Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax og Vesturbyggð hafa undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu nýs hátæknivinnsluhúss fyrir eldisfisk á Patreksfirði, svo fremi sem samningar nást og allar forsendur standast.

100 störf

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu en samkvæmt viljayfirlýsingunni hyggst Arnarlax reisa nýtt atvinnuhúsnæði á Vatnseyri á Patreksfirði þar sem áætlað er að starfi um 100 manns. Gert er ráð fyrir að unnt verði að vinna allt að 80.000 tonn af eldisfiski í húsinu.

„Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvenær framkvæmdir geti hafist. Næstu skref eru að ljúka við gerð samninga, teikna upp nýtt deiliskipulag svæðisins og undirbúa framkvæmdir með niðurrifi, flutningi á núverandi starfsemi og uppbyggingu frekari innviða á svæðinu. Jafnframt verður skoðað nánar hvernig núverandi innviðir félagsins á Bíldudal nýtast nærsamfélaginu og fyrirtækinu sem best til áframhaldandi uppbyggingar,“ segir þar en jafnframt að eldra húsnæði Straumness, sem stendur á lóðinni, verði rifið og móttökusvæði fyrir úrgang verði flutt.

Gert er ráð fyrir uppbyggingu stórskipakants við Patrekshöfn, uppsetningu biðkvía við höfnina, auk þess sem gerður verði langtímasamningur um greiðslur til sveitarfélagsins í formi aflagjalda.

Gæfuspor

Í tilkynningunni er haft eftir Birni Hembre, forstjóra Arnarlax, að um tímamóta samkomulag sé að ræða fyrir Vesturbyggð.

„Þetta er fyrsta skrefið af mörgum en viljayfirlýsingin gerir okkur kleift hefja formlegar leyfisumsóknir og hönnunar- og undirbúningsvinnu fyrir uppbyggingu á hátæknivinnsluhúsi á Patreksfirði sem skapa mun fjölmörg verðmæt störf. Fjárfestingin mun jafnframt efla samkeppnishæfni greinarinnar og treysta stöðu fiskeldis á Vestfjörðum til framtíðar.”

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, tekur undir og fagnar mikilvægri framtíðaruppbyggingu á sunnanverðum Vestfjörðum.

„Fiskeldi er stærsti atvinnuvegurinn í landshlutanum og mikilvægt að nú liggi fyrir framtíðarsýn af beggja hálfu um áframhaldandi uppbyggingu fiskeldis og tengdrar starfsemi í Vesturbyggð.“