Samherji hf. er að selja frá sér línuskipið Önnu EA, sem Útgerðarfélag Akureyringa hefur gert út síðan 2013. Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs, segir ekki hægt að greina strax frá því hver kaupandinn verði en allar líkur séu til þess að af kaupunum verði.

„Það er söluferli í gangi og það myndi þá gerast mjög fljótlega,“ segir Kristján.

Jafnframt er Samherji búinn að festa kaup á Akrabergi FO, frystitogara sem færeyska útgerðin Samherji keypti frá Þýskalandi árið 2013, en Samherji á Framherja að einum þriðja.

Skipið var upphaflega smíðað í Noregi árið 1994 fyrir útgerðarfélagið Hrönn hf. á Ísafirði, og hét þá Guðbjörg ÍS en gjarnan nefnd Guggan. Samherji eignaðist skipið þegar Hrönn hf. rann inn í Samherja árið 1997.

„Við höfum gert þetta skip út áður. Við þekkjum það ágætlega,“ segir Kristján. Þjóðverjar keyptu skipið fyrst árið 1999 og nefndu það Hannover, en Samherji keypti það nokkrum sinnum og seldi aftur á árunum 2002 til 2007. Á þessum árum var skipið lengt um 18 metra og um tíma gert út undir nafninu Baldvin Þorsteinsson EA.

Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja.
Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja.
© Birgir Ísl. Gunnarsson (VB MYND/BIG)

Fer á grálúðu

Hann segir að með kaupunum á Akrabergi núna og sölunni á Önnu verði í sjálfu sér engar stórbreytingar á útgerðinni.

„Þetta hefur alltaf verið þannig að stilla þarf skipastólinn af eftir kvótum og fleiru,” segir hann.

Akraberg er nú í Frederiksberg í Danmörku þar sem verið er að gera breytingar á vinnslubúnaði áður en því verður siglt til Íslands og fær aftur nýtt nafn - Snæfell EA og verður gert út frá Akureyri.

„Ég á von á honum kannski um mánaðamótin júní-júlí. Við ætlum að nota hann í grálúðu.“

Í staðinn eru Færeyingar að fá nýtt Akraberg til Framherja, smíðað hjá Vard í Noregi.

Akraberg
Akraberg