960 tonnum af makríl var landað í morgun úr Berki NK til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóra í fiskiðjuverinu, og spurði hann hvernig hráefnið væri.

„Við höfum fengið stærsta og besta makríl vertíðarinnar nú upp á síðkastið og það er einmitt makríllinn sem veiðst hefur innan íslenskrar lögsögu. Þetta er 500-600 gramma makríll. Það gengur afar vel að vinna þennan makríl og reyndar hefur vinnslan gengið vel alla vertíðina. Stærsti makríllinn, 400-600 gramma fiskur, er heilfrystur. Makríll, sem er um 350 grömm, er hausaður en hann þykir afar heppilegur í reyk. Smærri makríllinn, sem barst til okkar fyrr á vertíðinni, var hins vegar flakaður. Veiðin gengur upp og niður og akkúrat núna er sáralítil veiði. Vilhelm Þorsteinsson EA er á leiðinni til okkar með rúmlega 400 tonn og hann kemur í nótt,“ segir Jón Gunnar.