Samtals ætla strandríkin að veiða 1,2 milljónir tonna af makríl á árinu, en það er meira en 40 prósent umfram ráðgjöf. Íslendingar halda sig við 16,5% eins og undanfarin ár.

Strandríkin við Atlantshaf hafa eitt árið enn gefið út makrílkvóta án þess að heildarsamkomulag liggi fyrir um skiptingu veiðanna. Samtals er stefnt að því að veidd verði 1.206 þúsund tonn af makríl, en ráðgjöfin frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) hljóðar upp á 852 þúsund tonn, þannig að fyrirfram er gert ráð fyrir að veiða samtals 352 þúsund tonn umfram ráðgjöfina.

Íslensk stjórnvöld hafa gefið út að veiðiheimildin verði 140.627 tonn, og miða þá eins og undanfarin ár við 16,5% af ráðgjöfinni.

Norsk stjórnvöld greindu frá því 27. maí makrílkvóti Norðmanna þetta árið yrði 298.299 tonn, og færeysk stjórnvöld ákváðu í kjölfarið að kvóti Færeyinga yrði 167.048 tonn. Norðmenn miða þarna við 35% af ráðgjöfinni, og Færeyingar miða sinn kvóta við 19,6% af ráðgjöfinni. Undanfarin ár hafa Norðmenn verið með 22,5% en Færeyingar 12,6%, þannig að bæði ríkin eru að auka kvótahlutdeild sína verulega.

Brexit-reikningurinn

Bæði Norðmenn og Færeyingar hafa undanfarin ár verið með samning við Evrópusambandið um skiptingu makrílveiðanna, en sá samningur féll úr gildi á síðasta ári þegar Bretar gengu úr Evrópusambandinu. Jafnframt lokuðu Bretar fyrir aðgang annarra ríkja að fiskveiðilögsögu sinni.

Audun Maråk, framkvæmdastjóri samtaka norskra útgerðarfyrirtækja, Fiskebåt, fagnar þessari ákvörðun norskra stjórnvalda og segir framferði Breta í tengslum við Brexit engan veginn ásættanlegt: „Við upplifum það þannig að Bretland sé að reyna að senda Brexit-reikningana til Noregs og norskra sjómanna, sem við auðvitað getum ekki fallist á.“

Norski sjávarútvegsráðherrann segir að norski kvótinn sé byggður á því hve mikið af makrílnum heldur sig á norsku hafsvæði: „Útbreiðsla makrílsins hefur undanfarinn ár sýnt greinilega tilhneigingu til norðausturs, sem þýðir að meiri makríl er að finna nú á norsku hafsvæði heldur en árið 2014 þegar fyrra makrílsamkomulag var gert,“ segir í tilkynningu frá norska ráðuneytinu.

Óvottaðar veiðar

Eftir að Íslendingar hófu að veiða makríl og gera tilkall til kvóta, þar sem makríllinn var farinn að veiðast í íslenskri lögsögu, hefur illa gengið að ná samkomulagi strandríkjanna um skiptingu heildarkvótans.

Á árunum 2001 til 2007 var í gildi samkomulag strandríkjanna en enginn slikur samningur var í gildi á árunum 2008 til 2014. Noregur, Færeyjar og Evrópusambandið gerðu síðan samning árið 2014, en hvorki Íslendingar né Grænlendingar fengu aðild að þeim samningi.

Veiðarnar hafa jafnan verið töluvert umfram ráðgjöfina, meðal annars með þeim afleiðingum að MSC-vottun veiðanna féll niður á síðasta ári.

Ólíkindatól

Útbreiðsla makríls í Norðaustur-Atlantshafi hefur á síðustu áratugum breyst mikið. Framan af öldinni leitaði makríllinn mikið til vesturs inn á íslensk mið, en fátt virðist vitað um það hvers vegna gönguhegðunin breytist.

„Gangan náði hámarki árin 2014 til 2017 þegar stór hluti stofnsins gekk í vestur. Vesturgangan hefur minnkað mikið síðan þá og var takmörkuð við suðaustur strönd Íslands sumarið 2020,“ segir í nýútkominni skýrslu Hafrannsóknastofnunar um stöðu umhverfis og vistkerfa í hafinu við Ísland.

„Þessar breytingar virðast hvorki tengjast umhverfisbreytingum né stofnstærð,“ segir ennfremur í skýrslunni. „Sögulega tengist viðvera makríls á Íslandsmiðum hlýindaskeiðum en hitastig eitt og sér útskýrir ekki ris og fall vesturgöngunnar síðustu ár. Líklega hafa margir samverkandi þættir áhrif eins og stofnstærð, aldurssamsetning og nýliðun inn í stofninn, fæðuframboð, þekking árganga á gönguleiðum og umhverfisaðstæður.“

Fátt er því vitað um það hvernig ólíkindatólið muni hegða sér á næstu árum, en árið 2020 lét ekki nema um 4% af makrílnum í Norðaustur-Atlantshafi sjá sig á Íslandsmiðum.

Fordæma ákvörðun Norðmanna

Hagsmunasamtök um uppsjávarveiðar í Norður-Atlantshafi, North Atlantic Pelagic Advocacy Group, NAPA, hefur fordæmt einhliða ákvörðun Norðmanna um að færa makrílkvóta sinn úr rúmum 106 þúsund tonnum á síðasta ári í tæp 300 þúsund tonn á þessu ári.

NAPA er markaðsdrifin nálgun sem ætluð er að leiða til umbóta í stjórnun veiða á uppsjávartegundum og leidd af birgjum, og smásöluaðilum. Samtökin voru stofnuð árið 2020, ári síðar en MSC-vottun makrílveiða í Norður-Atlantshafi var felld niður.

NAPA segir að ákvörðun norskra stjórnvalda gangi í berhögg við markmið um samstarf um sjálfbæra nýtingu á þessum mikilvæga stofni.

„Ákvörðun Norðmanna vinnur gegn tilraunum til að ná samkomulagi milli allra aðila um sjálfbæra nýtingu stofnsins til langs tíma og mun leiða til þess að önnur strandríki fari fram á gagnkvæmar hækkanir á sínum kvóta. Afleiðingarnar verða viðvarandi ágreiningur um aflahlutdeild í árlegum afla sem leiðir til veiða langt umfram ráðlagðan kvóta sem byggir í vísindalegum niðurstöðum,“ segir í fréttatilkynningu frá NAPA.

Að samtökunum eiga aðild 50 fyrirtæki á sviði smásölu, veitingaþjónustu og birgja víða um heim.