„Næsta fiskbúð er í Mosfellsbæ,“ segir Kári Þór Jóhannsson fisksali harla hróðugur þegar blaðamaður Fiskifrétta rekur nefið inn í fiskbúðina hans á Ísafirði.

„Þeir kvarta mikið yfir því túristarnir þegar þeir koma út fyrir Reykjavík, og koma koma í hvert sjávarþorpið á fætur öðru, að þeir finni engan aðgang að fiski til að elda sjálfir. Í sjávarþjóðinni sjálfri. Þeir hafa þá tekið hringinn frá Reykjavík, farið Vesturfirðina og hingað og rætt þetta við mig hérna. Svo kannski halda þeir áfram til Akureyrar eða fara hinn hringinn.“

Hann segir töluvert vera um það að ferðafólk rambi á búðina hans, ekki síst reyndar þau sem koma með skemmtiferðaskipunum. Enda er búðin hans við hafnarbakkann, einmitt á horninu þar sem skemmtiferðaskipin leggjast að landi.

„Bryggjan er bara hérna hinu megin við götuna. Stóru skipin koma hérna á litlu bryggjuna, þau sem komast ekki upp að. Þá er horninu lokað og hér eru bara túristar. En meiningin er að koma öllum á stóru höfnina þegar hún er klár.“

Tölur eru fólk

Stundum er mikið líf á horninu fyrir framan fiskbúðina. Hann segir það alveg magnað þegar fjögur skemmtiferðaskip eru kannski á höfninni og fimm þúsund manns eiga leið fram hjá.

„Þá er allt fullt af lífi. Alveg magnað. En þetta er orðið svo mikið að ég held þeir viti ekki hvað þeir eru að gera,“ segir hann og bendir á að tölur eru fólk.

„Þú verður að líta á fólkið, ekki tölurnar. Þú getur ekki sturtað þeim í næstu rútu og sent þá eitthvað út í buskann. Oft eru þetta eldri borgarar sem eru á þessum skipum. Þeir fara ekki langt, labba kannski 200 metra og þurfa að fá sér sæti, svo aftur 200 metra, og eru kannski búnir að fá sér morgunverðinn, þá þurfa þeir að skila honum einhvers staðar. Þeir þurfa að skipuleggja þetta betur þegar þeir fá allan þennan fjölda, þá verða þeir að gera góða göngustíga út af höfninni, vel merkta svo þeir séu ekki innan um atvinnutækin. Það þarf að vera tekið föstum tökum.“

Lifað eftir árstíðum

En hvað sem ferðafólkinu líður halda fastakúnnar tryggð við Fiskbúð Sjávarfangs, eins og búðin hans Kára heitir.

„Ísfirðingar eru eiginlega fæddir og uppaldir á fisk, nema unga kynslóðin. Það kemur gat þegar þeir koma á gelgjunna en svo koma þeir aftur þegar þeir eru farnir að búa og komnir með krakka. Þannig að maður sér kynslóðabilið detta út og koma inn aftur.“

Undanfarnar vikur hefur skatan ráðið svolítið ríkjum í starfi fisksalans.

„Við lifum ennþá eftir árstíðunum hérna. Þótt sumir séu orðnir svolítið ruglaðir á því og spyrja kannski eftir gotu og lifrum fyrir áramót frekar en eftir áramót. Fólk hefur aðeins færst frá þessu, að lifa með náttúrunni. Það er ekki alið upp við það að vera sjálfu sér nægt nokkra mánuði og hugsa fram í tímann, nei það er bara farið út í búð þrisvar á dag. Fólk horfir meira á þetta sem svo að búrið hjá því sé inni í Bónus eða Nettó. Eldra fólkið fylgdi vertíðunum. Það byrjaði kannski á gotu og lifur eftir þorrann, svo var það steinbítsvertíðin um páskana, svo kom rauðmaginn, og svo var kannski lax og bleikja yfir sumarið, og svo aftur byrjað á rauðsprettunni á haustin.“

Á undanförnum árum hafa fisksalar tekið að bjóða upp á tilbúna rétti í auknum mæli, og Kári er þar engin undantekning.

„Yngra fólkið er mjög ánægt með tilbúnu réttina og eldra fólkið líka. Fólk er farið að prufa meira. Áður fyrr var þetta dálítið einlitt. Núna hefur komið til mín fólk sem hefur kannski ekki smakkað hlýra eða löngu, og þá kemur það kannski næst og biður um þetta aftur af því þetta var svo gott.“

Sjálfbjarga

Kári er vanur því frá barnsaldri að bjarga sér sjálfur um helstu nauðsynjar.

„Ég sæki þetta allt sjálfur. Ég var tíu ára þegar ég var byrjaður að hjóla inn að Brúarnesti og veiða nokkra silunga og heim aftur. Svo hefur maður náttúrlega stundað rjúpuna, hreindýrið, selinn, gæsina, öndina, svartfuglinn. Þegar covid var þurfti ég eiginlega ekkert að fara út í búð. Ég fór og náði í mjólkina kannski á tíu daga fresti. Var sjálfum mér nægur um kjöt fisk og villibráð. Þetta er ekkert flókið ef maður þekkir þetta.“

Ekki segist hann þó veiða fiskinn sem hann selur.

„Nei, maður fær þetta bara á fiskmörkuðum. Í sama húsi er fiskmarkaður. Hann er hérna bara í næstu dyrum. Það er stutt að fara, og þar eru drengir sem maður var með í Norðurtanganum á sínum tíma, Bjarni Sveins og Nonni. Svo er náttúrlega fiskmarkaðurinn í Bolungarvík. Maður þekkir alla sem eru í þessu. Þetta er lítill heimur.“

Skötuna gerir hann hins vegar sjálfur, „eða ég geri eins mikið sjálfur og ég get, bæði skötu, harðfisk, hákarl, saltfisk, sólþurrkað. Maður er eiginlega fæddur á bryggjunni og ólst upp í frystihúsunum.“