Landað var yfir 300 tonnum á sunnudag og mánudag úr fjórum skipum Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Vestmannaney landaði á sunnudagsmorgun 61 tonni og var uppistaða aflans þorskur. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri var nokkuð sáttur með túrinn.

„Þetta var stuttur túr og var fiskað á Digranesflaki og Glettinganesi. Það er mikið af fisk á svæðinu og liggur þorskurinn í síldinni sem heldur sig á svæðinu. Við erum núna mættir á veiðar á Gulateppinu og erum að reyna við ýsu.“

Fjölnir GK línuskip dótturfélagsins Vísis kom strax í kjölfarið á Vestmannaey og var hann með 100 tonn sem fékkst í fimm lögnum eystra. Í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar sagði Jón Ingi: „Við tókum tvær lagnir í Reyðarfjaðardjúpi og færðum okkur svo yfir í Seyðisfjarðardýpið.“

Gullver Ns landaði svo í heimahöfn á mánudagsmorgun og var skipið með 93 tonn sem fékkst á þremur dögum og var skipið með 79 tonn af þorsk og 13 tonn af ýsu.

„Þetta gekk með besta móti við keyrðum beint út á Digró og fengum þar 70 tonn af þorsk svo færðum við okkur yfir á Gletting og reyndum við ýsu í restina. Þetta var stuttur túr en það fiskaðist vel,“ sagði Þórhallur Jónsson skipstjóri.

Gullver stoppaði í kjölfar löndunar en heldur á sjó í kvöld. Bergur VE kom svo í kjölfarið á Gullver með fullfermi, 70 tonn og var aflinn mest þorskur eða 44 tonn en þó aðeins af ýsu 18 tonn og 6 tonn af ufsa. Bergur landaði síðast í Grindavík og því búinn að sigla og veiða víða í túrnum. Jón Valgeir skipstjóri sagði eftirfarandi: „Við byrjuðum að reyna við fisk í Háfadýpinu rétt við eyjar en það var lítið að hafa. En við færðum okkur austur á Breiðdalsgrunn og lentum í flottum fiski þar. Núna erum við á Gulateppinu að reyna við ýsu.“