„Þegar ákveðið var að fara út í þetta var Eskja öll í sjófrystingu en afköstin eru miklu meiri í svona verksmiðju. Við erum að frysta á dag núna það sem þeir voru að frysta á skipinu kannski á einni viku. Það munar svolítið um það,“ segir Hlynur Ársælsson rekstrarstjóri um sjálfvirka uppsjávarfiskiðjuverið hjá Eskju á Eskifirði.

Hann segir þennan afkastahraða ekki síst skipta máli þegar makríllinn kemur því hann stoppar stutt við.

„Hann er hérna kannski bara í tvo mánuði og þetta fer hratt í gegn hjá okkur.“

Hlynur segir afköstin geta farið upp í 750 tonn á dag í makríl, þegar best gengur, en algengt er að sjá þau vera á bilinu frá 650 og upp í 700 tonn á dag.

Þriggja ára reynsla

Fiskiðjuverið nýja var tekið í notkun árið 2016 þannig að nú er komin þriggja ára reynsla á starfsemina. Hlynur segir það vissulega hafa tekið nokkurn tíma áður en afköstin fóru upp í það sem best gerist, og enn telur hann hægt að bæta þau.

„Við eigum aðeins inni, en þessi síðustu prósent eru erfiðust. En við erum komin nálægt því. Í makrílnum náum við 750 tonnum en við eigum að afkasta meiru í síld.“

Hann segir síðustu vertíð hafa verið mjög góða, en loðnubresturinn segir svo sannarlega til sín í þessu húsi.

„Hann hefur auðvitað stór áhrif, ekki bara á okkur heldur verktakana líka og aðra sem eru að vinna fyrir okkur. Áhrifin eru víðtæk og það er ekkert sem kemur í staðinn, því miður.“

Fyrir utan tekjumissi í bráð hafa menn ekki síður áhyggjur af markaðsáhrifum til lengri tíma.

„Japaninn þarf að fá loðnu. Menn eru örlítið hræddir við að tapa mörkuðum í einhvern tíma ef þeir fara að borða eitthvað annað, menn eru hræddir við að missa þetta úr hillunum. En núna fer kolmunnaveiðin að hefjast og þá er nóg að gera í mjöl- og lýsisverksmiðjunni. Síðan er það makríll í sumar og svo síld í kjölfarið.“

Þannig að vissulega er von á miklum verðmætum úr sjó þótt loðnuna vanti. Eskja hefur verið með nærri 9 prósent hlutdeild í aflaverðmæti uppsjávarveiða.

Fjórða tæknibyltingin

Nýja verksmiðjan er að mestu sjálfvirk og lítið um hefðbundin fiskvinnslustörf í henni. Fjórða iðnbyltingin er þarna orðin að veruleika.

„Þetta eru meira eftirlitsstörf, til þess að gera,“ segir Hlynur. „Maður er ánægðastur þegar enginn sést að störfum í salnum. Þá veit maður að allt gengur vel."

„Við erum ekki með hámenntað tæknifólk í störfum en við erum með aðgang að tæknifólki. Síðan höfum við auðvitað búið okkur til mikla þekkingu sjálf.“

Yfirleitt segir hann sextán manns vera á vakt þegar loðna er unnin en um 25 þegar makríllinn kemur.

„En það er fyrir utan viðhaldsteymi sem ég kalla. Í eldri verksmiðjum á Íslandi sem eru ekki komin með eins mikla sjálfvirknivæðingu eru allt að helmingi meiri mannskapur að sinna þessum störfum og minni afköst.

Eskja hefur aðgang að tæknifólki hjá Skaganum 3X og einnig hjá Marel.

„Við nýtum það ef þarf. En það er komin mikil þekking inn í húsið líka.“

Ótrúlegt ferðalag

„Þetta er búið að vera ótrúlegt ferðalag í rauninni allt frá fyrsta degi, hvað við erum komin langt og hvað þetta hefur gengið vel. Við byrjuðum í nóvember 2016 þannig að þetta eru þrjú ár orðin, og ég er búinn að fá að vera með í þessu frá upphafi,“ segir Hlynur. „Þetta er fullkomnasta hús á Íslandi og þó víða væri leitað.“

Verksmiðjan hefur hreinlega verið sýningargripur fyrir Skagann 3X sem hefur verið að setja upp sams konar verksmiðjur í Rússlandi.

„Þeir hafa verið að koma með fólk hvaðanæva að úr heiminum að sýna og svo hafa verið reistar verksmiðjur í sama stíl, eins og reist var til dæmis í Rússlandi á Shikotan-eyju norður af Japan fyrir Rússneska fyrirtækið Gidrostroy, Þeir flugu hingað, mættu og skoðuðu. Þetta er fyrirmyndin. Gaman að því, svo hafa þeir komið tveir frá verksmiðju þar til að kynna sér ennþá betur starfsemina hjá okkur. Þeir voru auðvitað í einhverjum vandræðum í byrjun, eins og allir lenda í og komu til okkar að fá upplýsingar hjá okkur um hvernig við gerðum þessa hluti.“

Rólegur tími

Undanfarið hefur verið rólegur tími í verksmiðjunni. Menn hafa verið að bíða eftir loðnunni, og ekki viljað gefa upp vonina fyrr en í lengstu lög.

„Annars gengur þetta sinn vanagang. Þessi verksmiðja er í raun bara starfækt hluta úr árinu, en samt erum við alltaf með fast fólk í vinnu. Við viljum hafa fólkið til taks og það þurfa allir að kunna á sínar starfsstöðvar hérna.“

Þegar engin vinnsla er í húsinu þarf að sinna alls konar viðhaldsverkefnum, og alltaf þegar vertíð er búin taka við heilmikil þrif. Þetta er ekkert smáræði að þrífa eina svona verksmiðju. Það er ekkert gert á einhverjum dögum.“

Svo er fólk lánað á milli deilda þegar rólegt er í einni en nóg að gera í annarri.

„Til að mynda ef það er verið að bræða inni í Mjöl og lýsis þáhöfum við kannski lánað fólk þar yfir. Núna er eitthvað af fólkinu okkar til dæmis í því að rífa niður hluta af gamla frystihúsinu.“

Rótgróið fyrirtæki

Eskja er rótgróið útgerðarfyrirtæki á Eskifirði, upphaflega stofnað árið 1944 og hét þá Hraðfrystihús Eskifjarðar. Félagið gerir út fjögur uppsjávarskip og einn línubát og ræður yfir nærri níu prósentum af heildaraflahlutdeild í uppsjávartegundum.

Eskja hefur staðið í miklum fjárfestingum síðustu árin. Nýja uppsjávarfiskiðjuverið var reist árið 2016 við hlið mjöl- og lýsisvinnslu félagsins.