Talið er nauðsynlegt að liðka fyrir því að veiðar íslenskra skipa hefjist að nýju á bláuggatúnfiski. Því er stefnt að lagasetningu sem veiti tímabundnar heimildir til að taka á leigu sérhæfð erlend skip til veiðanna í því augnamiði að viðhalda veiðireynslu Íslands. Eins er markmiðið að kanna hagkvæmni veiðanna og byggja upp innlenda sérþekkingu á veiðum á þessu eftirsótta sjávarfangi.

Þetta kemur fram í samráðsgátt stjórnvalda en Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið áformar að leggja fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða vegna mögulegra veiða. Þetta er annað tveggja sjávarútvegstengdra mála á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og Svandísar Svavarsdóttur, nýs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem birtur var í byrjun desember. Málið er nú til umsagnar en frestur til skila er til 18. janúar næstkomandi.

Rýrna og hverfa

Ísland hefur náð að tryggja sér umtalsverðar veiðiheimildir af bláuggatúnfiski á vettvangi Atlantshafs-túnfiskveiðiráðsins (ICCAT). Undanfarin ár hafa íslensk skip þó ekki stundað þessar veiðar. Að óbreyttu gætu þessar veiðiheimildir því rýrnað eða horfið með öllu vegna þessa.

Ráðuneytið hefur verið með til skoðunar valkosti um hvernig hægt sé að stuðla að því að túnfiskveiðar íslenskra skipa hefjist að nýju og verði hluti af íslenskum sjávarútvegi til framtíðar, með fullnýtingu hlutdeildar Íslands.

„Gert er ráð fyrir frumvarpi sem leggur til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, á lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri,“ segir á Samráðsgáttinni.


Gert er ráð fyrir að ákvæðin yrðu tímabundin bráðabirgðaákvæði sem miðuðu að því að heimilt væri í þessum sérstöku aðstæðum sem uppi eru að veiðiheimildir séu ekki nýttar að íslenskir aðilar gætu tekið á leigu erlend skip til veiðanna, eingöngu til veiða á bláuggatúnfiski, samkvæmt heimildum frá ICCAT sem yrði tímabundin.

80-90 tonn á land

Einn túnfiskstofn, sem er Austur Atlantshafstúnfiskur, gengur inn í íslenska lögsögu. Um er að ræða einhverja verðmætustu sjávarafurð sem til er þegar fiskurinn nær á markað. Túnfiskurinn sem gengur inn í íslensku lögsöguna veiðist allt frá Miðjarðarhafi og norður undir Ísland. Talið er að hann sé hér á haustin í ætisleit við nyrstu mörk útbreiðslu sinnar.

Fiskifréttir hafa fjallað um túnfiskveiðarnar, og tilraunir til þeirra, undanfarin ár. Fyrsta tilraunin til að veiða kvótann var gerð árið 2012. Vísir í Grindavík hefur til þessa náð bestum árangri, en árin 2014 og 2015 var línuskipið Jóhanna Gísladóttir gerð út á túnfisk með góðum árangri og færði á land um 48 tonn samtals. Árið 2016 skiluðu veiðarnar litlu og hefur veiðum ekki verið sinnt síðan, hvorki af Vísismönnum né öðrum.

Heildarveiði Íslendinga á túnfiski eftir inngöngu í túnfiskveiðiráðið árið 2002 er á milli 80 og 90 tonn. Meirihlutinn hefur veiðst í beinum veiðum en rúmlega 30 tonn eru meðafli, helst á makrílveiðum. Því má segja að af íslenska kvótanum frá því árið 2003 hafi um 1.200 tonn brunnið inni, en samanlagðar aflaheimildir Íslands frá upphafi eru 1.290 tonn.