CatSat kerfið veitir upplýsingar um skilyrði í hafinu. Þær fást meðal annars í gegnum gervihnetti og net af þróuðum mælibaujum í höfunum. Fyrirtæki Ragnars Harðarsonar, Akor, dreifir kerfinu og þjónustar það.

Með CatSat er meðal annars hægt að fá upplýsingar um hvar rauðáta heldur sig og auðveldar það mjög að finna uppsjávarfisk.

Ragnar segir að nýverið hafi lokið tilraunaverkefni hér við Ísland í tengslum við það.

Frábær útkoma úr tilraun

„Við vorum í samstarfi við aðila sem voru að gera mælingar með kerfið hjá okkur þar sem átukortin voru skoðuð. Þeir voru með mæli þar sem þeir voru að bera saman kortin frá okkur og að taka sýni. Þeir sögðu að niðurstaðan væri frábær,“ segir Ragnar sem kveður þó ekki tímabærtað nafngreina þessa aðila því niðurstaðan sé enn ekki formleg.

„Það er gaman að fá svona, þetta gefur manni yl í hjartað. Þú ferð ekki lengra í að gera áreiðanleikakönnun heldur en þetta,“segir Ragnar.

Mikil framrás í Rússlandi stöðvaðist

Útbreiðslu CatSat-kerfisins segir Ragnar vera stöðuga. Kerfið sé komið í um átta hundruð skip víða um heim, meðal annars á Suður-Atlantshafi, í Afríku, Indlandshafi og annars staðar í Asíu. Hér á Íslandi sé fyrirtækið í samstarfi við flestar útgerðir. Mikil framrás hafi verið hafin í Rússlandi þegar stríðið í Úkraínu hafi sett strik í reikninginn.

„Það myndaðist flækjustig í kringum Rússland sem var mikill sprengimarkaður hjá okkur. Það var gífurleg uppsveifla, þetta var nýtt þar. Við vorum stanslaust að setja í skip í Rússlandi en svo kom náttúrlega upp ný staða þar,“ segir Ragnar.

Starlink er stóra sprengjan

Hjá Akor er horft fram í tímann að sögn Ragnars. Hann kveðst nýlega hafi átt fundi til að tryggja aðgang að hinu öfluga Starlink gervihnattakerfi fyrirtækisins SpaceX. Það kerfi sé um hundrað sinnum hraðara en það sem notað sé í dag.

„Það er stóra sprengjan núna. Við erum að taka það inn í Akor þannig að það er rosalega margt spennandi að gerast,“ segir Ragnar. Að vísu vanti enn sem komið er gervihnetti inn í Starlink á norðurslóðum en Akor vilji vera á undan bylgjunni. „Við viljum vera klárir með öll leyfi og öll réttindi.“

Þótt ekki megi allir selja Starlink segir Ragnar marga munu gera það engu að síður.  „Það getur kostað ofboðslega mikla peninga, ævintýralegar upphæðir, fyrir notandann ef þetta er ekki rétt gert,“ varar hann við.

Langt frá endapunktinum

Þróunin í þessum efnum er að sögn Ragnars langt frá því að vera komin á endapunkt. „Við erum alltaf á tánum. Við erum alltaf að læra eitthvað nýtt af strákunum á skipunum um hvað þeir vilja og hverju þeir eru að kalla eftir. Strákarnir eiga mikið í þessu sjálfir,“ segir Ragnar í Akor.

Stærra en fólkl heldur

Ragnar Harðarson segir það sem sé að baki Catsat-upplýsingakerfinu vera miklu stærra en fólk haldi. Un sé að ræða vísindaakademíu sem vinni að því að afla upplýsinga um og kortleggja stöðuna í höfunum.

„Það þýðir ekkert að vera að þjónusta hafupplýsingar með hangandi hendi. Það eru gífurlegar kröfur á okkar liði að halda utan um að allt sé í lagi,“ segir Ragnar.

Fjöldi vísindamanna komi að málum og þeir eigi í stöðugum samskiptum og hafi aðgang að tölvusérfræðingum sem leysi fljótt úr málum sem  upp komi. „Þetta er gífurlega mikið batterí.“