Börkur NK kom til Neskaupstaðar á þriðjudag með 1.590 tonn af íslenskri sumargotssíld sem Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri segir hafa gengið vel.

„Menn eru bara lukkulegir. Að vísu var veðrið heldur leiðinlegt þannig að um brælutúr var að ræða en þetta slapp allt saman. Við vorum að veiðum í Kolluálnum, norðan í Jökultungunni og þetta er alltaf sama fína síldin sem fæst þarna. Aflinn fékkst í sex holum og yfirleitt var dregið í 6 – 7 tíma,“ er haft eftir Hjörvari á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Segir Hjörvar allmörg skip hafa verið að veiðum á tiltölulega litlum bletti. „Gera má ráð fyrir að löndunin taki um tvo sólarhringa en aflinn er unninn jafnóðum og landað er. Lönduninni ætti því að ljúka á fimmtudagskvöld og þá verður væntanlega strax haldið til síldveiða á ný,” segir hann í spjalli á svn.is.

Þá segir að vinnsla síldarinnar gangi vel í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Víst sé að síld verði unnin þar vel fram í desember. Vilhelm Þorsteinsson EA hafi verið væntanlegur í land með rúmlega 1.500 tonn af miðunum fyrir vestan land.