Nýr björgunarbátur fyrir Björgunarsveitina Garðar á Húsavík er í smíðum í Tyrklandi og verður afhentur einhvern tíma á næstu vikum. Báturinn kostar um 80 milljónir króna og fær hann nafnið Villi Páls í höfuðið á einum af stofnendum Björgunarsveitarinnar sem var formaður hennar í 22 ár. Á sama tíma stendur yfir smíði á sams konar björgunarbát fyrir Björgunarsveitina Sæbjörgu á Flateyri. Sagt er frá þessu í sérblaði Fiskifrétta, Öryggi í sjávarútvegi, sem kom út í gær.

Skömmu fyrir áramót ákvað sveitarfélagið Norðurþing að styðja sveitina vegna kaupa á bátnum um allt að 20 milljónir króna.

Báturinn er hannaður af Rafnari og er af sömu gerð og Hafdís, nýr björgunarbátur Björgunarsveitarinnar Geisla á Fáskrúðsfirði sem tekinn var í notkun í nóvember á síðasta ári. Hann verður þó ekki yfirbyggður á framdekkinu eins og Hafdís. Bátarnir eru byggðir samkvæmt einkaleyfisvarðri hönnun Össurar Kristinssonar, stofnanda stoðtækjaframleiðandans Össurar, og voru í fyrstu smíðaðir hér á landi. Nú hefur smíðin flust til annarra landa.

Stóraukin umferð

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, segir umferð um Skjálfandaflóa hafa aukist mikið undanfarin ár. Það sé ekki síst vegna hvalaskoðunar, strandveiði, farþegaskipa og aukinna farmflutninga. Það hafi verið talin rík þörf á að bæta búnað björgunarsveitarinnar af þessu tilefni.

Björgunarbátur sömu gerðar og verið er að smíða fyrir björgunarsveitirnar á Húsavík og Flateyri. MYND/AÐSEND
Björgunarbátur sömu gerðar og verið er að smíða fyrir björgunarsveitirnar á Húsavík og Flateyri. MYND/AÐSEND

Landhelgisgæslan og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa í gegnum árinn unnið greiningarvinnu um hvar mest þörf er á tækjum til sjóbjörgunar. Í skýrslum um staðsetningar þeirra hefur verið horft til Skjálfanda í ljósi fjölda farþega sem fara þar um. Því er ráðist í kaup á nýjum björgunarbát sem er stórt verkefni upp á um 80 milljónir króna. Dómsmálaráðuneytið leggur til helming kaupverðs og því er hlutur Björgunarsveitarinnar um 40 milljónir króna og nú með samningi við sveitarfélagið eru eftirstöðvarnar um 20 milljónir króna sem verða fjármagnaðar af Björgunarsveitinni Garðari með frekari styrkjum frá fyrirtækjum og sjálfsaflafé.

Stundum 1.200-1.400 manns á Skjálfandaflóa

Birgir Mikaelsson, formaður Björgunarsveitarinnar Garðars, segir að báturinn sé að fara í prófanir ytra fljótlega og verði vonandi kominn til landsins í febrúar-mars. Björgunarsveitin er nú með bát af gerðinni Atlantic 75 sem er opinn bátur og mun minni en Villi Páls verður.

„Það eru stundum hátt í tólf til fjórtán hundruð manns hérna úti á flóa á sama tíma svo komu hingað 36 skemmtiferðaskip á síðasta ári. Við höfum hlaupið í þau verkefni að koma lóðsmanni út í skemmtiferðaskipin ef lóðsbátur kemst ekki frá Akureyri. Verkefnunum hefur því fjölgað jafnt og þétt og útköllin býsna mörg,“ segir Birgir.

Nýi báturinn verður hraðgengari og hann er yfirbyggður og býður upp á notkun í mun verra veðri en eldri báturinn.