Uppsjávarflotinn var í einum hnapp á Breiðamerkurdýpi um miðjan dag í gær og flest skipin voru í veiðisamstarfi. Þau voru að fá þetta 200-300 tonn í holi og enginn massaveiði í gangi en stöðug og jöfn veiði af hreinum makríl. Þetta er stór 540 gramma fiskur og segir Bjarni Már Hafsteinsson, skipstjóri á Guðrúnu Þorkelsdóttur SU, þetta mun stærri fisk en veiðist nú í Síldarsmugunni.

Bjarni Már segir mikla átu í íslensku lögsögunni líklega skýringu á þessu. Makríllinn leiti upp að landinu til þar sem fæðan er. Samkvæmt catsat forritinu sem margir nota í uppsjávarskipunum, sem gerir þeim kleift að fylgjast með magni rauðátu í sjónum í gegnum gervihnetti, virðist sem lítið sé af henni í Smugunni en þeim mun meira á Íslandsmiðum. Hann segir það draum uppsjávarsjómannsins þegar makríll veiðist svo nálægt landi og menn þurfa ekki að eyða dýrmætum tíma í langar siglingar til og frá landinu.

Bjarni Már Hafsteinsson, skipstjóri á Guðrúnu Þorkelsdóttur.
Bjarni Már Hafsteinsson, skipstjóri á Guðrúnu Þorkelsdóttur.
© Þorgeir Baldursson (.)

„Við erum á fyrsta holi úti í Breiðamerkurdýpi og flotinn var að gera það mjög gott hérna í Skeiðarárdýpinu í gær. Þá voru menn að fá alveg upp 300 tonn af nánast hreinum makríl en hafa núna fært sig aðeins í norðaustur. Það er talsvert að sjá hérna af makríl,“ segir Bjarni Már.

Makríll af stærstu gerð

Guðrún Þorkelsdóttir er í samstarfi við Jón Kjartansson og Aðalstein Jónsson og byrjað er að setja í Aðalstein Jónsson. Hann segir þetta stærstu gerð makríls og hann er tiltölulega átulaus og frábært hráefni.

„Það er þvílíkur munur að geta náð í þennan fisk hérna í stað þess að þurfa að djöflast langt út í Smugu. Þetta er líka miklu betri fiskur sem við fáum hérna, 540 gramma meðalþyngd, meðan hann er ekki nema 340 grömm úti í Smugu. Makríllinn virðast fara með hitaskilunum hingað að landinu og sækir í þessa miklu átu sem er hérna. Það er engin áta úti í Smugu en hún er í miklu magni hérna við landið. En við eigum stundum dálítið í vandræðum með Íslandssíldina og erum að reyna að fá hreinan makríl. Það er langt síðan makríll hefur veiðst svona innan lögsögunnar, líklega um fjögur ár. Ég held að við séum bara í besta máli með þetta,“ segir Bjarni Már.

Aflamark í makríl á þessu almanaksári er tæp 144 þúsund tonn. Í gær höfðu veiðst rúm 33 þúsund tonn á árinu og þar af um 30 þúsund tonn frá 1. júlí. Á síðasta almanaksári var aflmarkið 148 þúsund tonn og nam aflinn þá rúmum 127 þúsund tonnum.