„Þetta er fimmta skipið í þessari endurnýjunarseríu en við erum að endurnýja skip sem er smíðuð 1980 til 1984,“ segir Björn Gunnarsson, verkefnisstjóri sjóbjörgunar hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, sem fagnaði um helgina komu nýja björgunarskipsins Ingibjargar til Hafnar í Hornafirði.

Ingibjörg er eins og fyrri skipin smíðuð hjá Kewatec í Finnlandi. Heildarlengdin er 16 metrar, ganghraðinn 32 hnútar og getur sex manna áhöfn bjargað allt að sextíu manns við ítrustu neyð. Björn segir skipin sem þegar hafi verið komin til landsins hafa reynst vel.
„Þetta er stærsta fjárfesting Slysavarnafélagsins Landsbjargar í tæplega hundrað ára ára sögu. Þetta er ekki auðveldur róður og það er ekki útséð að það hafist að endurnýja þessi skip,“ segir Björn. Ríkið komi til móts við félagið að hluta til hvað varðar fjármögnun verkefnisins, sem í heild er áætlað að kosti tæplega 4 milljarða króna. Hvert skip kosti 370 til 380 milljónir eftir gengi krónunnar.
„Við erum með þrettán skip hringinn í kring um landið á staðsetningum sem eru valdar eftir þörf og óskum okkar og Landhelgisgæslunnar út frá sjósókn á landinu. Það er fyrir utan öll önnur för sem Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur. Við erum með níu aðra minni yfirbyggða báta, eins og Rafnarsbátana og Kobba Láka sem var keyptur notaður frá Noregi og er á Bolungarvík,“ segir Björn.
Yngra fólkið bætist í hópinn
Sex manns eru í áhöfn hvers báts og segir Björn vel ganga að manna þær stöður. „Á þessum þrettán stöðum erum við með mjög gott fólk. Það sem hefur meðal annars breyst með nýju skipunum er að þar bætist meira af yngra fólki við. Þar á meðal konur, en það er ofsalega gott mál að við séum að fá fleiri konur inn í sjóbjörgunina hjá okkur,“ segir Björn.

Þó kveður Björn vera eitt mál sem þurfi að leysa. Vegna stærðar nýju bátanna segja reglur að það þurfi að vera vélstjóri en ekki aðeins vélavörður um borð eins og í gömlu bátunum.
„Við höfum óskað eftir reglugerðarbreytingu varðandi kílóvattatöluna vegna vélstjóranna,“ segir Björn. Nýju skipin séu 1.102 kílóvött en þau gömlu um 750 kílóvött.
„Þar dugar að vera með svokallaða vélaverði sem hafa tekið vélavarðanámskeið en á þessi skip þurfum við fullmenntaða vélstjóra. Þeir liggja ekkert á lausu og fást ekki einu sinni í vinnu hjá Landhelgisgæslunni þó að hún auglýsi og auglýsi,“ segir Björn. Slysavarnafélagið Landsbjörg vilji hífa vélavarðaréttindin upp svo að þau dugi fyrir nýju skipin.
„Eðli málsins samkvæmt eru þetta ekki dagróðrarbátar, þetta eru skip sem fara bara út þegar er útkall og við erum með þjónustusamninga við smiðjur í landi. Þannig að allt viðhald fer bara fram í landi bundið við bryggju,“ segir Björn, sem kveður þetta mál liggja hjá ráðuneytinu.
Henda öllu frá sér er kallið kemur
„Við trúum því og treystum og vonum að þetta gangi vel því ef það er ekki fyrir þessi skip er fátt um fína drætti í björgun fyrir sjómenn. Við verðum að átta okkur á því að það að vera á sjó er hættulegt og verðum að geta tryggt að við getum reynt að bjarga fólki,“ segir Björn. Þessi öflugu skip sé mikilvæg til að komast sem fyrst á vettvang til þess að hjálpa.

„Svo er kannski ekki hægt að fara út af því að það vantar einhvern sem er með vélstjóraskírteini þótt þú sért kannski með tvo eða þrjá vélaverði um borð,“ segir Björn.
Fram til þessa segir Björn sjóbjörgunarsveitirnar fyrst og fremst hafa byggst upp á gömlum sjómönnum eða mönnum sem voru enn á sjó og þannig sé það enn.
„Þungamiðjan okkar er atvinnusjómenn sem henda öllu frá sér og hlaupa í björgunarskipin. En svo erum við að fá venjulegt fólk ef svo má segja. Við erum að fá hjúkrunarfræðinginn, bakarann, lögfræðinginn, vörubílstjórann og fleiri; fólk sem er í Slysavarnafélaginu og vill starfa með sjóbjörguninni,“ rekur Björn. Eðli málsins samkvæmt sé þessi hópur ekki endilega að fara að leggja á sig að sækja skipstjórnarnámskeið en sæki áhafnanámskeið hjá félaginu sjálfu.
Geti aðstoðað sæfarendur í neyð
„Við erum að óska eftir því að íslenska ríkið geri það sama hér eins og í allri Skandinavíu og á Bretlandseyjum þar sem systursamtök okkar kenna sjálf til réttinda á sín skip og báta. Þetta fólk er ekki að fara að starfa sem sjómenn,“ segir Björn. Hægt væri að hugsa sér samstarf við Tækniskólann í þessum efnum.

„Það er enginn að fara fram á einhverja tilslökun á einu eða neinu. Eflaust geta menn mæst á miðri leið og vonandi verður farið að skoða þetta betur með haustinu. Aðalatriðið er að við getum mannað þessi skip til þess að koma sæfarendum til hjálpar þegar þarf á því að halda,“ segir Björn.
Skip númer sex í þessari þrettán skipa seríu er Gísli Jóns 3052, sem er langt kominn í smíðum í Finnlandi og er væntanlegur til landsins í lok október og vonandi í heimahöfn í nóvember að sögn Björns.
„Í vor var skrifað undir samning um skip númer sjö og átta, sem er Vopnafjörður og Patreksfjörður sem koma á vormánuðum og haustmánuðum 2026. Eins og staðan er núna er þetta á áætlun en það er fullt af samtölum í gangi.