Aldrei hafa veiðst fleiri hnúðlaxar í ám hér á landi en sumarið 2021 en þá  voru skráðir samtals 339 hnúðlaxar í stang‐ og netaveiði. Flestir hnúðlaxar voru veiddir á Austurlandi eða 133 alls og Norðurlandi eystra þar sem 71 veiddist. Í stangveiði voru skráðir 323 hnúðlaxar og 16 skráðir í netaveiði. Vitað er um hnúðlaxa úr fleiri ám sem ekki voru skráðir í veiðibækur eða skilað gögnum um. Sögulega veiðast jafnan fleiri hnúðlaxar á oddatölu ári.

Þetta kemur fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um lax- og silungsveiði síðastliðins sumars.

Sá fyrsti 1960

Hnúðlaxar hafa lengi sést í íslenskum ám en fyrsti hnúðlaxinn sem vitað er um að hafi veiðst hér á landi var árið 1960 í Hítará á Mýrum en hnúðlaxa í Evrópu má rekja til tilrauna Rússa með hafbeit á hnúðlöxum í ám við Hvítahaf og á Kolaskaga.

Ástæða þess að mest veiðist á Austurlandi er líklega sú að það landsvæði liggur næst þeim ám í Rússlandi og Noregi þar sem viðkoma hnúðlaxa hefur verið hvað mest og þeir því villst af  beitarsvæðum í hafi og numið land hér á landi.

Flestir hnúðlaxanna voru veiddir neðarlega í ám, þó er vitað um dæmi þar sem þeir hafa verið ofarlega í vatnakerfum t.d. í Brúará um 35 kílómetra frá ósi Ölfusár. Staðfest er að hnúðlax hefur hrygnt á Íslandi en áður hafa fundist hrygnur sem voru ný hrygndar.

Vorið 2022 fundust seiði hnúðlaxa í þrem ám á Suðvesturhluta landsins, þ.e. Botnsá í Hvalfirði, Langá á Mýrum og ármót Grímsár Hvítár í Borgarfirði.

Ljóst er að hnúðlax er framandi og mögulega ágeng tegund í íslensku straumvatni. Óljóst er hvaða áhrif staðbundnir stofnar hnúðlaxa kom til með að hafa á lífríkið sem fyrir er og mun þurfa frekari rannsóknir til lengri tíma til að leiða slíkt í ljós.