Norðmenn og Rússar hafa komist að samkomulagi um að draga úr veiði á þorski úr Barentshafi fyrir næsta ár um 20% í samræmi við vísindalega ráðgjöf. Þetta þýðir að leyfð heildarveiði verður 567 þúsund tonn á næsta ári.

Veiðiheimildir Norðmanna á næsta ári verða 261 þúsund tonn af þorski og 84 þúsund tonn af ýsu en heildar aflamarkið verður 170 þúsund tonn í ýsu. Þjóðirnar ákváðu að hefja loðnuveiðar á næsta ári með 62 þúsund tonna kvóta og af honum falla 37 þúsund tonn í hlut Norðmanna.

Samkomulagið nær einnig til rannsókna og eftirlits. Um langt árabil hefur verið vísindalegt samstarf milli þjóðanna um rannsóknir á sjávarlífverum og vistkerfinu í Barentshafinu. Samkomulag tókst um að hrinda í framkvæmd sameiginlegum rannsóknaverkefni á þessu sviði á næsta ári.

Rússneskum vísindamönnum hefur tímabundið verið vikið úr Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Samkomulag þjóðanna um aflamark í Barentshafi var því gert í tvíhliða viðræðum starfshópa sjávarrannsóknastofnunar Noregs og rússnesku vísindastofnunarinnar VNIRO. Stuðst var við aðferðafræði ICES um mat á stofnum og ráðgjöf.