingin verður í þremur áföngum á næstu 11 árum.

„Landeldisstöðin verður staðsett við Reykjanesvirkjun og mun samanstanda af seiðastöð, áframeldisstöð og frumvinnsluhúsi ásamt þjónustubyggingum. Heildarfjárfesting er áætluð ríflega 45 milljarðar króna en stjórn Samherja hefur ákveðið að leggja til fjármagn til fyrsta áfanga verkefnisins,“ segir í fréttinni en ráðgert er að leita til fleiri fjárfesta þegar kemur að frekari stækkun landeldisins, segir þar einnig.

Skapar fjölmörg störf

Landeldisáformin í Auðlindagarðinum teljast stór í samanburði við önnur landeldisverkefni sem nú eru í undirbúningi á alþjóðavísu. Fjölmörg störf verða til á framkvæmdatímanum og á annað hundrað störf við landeldið þegar vinnsla á afurðum hefst.

Vinna við matsferli, leyfismál og hönnun er hafin en ráðgert er að ljúka því ferli á næsta ári. Samkvæmt áætlunum mun seiðaeldi við fyrsta áfanga hefjast í upphafi árs 2023 og áframeldi og vinnsla á afurðum á árunum 2024 og 2025.

„Í fyrsta áfanga verður framleiðslan 10.000 tonn af laxi og áætluð fjárfesting upp á 17 milljarða króna. Í öðrum áfanga verður bætt við 10.000 tonnum og í þriðja áfanga 20.000 tonnum. Ef allt gengur að óskum verður landeldið í Auðlindagarðinum komið í full afköst á árinu 2032,“ segir í fréttinni.

Fyrirtækin í Auðlindagarðinum eru í dag ellefu talsins og verður landeldi Samherja fiskeldis það tólfta. Framkvæmdin við fyrirhugað eldi styður við markmið Auðlindagarðsins um nýtingu affallsstrauma frá jarðvarmavirkjunum sem í dag renna að hluta ónýttir til sjávar. Aðstæður í Auðlindagarðinum eru hagstæðar þegar kemur að aðgengi að raforku, jarðhita, ylsjó og jarðsjó, segir í fréttinni.

Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis, segir að stjórnendur og starfsfólk Samherja fiskeldis hafa unnið hörðum höndum að undirbúningi þessa verkefnis á Reykjanesi í tæpt ár.

„Það er stór áfangi hjá okkur að klára þessa samninga og geta hafist handa við uppbygginguna. Við höfum náð góðum árangri í fiskeldi á landi og þessi fjárfesting endurspeglar þá tiltrú sem við höfum á áframhaldandi vöxt þessarar greinar. Við erum spennt fyrir því að byggja upp á svæðinu og nýta okkur þann ávinning sem felst í nálægð við HS Orku og Reykjanesvirkjun. Á þessu svæði eru einhverjar bestu aðstæður til landeldis sem við höfum fundið. Nýting ylsjávar sem streymir frá orkuveri HS Orku er stór þáttur í að gera þessa uppbyggingu fýsilega. Ekki síst er hér um að ræða mjög umhverfisvæna framleiðslu sem markaðurinn er að kalla eftir.“

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að fjárfestingarnar muni skapa tugi starfa í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum og auka útflutningstekjur Íslands umtalsvert.

„Stjórn Samherja hf hefur þegar samþykkt að leggja þessu landeldisverkefni til 7,5 milljarða króna til þess að tyggja uppbyggingu fyrsta fasa. Það sýnir að mínu mati þá tiltrú sem við höfum á því að þetta sé rétt leið til framtíðar matvælaframleiðslu og verðmætasköpunar. Á síðari stigum munum við leita til fleiri fjárfesta til að tryggja heildar uppbyggingu verkefnisins.“