Undirbúningur að leit að gullskipinu Het Wapen van Amsterdam, sem strandaði á Skeiðarársandi í september 1667, hefur staðið yfir í 3 ár. Forsætisráðuneytið hefur veitt félaginu Anno 1667 leyfi til leitar í janúar 2017 og hyggst það finna skipið í sumar með nýrri leitartækni.

Driffjöðurin að baki Anno 1667 er Gísli Gíslason athafnamaður. Gísli er vel tengdur maður og hefur fengið í lið með sér sérfræðinga og fjárfesta, þar á meðal milljarðamæring, Kanadamanninn Rob McEwen, sem á fjölda gullnáma víða um veröld. Þá eru í hópnum rússneskir leitarsérfræðingar sem unnu sér það til frægðar sumarið 2018 að finna bandaríska sprengjuflugvél sem fórst á Grænlandsjökli 1943 og hafði legið þar grafin um áratugaskeið. Hennar hafði verið leitað allt frá árinu 1950 án árangurs. Það tók Rússana um einn mánuð að finna flugvélina með drónum og sinni tækni.

„Það kemur hópur manna hvaðanæva úr heiminum að verkefninu. Í fyrri leitarleiðöngrum studdust menn við járnleitartæki en vandamálið var það hve lítið járn var í þessu gamla skipi. Það var kopar í kjölfestunni, gull og silfur og fallbyssur úr lélegri járnblöndu. Gull og kopar finnst ekki með þessum leitartækjum. Það stóðu yfir leitir á árunum frá 1960 til 1983 með hléum og skipið hefði aldrei fundist með þeirri tækni sem menn studdust við þá. Við leitum með drónum sem eru útbúnir sérstökum búnaði sem nemur frávik í sandinum, svokölluð tómarúm,“ segir Gísli.

Safn í líkingu við Vasa-safnið

Síðastliðið sumar skönnuðu leitarmenn með rússunum svæðið þar sem Het Wapen van Amsterdam er talið liggja í sandinum.

„Það er ævintýraþráin sem rekur okkur áfram. Ef svo skyldi fara að við finnum skipið í sumar þá þarf þjóðin að ákveða hvað verði gert í framhaldinu. Á að leyfa því að liggja þarna áfram, eða kannski grafa það upp og útbúa safn í líkingu við Vasa-safnið í Stokkhólmi sem er eitt mest sótta safn í heimi. Um þetta þarf að vera sátt meðal þjóðarinnar. Sumir eru þeirrar skoðunar að skipið sé heilt, að sandurinn hafi verndað það í gegnum aldirnar.“

National Geographic áhugasamt

Gísli segir ljóst að íslenska ríkið geri tilkall til verðmæta í skipinu en jafnframt megi búast við því að Hollendingar geri tilkall til þeirra eins og þeir voru að undirbúa árið 1983 þegar Björgun hf. leitaði skipsins.

Het Wapen van Amsterdam er síðasta fjársjóðsskipið frá þessum tíma sem vitað er upp að vissu marki hvar er en hefur ekki enn fundist. 1667 ehf. er í viðræðum við National Geographic sem vilja gera sjónvarpsþætti um leitina og jafnvel taka þátt í henni og fjármagna stóran hluta leitarinnar. Einnig hefur Discovery sjónvarpsstöðin sýnt verkefninu áhuga sem og streymisveitan Netflix. Gísli segir þetta allt til skoðunar.  Einn úr Anno 1667 teyminu, Carl Hall, stýrir þessum viðræðum en hann framleiddi um margra ára skeið sjónvarsefni fyrir Sky sjónvarpsstöðina.

„Við ætlum að finna skipið í sumar svo lengi sem kórónuveiran stoppar okkur ekki,“ segir Gísli.