Fjórtán smábátasjómenn hafa keypt sér makrílkvóta af Fiskistofu, samtals 550 tonn og greiddu þeir samtals 2.793.100 krónur fyrir. Enn eru þá 3.450 tonn eftir óseld af þeim 4.000 tonna potti sem Fiskistofa bauð til kaups, en áfram verður tekið við umsóknum og þær sem berast afgreiddar vikulega þangað til potturinn er uppurinn.

Veiðin hefur samt verið frekar dræm það sem af er, og þar með óvíst að eftirspurnin verði mikil.

„Það var ágætis stemmning, en þeir sögðu að hann væri ekki mikið að láta sjá sig. Þetta væri í töluvert minna mæli heldur en var þegar við vorum að veiða sem mest þarna,“ sagði Unnsteinn Þráinsson, formaður Félags makrílveiðimanna, eftir að hafa heyrt hljóðið í félögum sínum sem hafa verið á veiðum við Keflavík og víðar suðvestan lands.

Sjálfur ætlar hann ekki á makrílveiðar að þessu sinni, en er þó formaður félagsins áfram.

„Já, við eigum í málaferlum ennþá og félagið verður lifandi á meðan þau eru að klárast.“

Málaloka beðið

Félagið stefndi íslenska ríkinu árið 2020 og taldi smábáta hafa verið hlunnfarna þegar makrílveiðar voru kvótasettar. Félagið tapaði málinu fyrir Héraðsdómi en bíður þess nú hvort Hæstiréttur taki málið til sín. Unnsteinn segir að það muni skýrast nú í lok mánaðarins.

„Þetta er stórt mál og við viljum klára það alla leið,“ segir Unnsteinn.

Félag makrílveiðimanna var stofnað fyrir sex árum þegar makrílveiðar smábáta hér við land voru að hefjast fyrir alvöru. Undanfarin tvö sumur hefur makríllinn þó ekki látið sjá sig í neinu magni hér við land, og félagið í reynd haft lítið hlutverk. Nú er makríllinn mættur aftur en veiðin er töluvert minni en þegar best lét.

„Það er búið að vera fínasta veður á þeim núna, en þeir halda að það sé bara minna magn af makríl. Það sé ekkert mikið sem er á ferðinni og óttalegur barningur að slíta upp þessi kíló,“ segir Unnsteinn.

„Einn sem ég heyrði í var búinn að fá 20 tonn frá því hann byrjaði, og hann var bara sáttur við það miðað við að það er ágætis verð á þessu. Fær 150 kall fyrir hann. En það væri svolítið erfitt að eiga við hann. Þegar gerir suðvestanátt þá bara hverfur hann því hann bara sekkur. Það er nákvæmlega eins og var fyrir þremur og fjórum árum.“

Flestir búnir að selja

Hann segir að flestir hafi selt frá sér kvótann til stóru útgerðanna sem hafa náð í makrílinn aðallega í Smugunni undanfarin tvö ár.

„Það var enginn hvati fyrir okkur að eiga kvótann lengur. Fyrst við gátum losnað við hann, þótt þetta væru svo sem ekki stórar upphæðir, þá held ég að allflestir hafi verið búnir að láta þær frá sér. Einhverjir náðu að skipta fyrir aðrar heimildir. En flestir held ég að hafi bara selt það. Það er slegist um hvert kíló af þorski í dag og mjög erfitt að ná sér í varanlegan þorsk.“

Unnsteinn Þráinsson ætlar ekki á makríl í ár. Aðsend mynd
Unnsteinn Þráinsson ætlar ekki á makríl í ár. Aðsend mynd

Unnsteinn segir makrílinn enn vera sama ólíkindatólið og áður og erfitt að spá neitt fyrir um það hvar hann muni halda sig frá ári til árs.

„Það er ekkert hægt að spá í það hvort hann verður hérna í þrjá daga eða mánuð í viðbót. Það er óútreiknanlegt.“

Hafrannsóknastofnun greindi frá því seint í júlí að í uppsjávarleiðangri sumarsins hafi makríll fundist víða meðfram suður- og vesturströnd landsins. Einnig hafi makríll fundist austan við Ísland.

Stóru uppsjávarfyrirtækin hafa þó í sumar mest leitað langa leið austur í Smuguna, en fyrir nokkrum dögum bárust fréttir af því að makríllinn hafi gengið hratt í vesturátt og veiðist nú rétt við mörk íslensku lögsögunnar.

„Það er mokveiði núna um það bil 240 mílur frá landi,“ sagði Ólafur Gunnar Guðnason, stýrimaður á Berki NK, í frétt frá Síldarvinnslunni. Veiðisvæðið hafði þá færst nær landinu sem nemur um 400 mílum því í byrjun mánaðarins var makríllinn að veiðast 650 mílur frá landinu.