Stefán Viðar Þórisson tekur á næstunni við sem skipstjóri á Snæfelli EA 310, frystitogara Samherja, en hann hefur verið skipstjóri á þýska frystitogaranum Cuxhaven NC 100 frá því skipið var tekið nýtt í notkun árið 2017.

Samherji greinir frá, en Stefán Viðar hefur verið skipstjóri á skipum Samherja í um tvo áratugi, lengst af erlendis.

Í vikunni var landað um 670 tonnum af afurðum úr Cuxhaven í Hafnarfirði en Stefán Viðar var einmitt skipstjóri í túrnum sem tók alls fimmtíu sólarhringa. Snæfell hélt til veiða á þriðjudaginn undir stjórn Pálma Hjörleifssonar en Stefán Viðar verður skipstjóri á móti Pálma.

Nánar má lesa um Stefán og heimkomu hans á vef Samherja.

Hann segist kveðja Cuxhaven með söknuði en hlakka jafnframt til að taka við nýjum verkefnum uppi á Íslandi.