Hlutur kvenna í sjávarútvegi verður stærri en nokkru sinni áður á Sjávarútvegsráðstefnunni 2022 sem haldin verður í 10. sinn í Hörpu í dag og á morgun. Áhersluatriði ráðstefnunnar verður „Konur eru líka í sjávarútvegi“. Dagskráin hefst með ávarpi Hólmfríðar Sveinsdóttur, formanns stjórnar ráðstefnunnar. Sigríður Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri líftæknifyrirtækisins Primex á Siglufirði, flytur opnunarávarp og Margrét Pétursdóttir, gæðastjóri hjá Vísi í Grindavík og nýr formaður Félags kvenna í sjávarútvegi, flytur erindi.

Að þessu sinni koma fram 70 fyrirlesarar á ráðstefnunni og 40% þeirra eru konur. Málstofurnar verða alls 15 og í 10 þeirra verða konur málstofustjórar.

Ásta Dís Óladóttir, dósent við Háskóla Íslands, flytur fyrsta erindið í opnunarmálstofunni, Íslenskur sjávarútvegur. Erindi hennar nefnist „19-0. Hvar eru konurnar?“ og fjallar um stöðu kvenna innan sjávarútvegs. Í málstofunni verður farið yfir stöðu kynjanna í sjávarútvegi, sölu og markaðssetningu og ímynd íslensks sjávarútvegs ásamt því að fjallað verður um hann í samhengi við sjávarútveg í Danmörku og Noregi. Málstofustjóri verður Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka. Að lokinni opnunarmálstofunni verða málstofur um samkeppnishæfni íslenskra fiskframleiðenda, sjálfbærni, muninn á norskum og íslenskum makríl og stöðu, nýjungar og framtíðarhorfur í fiskvinnslu. Í síðustu málstofunni í dag verður fjallað um mikilvægi loðnunnar í efnahagslegum og líffræðilegum skilningi.

Þorskurinn og þjóðarbúið

Á morgun verða málstofur um þorskinn og þjóðarbúið, markaðsmál, nýsköpun og fjárfestingar, öryggismál, menntun og umhverfismál en einnig málstofur þar sem fjallað verður um nýtingu dýrasvifs og miðsjávartegunda sem og um vísindalega samvinnu sjávarútvegsins, sjómanna og Hafró um gagnasöfnun o.fl. Málstofa um líftækni og nýsköpun mun fjalla um framtíðarþróun í framleiðslu próteina í heiminum, verðmætasköpun með líftækni, þróun á fiskvinnsluvél fyrir líftækniiðnað og tækifæri í tengslum við vistvænar umbúðir.

Þrjú fyrirtæki hafa verið valin úr hópi tilnefndra fyrirtækja til Hvatningarverðlauna Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM. Sidewind er sprotafyrirtæki sem hefur hannað nýja lausn sem er ætlað að virkja vindorku og draga úr olíunotkun í gámaflutningaiðnaðinum um 5-30%. Kerecis er leiðandi líftæknifyrirtæki og frumkvöðull í notkun á roði og fitusýrum á alþjóðlegum og sístækkandi markaði fyrir lækningavörur. Og að lokum er sjávarútvegsfyrirtækið Brim tilnefnt til verðlaunanna. Hólmfríður Sveinsdóttir, formaður stjórnar Sjávarútvegsráðstefnunnar, segir að dómnefnd Hvatningarverðlaunanna vilji vekja sérstaka athygli á vegferð Brim hf. í tengslum við umhverfismál. Brim hafi verið leiðandi í innleiðingu á sjálfbærniviðmiðum inn í sinn rekstur og sé sífellt að leita nýrra leið til að fullvinna afurðir og hliðarstrauma.

Skemmst er frá því að segja að sprotafyrirtækið Sidewind hlaut Hvatningarverðlaunin að þessu eins og lesa má um hér.

Ráðstefnuheftið má nálgast á hlekknum  https://sjavarutvegsradstefnan.is/dagskrain2022/#section-4