Samtals voru 54 eldisstöðvar í fullum rekstri árið 2021 og af þeim voru fjórar með lax í sjókvíum í sjö fjörðum og þrjár með regnbogasilung í þremur fjörðum. Öll önnur eldisfyrirtæki voru með starfsemi sína á landi í ýmsum útfærslum.

Þetta kemur fram í ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma fyrir árið 2021.

Þar segir að heilbrigðismál voru almennt á góðum stað, en á skyggði þegar veirusjúkdómurinn blóðþorri var í fyrsta sinn staðfestur hér á landi í sjókví í Reyðarfirði í nóvember.

Alls var slátrað 53.136 tonnum af eldisfiski á liðnu ári og jókst heildarframleiðsla um 31% á milli ára. Þar vó þyngst rúmlega 12.000 tonna aukning á laxi úr sjókvíaeldi sem í fyrsta sinn rauf 40.000 tonna múrinn.

Landeldi á laxi stendur í stað og er rúm 4% af heildinni.

Mest aukning varð á Austfjörðum (71%), en vestfirsk fyrirtæki eru þó enn umfangsmest í laxeldi (22% aukning).

Miðað við framleiðslugetu seiðastöðva og fjölda útsettra seiða á liðnum misserum má reikna með að framleiðsla í laxeldi verði í kringum 50.000 tonn árið 2022 og þar með fari heildarframleiðsla í fiskeldi langleiðina í 60.000 tonn.