Athygli vakti á íslensku sjávarútvegsýningunni í Fífunni hve margar skipasmíðastöðvar voru meðal sýnenda. Gróflega talið voru þær Spáni voru þær sjö, sex frá Tyrklandi, 2 frá Danmörk auk sýnenda frá Póllandi, Litháen og Íslandi. Volkan Urun var ekki að koma í fyrsta sinn til Íslands. Hann er framkvæmdastjóri Celitrans skipasmíðastöðvarinnar í Tyrklandi sem hefur smíðað sjö skip í íslenska fiskskipaflotanum.

Alls eru 52 skipasmíðastöðvar í Tyrklandi og hefur þeim farið fækkandi á síðustu árum en voru flestar á áttunda tug talsins fyrir nokkrum árum.

„Ég kann vel við Ísland og ég elska fisk. Ég held að ég hafi verið sjómaður í fyrra lífi,“ segir Volkan í samtali við Fiskifréttir og slær strax tóninn í skemmtilegu spjalli sem fór fram í sýningarbás Celiktrans.

Celiktrans var stofnað Evrópumegin við Bosporussund árið 1953. 1984 flutti skipasmíðastöðin til Tuzla, Asíumegin í Istanbúl og hefur verið þar síðan. Fyrirtækið er eingöngu í nýsmíðum og sinnir ekki viðgerðum. Celiktrans smíðaði Sigurð VE, Venus NS, Víking NS og Engey RE, Akurey AK og Viðey RE eftir teikningum íslenska skipahönnunarinnar Nautic.

Fyrstu kynni Volkans af Íslendingum og íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum voru í gegnum skipið Magnason sem Celiktrans smíðaði fyrir norskra útgerð sem tók skipið aldrei í notkun heldur seldi það til Ísfélags Vestmannaeyja árið 2014. Þar fékk það nafnið Sigurður VE og leysti af hólmi samnefnt og sögufrægt aflaskip.

Sigurður VE - mynd Óskar P. Friðriksson
Sigurður VE - mynd Óskar P. Friðriksson
© Óskar P. Friðriksson (Óskar P. Friðriksson)

„Þakíbúðin“ á Sigurði VE

„Það voru fleiri áhugasamir kaupendur um Magnason og ég fékk uppgefið hjá skipamiðlaranum hverjir hefðu sýnt skipinu áhuga. Ég tók í framhaldinu næsta flug til Íslands og heimsótti þessi fyrirtæki. Síðast í röðinni var HB Grandi. Ég tjáði Vilhjálmi Vilhjálmssyni forstjóra að ég gæti afhent honum eins skip á nákvæmlega sama verði innan 19 mánaða.“

Það stóð heima og HB Grandi samdi við Celiktrans um kaup á tveimur skipum þessarar gerðar, Víking AK og Venus NS. Venus var vígður á Vopnafirði um mitt ár 2015 og nýr Víkingur AK 21. desember 2015 í Akraneshöfn.

Víkingur AK. Mynd/Þorgeir Baldursson
Víkingur AK. Mynd/Þorgeir Baldursson
© Þorgeir Baldursson (Þorgeir Baldursson)

Volkan segir skipin þó ekki hafa verið nákvæmlega eins því brúin á Sigurði VE var með „þakíbúð“. Norsku eigendurnir höfðu áformað að leigja „þakíbúðina“ út til ríkra Rússa svo þeir gætu fylgst með uppsjávarveiðum í mestu makindum með vodka og kavíar á kantinum. Volkan segir að í íbúðinni hafi verið eitt, afar stórt rúm, eldhús, sófi og hægindastólar og stórir gluggar í 360°.

Þegar yfir lauk hafði HB Grandi og Celiktrans samið um smíði á þremur skipum til viðbótar, ísfisktogurunum Engey RE, Akurey AK og Viðey RE sem afhent voru á árunum 2016 og 2017. Nú er Celiktrans að smíða sjötta skipið inn í íslenska fiskiskipaflotann sem er ísfisktogari fyrir Ramma á Siglufirði. Öll eru þessi skip eftir teikningum Nautic. Þessu til viðbótar smíðaði Celiktrans einnig uppsjávarskip fyrir norska útgerð sem seldur var til Íslands og heitir Börkur NK. Volkan segir að samkvæmt sínum útreikningum sé um fjórðungur af íslenska uppsjávarflotanum í rúmlestum talið.

„Það er mikil samkeppni í skipasmíðum. Það er mikið smíðað á Spáni og Póllandi og víðar og samkeppnin pressar verðin niður. Það verður engin ríkur af skipasmíðum. Ánægjan af starfinu felst í því að rækta sambandið við viðskiptaaðilann. Ef það er gott eignast maður vini út um allan heim.“

Volkan segir Celiktrans ekki taka þátt í íslensku sjávarútvegssýningunni til þess að gera samninga um smíðar á nýjum skipum. Hann sé hér til að sýna að nýtt verkefni sé í gangi fyrir Ramma á Siglufirði með þátttöku Celiktrans, Nautic, Naust Marine, Kælismiðjunnar Frosts og fleiri fyrirtækja. Þetta sé þeirra sýning, ekki sýning Celiktrans.

„Við erum saman í liði og við erum að afhenda heilan pakka saman en störfum hver í sínu lagi. Samvinna skipasmíðastöðvar og birgja af þessu tagi þýðir það að miklu minni líkur eru á því að kaupandi skips lendi í einhverjum vandræðum.“

Á undan áætlun

Volkan segir að smíðin á nýjum ísfisktogara Ramma gangi vel og smíðin sé meira að segja aðeins á undan áætlun. Samkvæmt undirrituðu samkomulagi á að afhenda skipið 21. október 2023. Markmiðið sé að afhenda það fyrr. Þetta verður áttunda skipið frá Celiktrans inn í íslenska fiskiskipaflotann. Volkan segir að viðræður séu í gangi við íslenskar útgerðir um nýsmíði á fleiri ísfisktogurum en þær séu á viðkvæmu stigi og ekki hægt að greina frá þeim að svo stöddu.

Volkan segir að staðan skipasmíðastöðva hafi versnað mikið í kjölfar heimsfaraldursins og nú stríðsins í Úkraínu. Skrifað hafi verið undir samninga um smíði á ísfisktogara Ramma en strax í kjölfarið hafi verð á aðföngum rokið upp. Ljóst sé að þetta verkefni verði Celiktrans ekki til framdráttar fjárhagslega. Skipasmíðastöðin virði gerða samninga og sé ekki í aðstöðu til að breyta upphaflegu samningsverði þrátt fyrir gríðarlegar hækkanir á stáli og nánast öllum aðföngum.